Samkvæmt lögum um ársreikninga (nr. 3/2006) ber félögum á Íslandi að skila ársreikningi eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Rúm 99% af þeim félögum, sem hafa skilað ársreikningi undanfarin ár, hafa sama uppgjörstímabil og almanaksárið og ber því að skila ársreikningi í síðasta lagi 31. ágúst ár hvert.

Nú þegar hafa um 4.400 fyrirtæki skilað ársreikningi fyrir reikningsárið 2018, eða um 12,5% allra fyrirtækja sem skiluðu ársreikningi árið á undan. Þessi 4.400 fyrirtæki áttu þó um 39% af heildareignum og öfluðu um 32% af heildartekjum allra fyrirtækja reikningsárið 2017. Ein skýringin á þessu er að mörg stór fyrirtæki, svo sem bankarnir og fyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands, skila ársreikningi að jafnaði á fyrstu mánuðum hvers árs.

10% ferðaþjónustufyrirtækja hafa skilað ársreikningi

Nú þegar ferðaþjónustan er mikið í umræðunni er áhugavert að skoða þróun skila hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Nú hafa um 10% ferðaþjónustufyrirtækja skilað ársreikningi fyrir 2018. Þróun heildarhlutfalls tekna og eigna reikningsársins 2017 hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem hafa skilað ársreikningi fyrir reikningsárið 2018 má sjá á myndunum hér fyrir neðan.

Nú eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni og ljóst að fall WOW air hf. hefur haft slæm áhrif á mörg fyrirtæki í greininni. Það er vandkvæðum bundið að spá fyrir um stöðuna og horfur í greininni eingöngu út frá ársreikningum á þessum tímapunkti, sérstaklega þ.s. nýjustu rekstrartölur langflestra fyrirtækjanna eru eingöngu frá árinu 2017. Það verður hins vegar fróðlegt að fylgjast með þróuninni í greininni þegar fleiri ársreikningar fyrir 2018 berast. Ekki verður þó hægt að meta almennilega áhrif falls WOW air ehf. á greinina fyrr en rekstrarniðurstöður ársins 2019 taka að berast í upphafi næsta árs.

Hér er hægt að fá aðgang að öllum ársreikningum í grunni Creditinfo.