Hlutur kvenna í stjórnunarstöðum á Íslandi hefur vaxið hægt á síðustu árum.

Konur eru 24,84% skráðra framkvæmdastjóra í íslenskum félögum samkvæmt gögnum frá Creditinfo sem tekin voru saman í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna í dag. Hlutfallið hefur aukist um tvö prósentustig frá árinu 2013 og líkt og myndin hér fyrir ofan sýnir hefur lítil breyting orðið á því á síðustu sex árum.

Sé litið til skráðra félaga á Aðalmarkað Kauphallarinnar þá liggur fyrir að engin kona hefur þar gengt stöðu forstjóra frá árinu 2017 en aðeins ein kona var forstjóri skráðs félags á markaði fram að þeim tíma.

Önnur mynd blasir við þegar vikið er að hlutfalli kvenna í stjórnum félaga. Konur eru 33,53% stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum og hefur það hlutfall aukist um rétt rúm tvö prósentustig frá árinu 2013.

Hlutfall kvenna í stjórnum skráðra fyrirtækja er öllu meira en þar eru 45,26% stjórnarmanna konur. Það hlutfall hefur vaxið um rúm sex prósentustig frá árinu 2013.