Creditinfo birti í dag lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2019. Þetta er í ellefta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu en í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. 

Fjöldi Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010-2020

Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf. 

Það sem einkennir listann í ár er að byggingarfyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 115 talsins. Ferðaþjónustufyrirtækjum fer fækkandi eða frá 80 fyrirtækjum í fyrra niður í 64 í ár. Þá fækkar fjármála- og vátryggingafélögum á lista sömuleiðis og eru þau nú 30 miðað við 41 á síðastliðnu ári. 

Líklegar ástæður fyrir fækkun ferðaþjónustufyrirtækja geta verið að áhrifin af falli Wow Air koma fyrst í ljós í ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2019 auk þess sem einhverra áhrifa frá COVID-19 faraldrinum er þegar farið að gæta í rekstri þeirra.

Í viðtali við Morgunblaðið segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, að það skiptir máli fyrir íslenskt efnahagslíf að sem flest fyrirtæki stundi heilbrigðan og stöðugan rekstur. „Okkar von er sú að með því að veita þessa viðurkenningu náum við að draga fram jákvæðar fyrirmyndir fyrir íslenskt atvinnulíf svo það nái áfram að blómstra. Á þessum krefjandi tímum sem við stöndum frammi fyrir núna er sérstaklega mikilvægt að hvetja íslenskt atvinnulíf til dáða og fagna framúrskarandi árangri í rekstri.“  

Framúrskarandi samfélagsábyrgð og nýsköpun

Í fjögur ár hefur Creditinfo veitt hvatningarverðlaun fyrir nýsköpun og samfélagsábyrgð þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á þeim sviðum í hópi Framúrskarandi fyrirtækja. 

Árið 2020 hlýtur tæknifyrirtækið Valka hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun.

Hvatningarverðlaun um framúrskarandi nýsköpun eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups og í dómnefnd árið 2020 sitja Ragnheiður H. Magnúsdóttir, ráðgjafi í upplýsingatækni, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Árið 2020 hlýtur tryggingafélagið Vörður verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsábyrgðar.

Framúrskarandi samfélagsábyrgð er verðlaunuð í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Í dómnefnd sitja Sæmundur Sæmundsson (formaður), sjálfstætt starfandi, Gréta María Grétarsdóttir, verkfræðingur og Gunnar Sveinn Magnússon sérfræðingur í sjálfbærni, Íslandsbanki hf.

Skilyrði Framúrskarandi fyrirtækja: 

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3 
  • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag 
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo 
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK 
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár 
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár 
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár  
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár 
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár 

Hlekkir

Öll fyrirtæki sem hafa verið á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2010

Sérvefur Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki 2020

Sérblað Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki 2020

Hvað gera Framúrskarandi fyrirtæki?

Ein athugasemd á “842 Framúrskarandi fyrirtæki 2020

Lokað er fyrir athugasemdir.