Creditinfo veitti í gær 874 fyrirtækjum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í Hörpunni. Þetta er tíunda árið sem viðurkenningin er veitt en aðeins um 2% allra skráðra fyrirtækja náðu þessum árangri í ár.

Á fyrsta listanum sem var birtur árið 2010 var samanlögð ársniðurstaða fyrirtækja 9,5 milljarðar króna en í ár hljómar hún upp á ríflega 230 milljarða króna. Það fyrirtæki sem greiddi hæstu skattana fyrir rekstrarárið 2018 var Landsvirkjun en félagið greiddi um 7 milljarða í skatta. Þar á eftir greiddi Marel rúmlega 3 milljarða í skatta og Össur tæpa 2 milljarða.

Hér er hægt að skoða öll þau fyrirtæki sem hafa verið á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2010.

Hér er að finna glæsilegan sérvef Morgunblaðsins þar sem hægt að skoða lista ársins 2019 í heild sinni, viðtöl við stjórnendur Framúrskarandi fyrirtækja og pdf útgáfu af veglegu sérblaði Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki sem kom út samhliða viðburðinum.

1.100 gestir í Hörpu

Tæplega 1.100 manns komu saman í Hörpu í gær þar sem Framúrskarandi fyrirtæki fögnuðu árangrinum og veitt voru verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og framúrskarandi nýsköpun. Hér er hægt að sjá myndir frá viðburðinum og hér er að finna myndir af fulltrúum Framúrskarandi fyrirtækja af myndavegg.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti Marel verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og Men & mice fyrir framúrskarandi nýsköpun. Á viðburðinum í Hörpu héldu auk dómsmálaráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo framsögu.

Brynja Baldursdóttir sagði í sínu erindi að á þeim 10 árum sem Creditinfo hefur unnið lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki í íslensku atvinnulífi hefur fyrirtækjum á listanum fjölgað úr 178 í 874.  „Í ár er þriðja árið í röð þar sem fjöldi fyrirtækja á listanum stendur nokkurn veginn í stað. Það þýðir að ákveðnu jafnvægi og stöðugleika sé náð sem hlýtur að vera fagnaðarefni þar sem stórar sveiflur eru ekki af hinu góða. Íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir spennandi tækifærum á næstu árum, bæði á alþjóðavísu og hér heima, og verður spennandi að sjá hvernig listinn mun þróast næstu 10 árin í takt við íslenskt atvinnulíf,“ sagði Brynja enn fremur.

Marel hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð

 „Það er sannarlega mikil hvatning fyrir okkur að fá verðlaun sem þessi og halda áfram á sömu braut. Við þurfum að vera og erum mjög markviss í öllum okkar aðgerðum tengdum samfélagslegri ábyrgð. Það er mikil matarsóun í virðiskeðjunni á heimsvísu eða um 1,3 milljarðar tonna á ári, eitthvað sem við getum ekki litið fram hjá. Að sama skapi teljum við það vera mikilvægt tækifæri að nýta tækni og nýsköpun til þess að þróa lausnir sem nýta verðmætar auðlindir á skynsaman hátt. Við teljum þá einnig að grundvöllur fyrir langtíma verðmætasköpun felist í að líta á hlutverk fyrirtækja í víðara samhengi, að huga að öllum haghöfum og skila virðisaukningu til samfélags, viðskiptavina, starfsmanna og hluthafa,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi.

Men & Mice hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun

„Frumleg hugsun og sköpun er eitthvað sem við hjá Men & Mice leggjum mikið upp úr. Við erum snortin og stolt að fá verðlaun fyrir nýsköpun á þessum tímapunkti. Umhverfi félagsins tekur stöðugum breytingum og fyrirtækið stendur frammi fyrir nýjum sóknarfærum á tímum hraðra tæknibreytinga. Varan okkar er einstök á alþjóðavísu og byggð á traustum grunni. Teymið okkar innanhúss er sterkt sem gefur okkur byr undir báða vængi til að sækja fram með þeim hætti sem við ætlum okkur næstu árin,” segir Magnús E. Björnsson forstjóri Men & Mice


Skilyrði Framúrskarandi fyrirtækja:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma samkvæmt lögum
  • Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo 
  • Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna 2017 og 2018
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú rekstrarár
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú rekstrarár
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú rekstrarár
  • Eignir yfir 100 milljónir króna 2018, 100 milljónir króna 2017 og 90 milljónir króna 2016

Hlekkir:

Listi yfir öll Framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi

Myndir frá viðburðinum

Myndir af fulltrúum Framúrskarandi fyrirtækja við myndavegg

Sérvefur Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki

Sérblað Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki

Upptaka af viðburðinum í heild sinni

Ein athugasemd á “874 Framúrskarandi fyrirtæki 2019

Lokað er fyrir athugasemdir.