Creditinfo kynnti í gær sinn árlega lista yfir framúrskarandi fyrirtæki en alls komust 875 fyrirtæki, jafnt lítil sem stór, á listann. Yfir þúsund manns mættu í Hörpu í tilefni valsins og mátti sjá forsvarsmenn bæði stærstu fyrirtækja landsins og niður í smærri fjölskyldufyrirtæki en valið helgast fyrst og fremst af því hversu vel rekin fyrirtækin eru en í fyrsta sinn þurftu stærri fyrirtækin einnig að svara spurningum um samfélagslega ábyrgð til að vera gjaldgeng á listann.

Forsætisráðherra ávarpaði samkomuna og hvatti hún fyrirtæki til að taka aukna ábyrgð gagnvart samfélaginu og taka enga ákvörðun án þess að huga fyrst að samfélagslegum áhrifum hennar, bæði efnahagslegum og umhverfislegum. „Íslenskt atvinnlíf á ótrúlegt sóknarfæri í að birta ekki bara ársreikninga um krónur og aura heldur telja einnig hvað þau eru að gera til að bæta líðan starfsfólks, til að kenna starfsfólkinu íslensku, stuðla að heilbrigði þess og auðvitað umhverfisáhrif starfseminnar.“

Skilaboð Katrínar Jakobsdóttur rímuðu vel við orð Hrefnu Aspar Sigfinnsdóttur, forstjóra Creditinfo, en hún sagði viðstöddum frá því að búið sé að taka saman kolefnisspor allra helstu fyrirtækja á Íslandi út frá stærð og atvinnugrein. Þær upplýsingar verði framvegis að finna á vef Creditinfo, rétt eins og hefðbundar fjárhagsupplýsingar. „Þetta er mikilvæg þjónusta fyrir fjárfesta og aðra sem sett hafa sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og siðareglur í viðskiptum, sagði Hrefna Ösp.“

Aðeins 2% fyrirtækja teljast framúrskarandi
Þetta er í þrettánda sinn sem Creditinfo veitir framúrskarandi fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi vottun fyrir góðan og traustan rekstur. Alls hafa 1.881 fyrirtæki einhvern tímann komist á listann en aðeins 54 þeirra hafa hlotið nafnbótina öll árin. Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki teljist framúrskarandi er m.a. horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, og þegar litið sé til síðustu þriggja ára sé rekstrarhagnaður, ársniðurstaðan jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 millj. kr. og eiginfjárhlutfall a.m.k. 20%. Um 39 þúsund fyrirtæki skila ársreikningi en þegar litið er til allra annarra skilyrða sem fyrirtæki þurfa að uppfylla, þá teljast aðeins um 2% fyrirtækja framúrskarandi.

Veglegt sérblað fylgir Morgunblaðinu

Hægt er að sjá viðtöl við forsvarsmenn fjölbreyttra Framúrskarandi fyrirtækja ásamt áhugaverðri tölfræði í veglegu sérblaði Morgunblaðsins.

Hvatningarverðlaun um sjálfbærni og nýsköpun

Líkt og fyrri ár voru sérstök hvatningarverðlaun um sjálfbærni og nýsköpun veitt. Hvatningarverðlaun um sjálfbærni, sem veitt eru í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, hlutu fasteignafélagið Reginn hf. Hvatningarverðlaun um nýsköpun hlutu síðan tæknifyrirtækið Origo hf.