Fyrirtækjum á Íslandi sem skiluðu hagnaði fjölgaði milli ára 2020 og 2021 í helstu atvinnugreinum, þar af mest innan ferðaþjónustunnar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og var unnin úr ársreikningum þeirra fyrirtækja sem skilað hafa ársreikningi fyrir árið 2021.  

Í greiningunni kemur m.a. fram að hlutfallslega fleiri fyrirtæki skiluðu hagnaði 2021 en árin á undan. Um 57% virkra fyrirtækja skiluðu hagnaði árið 2021 í samanburði við 45% árin 2020 og 2019. Afkoma batnaði milli ára hjá 60% fyrirtækja (milli 2020 og 2021) í samanburði við 46% fyrirtækja árið áður (milli 2019 og 2020).

Í greiningunni var miðað við þróun þriggja ára (2019 til 2021) hjá fyrirtækjum sem hafa skilað ársreikningi fyrir öll árin 2019 til 2021. Um 75% fyrirtækja hafa skilað ársreikning fyrir reikningsárið 2021 en almennur frestur er út september 2022. Einungis voru skoðuð fyrirtæki í virkri starfsemi skv. skilgreiningu Creditinfo. Heildarfjöldi fyrirtækja sem uppfylla þessi skilyrði er um 13.500.

Ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný

Mesta breytingin varð á meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu en afkoma batnaði hjá um 74% ferðaþjónustufyrirtækja á milli 2020 og 2021 í samanburði við 27% milli 2019 og 2020. Í öllum helstu atvinnugreinum voru hlutfallslega fleiri fyrirtæki með bætta afkomu milli 2020 og 2021 en milli 2019 og 2020 auk þess sem að hlutfallslega fleiri fyrirtæki skiluðu hagnaði á sama tímabili í öllum atvinnugreinum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Kári Finnsson, markaðs- og fræðslustjóri Creditinfo, að samantektin sýni fram á að hagur íslenskra fyrirtækja sé almennt að vænkast. „[Kórónuveiruf]araldurinn hafði ekki slæm áhrif á rekstur allra fyrirtækja,“ segir Kári. „Ferðaþjónustan er sú grein sem fór verst út úr faraldrinum en þessar tölur gefa til kynna að hún sé að ná vopnum sínum á ný.“

Tekjur og afkoma hækka

Í greiningunni kemur einnig fram að miðgildi ársniðurstöðu (afkomu) þeirra fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi 2021 hækkaði mikið milli ára í öllum helstu atvinnugreinunum Í ferðaþjónustu var miðgildið neikvætt um 1,3 m.kr. árið 2020 en var orðið jákvætt um 1,3 m.kr. árið 2021. Í fjármála- og vátryggingastarfsemi tæplega áttfaldaðist miðgildið (úr 2,8 m.kr. í 21,7 m.kr.) og hækkaði afkoman einnig í öðrum geirum.

Hið sama gildir um miðgildi rekstrartekna sem jókst í öllum helstu atvinnugreinum, þó mest í ferðaþjónustu en miðgildi rekstrartekna í þeirri atvinnugrein jókst um 134% í þeirri atvinnugrein. Almenn aukning í öðrum helstu atvinnugreinum var á bilinu 28% – 100%.

Framúrskarandi fyrirtæki

Listi yfir þau fyrirtæki sem teljast Framúrskarandi að mati Creditinfo verður gerður opinber 19. október næstkomandi með hátíð í Hörpu og veglegu sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu. Miðað við þær niðurstöður sem ofangreind greining sýna fram á verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig fjöldi Framúrskarandi fyrirtækja mun þróast.

Fjallað var um greiningu Creditinfo í Morgunblaðinu sem gefið var út 6. október 2022.