Dagný Dögg Franklínsdóttir forstöðumaður Viðskiptastýringar hjá Creditinfo skrifar um hvernig ákvarðanir byggðar á áreiðanlegum gögnum í bland við innsæi eru líklegri til að leiða til betri árangurs í Markaðnum.

Sálfræðingurinn Daniel Kahneman segir frá því í bókinni Thinking Fast and Slow þegar hann var settur í það hlutverk að útbúa kerfi til að ákveða hverjir ættu að gegna herþjónustu í ísraelska hernum. Fram að því voru slíkar ákvarðanir teknar af sérfræðingum sem lögðu mat á hversu hæfir umsækjendur voru út frá 15-20 mínútna viðtölum. Í ljós kom að þessi viðtöl höfðu ósköp lítið að segja um frammistöðu umsækjenda þegar að herþjónustunni kom. Kahneman bjó til einfalt kerfi til að vinna bót á þessu. Hann lagði til að umsækjendur yrðu metnir út frá sex mismunandi persónueinkennum sem hann taldi líklega til árangurs í herþjónustu og útbjó staðlaðan spurningalista út frá þeim. Markmiðið var að útbúa eins hlutlaust mat og kostur var á og koma í veg fyrir að þeir sem tækju viðtölin myndu reiða um of á persónutöfra umsækjenda við ákvörðun sína. Nokkrum mánuðum síðar kom það svo í ljós að nýja kerfið reyndist vera umtalsvert betra en það gamla og rúmum sextíu árum síðar er það enn í notkun. 

Aukið aðgengi 

Þetta dæmi sýnir okkur að ákvarðanir sem byggðar eru á áreiðanlegum gögnum og hlutlausu mati eru alla jafna líklegri til árangurs en þær sem reiða einungis á innsæi. Í viðskiptum og í okkar daglega lífi stöndum við reglulega frammi fyrir ákvörðunum sem mættu betur vera teknar með vísan í traustar heimildir og skilvirka ferla. Á síðustu árum hefur aðgengi okkar að slíkum heimildum stóraukist. Núna getur t.d. hver sem er sótt ársreikninga, lánshæfismat og upplýsingar um eignarhald fyrirtækja hjá Creditinfo. Öllum er fært að sjá rekstrarsögu fyrirtækja, líkurnar á því að þau fari í vanskil og rekja hvert endanlegt eignarhald þeirra er. Það þýðir að bæði einstaklingar og fyrirtæki geta flett upp nauðsynlegum upplýsingum um þá sem þeir ætla í viðskipti við og tekið upplýstar ákvarðanir um viðskiptasambandið.

Sjálfvirkar ákvarðanir

Þegar taka þarf ákvörðun um að fara í viðskiptasamband þarf að styðjast við traust gögn í bland við sérfræðiþekkingu. Flestir kanna t.d. lánshæfismat nýrra viðskiptavina samhliða því hvað reynslan segir um sambærilega kúnna áður en ákvörðun er tekin um að veita þeim úttektarheimild. Í takt við öra tækniþróun síðustu ára hefur aukin áhersla verið lögð á sjálfvirka ákvörðunartöku í viðskiptum. Gott dæmi um slíkt er sjálfvirkt greiðslumat þegar einstaklingar taka húsnæðislán eða sjálfvirkir ákvörðunarferlar sem leggja mat á úttektarheimildir einstaklinga og fyrirtækja. Allar líkur eru á því að slíkar ákvarðanir verði fyrirferðameiri í okkar daglega lífi þegar fram líða stundir. 

Þýðir það að tölvurnar séu að taka yfir störfin okkar eins og margir eru hræddir um? Þvert á móti gera tækniframfarir og aukið aðgengi að áreiðanlegum gögnum okkur kleyft að taka skilvirkari og upplýstari ákvarðanir. Sjálfvirkir ferlar draga úr hættunni á mannlegum mistökum og skapa rými fyrir agað innsæi sérfræðinga við ákvarðanatöku. Nú þegar gögn eru bæði orðin umfangsmeiri og aðgengilegri en áður er mun auðveldara fyrir okkur að taka upplýstar ákvarðanir í krafti traustra gagna.

Dagný Dögg Franklínsdóttir
Forstöðumaður viðskiptastýringar Creditinfo