Alzheimersamtökin hlutu samtals 1.312.400 kr í styrk úr árlegri góðgerðarsöfnun starfsfólks Creditinfo. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, stjórnarformaður Alzheimersamtakanna, tók á móti söfnunarfénu fyrir hönd samtakana.

Undanfarin ár hefur Creditinfo valið að senda ekki út jólakort, en leggja þess í stað starfsfólki fyrirtækisins lið við söfnun sem óskipt er látin renna til verðugs málefnis. Í þetta sinn voru Alzheimersamtökin fyrir valinu en þau styðja einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra með fjölbreyttri og öflugri starfsemi.

Ýmsar leiðir hafa verið farnar við góðgerðarsöfnunina síðastliðin ár en að þessu sinni kom meginþorri söfnunarfésins frá góðgerðarbingói starfsmanna Creditinfo sem starfsmannafélag Creditinfo stóð fyrir og starfsmenn söfnuðu vinningum fyrir. Fjölmörg fyrirtæki lögðu söfnuninni lið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Að venju lagði svo Creditinfo fram sem mótframlag jafnháa upphæð og safnaðist meðal starfsfólks.

Á síðasta ári styrkti söfnunin Minningarsjóð Ölla og árið áður nutu Píeta samtökin söfnunarinnar.

Við þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegrar hátíðar, friðar og farsældar á komandi ári.

Um Alzheimersamtökin

Yfirlýst markmið Alzheimersamtakanna er að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, efla samvinnu og samheldni aðstandenda með fræðslufundum og útgáfustarfsemi og auka skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem þessir einstaklingar og aðstandendur þeirra eiga við að etja. Þessum markmiðum ná samtökin með því að halda úti öflugu ráðgjafa- og fræðslustarfi s.s. með reglulegum fræðslufundum sem streymt er á netinu, fræðslu til stofnana og fyrirtækja og með því að halda úti öflugri  heimasiðu og á samfélagsmiðlum. Þá er hægt að panta ráðgjöf bæði einstaklings og fyrir fjölskyldur auk þess sem hægt er að hringja í ráðgjafasímann.

Nánari upplýsingar um Alzheimersamtökin er að finna á heimasíðu samtakanna.