Árið 2020 var vægast sagt viðburðarríkt ár. Það sem bar hæst á árinu var COVID-19 faraldurinn sem gjörbylti allri heimsbyggðinni á árinu sem er að líða og heldur áfram að hafa áhrif á árinu 2021. Fyrsta tilfelli COVID-19 greindist í Wuhan í Kína í lok desember á síðasta ári og greindist fyrsta dauðsfallið vegna hennar 11. janúar. Fréttum um veiruna fór að fjölga á Íslandi eftir því sem að smitum fjölgaði fyrir utan Kína.

Í fyrstu var rætt um kórónaveiruna í íslenskum fjölmiðlum og því var lítið minnst á COVID-19 fyrr en í lok febrúar á síðasta ári. Þegar fyrsta smitið greindist á Íslandi 28. febrúar síðastliðinn jókst fréttaflutningur íslenskra miðla um veiruna verulega og náði ákveðnu hámarki um miðjan mars, stuttu eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti því yfir að útbreiðsla COVID-19 flokkaðist sem heimsfaraldur. Eftir það fór fréttum að fjölga umtalsvert en þegar hæst bar voru fluttar 372 fréttir um COVID-19 20. mars 2020. Samtals voru fluttar 41.492 fréttir sem innihéldu orðið COVID á árinu sem er að líða.

Stofnanir og fyrirtæki í fréttum árið 2020

Líkt og fyrri ár voru stjórnmálaflokkar fyrirferðamestir í fréttum á árinu 2020. Samtals voru fluttar rúmar 14.000 fréttir um Sjálfstæðisflokkinn á árinu sem var að líða og um 12.000 fréttir voru fluttar af Vinstri grænum. Áhrifa COVID-19 gætir þegar litið er til hástökkvaranna á listanum yfir þær stofnanir sem voru mest í fréttum á árinu 2020. Embætti Landlæknis var í þriðja sæti í ár yfir þær stofnanir sem voru mest í fréttum á á árinu 2020 en voru í 37. sæti á árinu 2019. Ríkislögreglustjóri var síðan í fjórða sæti á árinu 2020 en var í 45. sæti á árinu 2019 með samtals rúmlega 11.000 fréttir.

Þegar listinn er þrengdur niður á ársreikningaskyld félög þá sést glögglega að eitt fyrirtæki var mun fyrirferðameira í fjölmiðlum en önnur á árinu sem var að líða. Samtals voru fluttar um 6.000 fréttir um Icelandair á árinu sem er að líða en þar á eftir kemur Íslensk erfðagreining með um 3.100 fréttir. Á eftir þeim voru það viðskiptabankarnir þrír Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki sem mest var fjallað um í fjölmiðlum árið 2020.


Vilt þú vita hvernig fjallað var um þitt fyrirtæki á árinu sem var að líða? Kynntu þér fjölmiðlaskýrslu Creditinfo.

3 athugasemdir á “Árið 2020 í fjölmiðlum

Lokað er fyrir athugasemdir.