Byggingavöruverslunin BYKO fékk verðlaun fyrir árangur á sviði samfélagsábyrgðar meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2021. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

Markvisst unnið að aukinni sjálfbærni og samfélagsábyrgð samofin rekstrinum

Í umsögn dómnefndar kemur fram að BYKO hafi markvisst unnið að aukinni sjálfbærni og að samfélagsábyrgð sé samofin rekstri fyrirtækisin. BYKO horfi ekki einungis til eigin rekstrar heldur sé markmiðið að hafa áhrif á samstarfið við birgja og viðskiptavini.

Fram kemur að stjórnendur og starfsmenn Byko geri sér grein fyrir hlutverki sínu í virðiskeðjunni og leggi áherslu á að bjóða upp á á vistvæn byggingarefni og lækki þannig kolefnisspor mannvirkja. Til að auðvelda vistvænar framkvæmdir og hafi fyrirtækið yfirfarið vöruframboð sitt til að tilgreina hvaða vörur eru umhverfisvottaðar og einfaldi þannig viðskiptavinum að velja vistvænni vörur.

Bent er á að BYKO hafi kortlagt kolefnislosun fyrirtækisins árið 2018 og sett af stað vinnu til að draga úr losun í starfseminni sem skili sér inn í verkefni og markmið fyrirtækisins. Sett hafi verið fram mælanleg metnaðarfull markmið og fyrirtækið sé óhrætt við að sýna árangurinn þrátt fyrir að þau náist ekki alltaf. Eins hafi BYKO sett fram metnaðarfulla jafnréttisáætlun og skýr markmið í þeim efnum.

„Afar ánægjulegt er að sjá að viðleitni okkar og stefnu á sviði samfélagsábyrgðar, sem við erum mjög stolt af, vekja eftirtekt. Við fögnum þessum verðlaunum sem eru okkur mikil viðurkenning og hvatning til áframhaldandi góðra verka. Umhverfismál og sjálfbærni hafa lengi verið eigendum BYKO hugleikin og má nefna að 34 ár eru síðan fyrirtækið hóf að rækta skóg á Drumboddsstöðum í Biskupstungum. Fyrir ári síðan var skóglendið svo kortlagt og kolefnisbinding þess metin með viðurkenndum og vísindalegum hætti. Við setjum okkur metnaðarfull markmið, mælum svo og birtum árangurinn. Með því að setja markið hátt trúum við því að árangurinn verði bestur,“ segir Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO.

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2021. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Í dómnefnd sátu Gréta María Grétarsdóttir formaður dómnefndar, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brimi, Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, varaformaður stjórnar Festu, og Jón Geir Pétursson, dósent við HÍ sem sæti á í stjórn Festu.

Ein athugasemd á “Byggingavöruverslunin BYKO hlaut verðlaun fyrir Framúrskarandi samfélagsábyrgð 2021

Lokað er fyrir athugasemdir.