Creditinfo hefur hannað mælikvarða á óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna COVID-faraldursins. Mælikvarðinn nefnist COVID-váhrifamat (e. COVID Impact Score) og birtist með lánshæfismati fyrirtækja inn á þjónustuvef Creditinfo. Verkefnið er samvinnuverkefni Creditinfo á Íslandi, Eistlandi, Lettlandi og Tékklandi.

Váhrifamatið styður við lánshæfismat fyrirtækja

Líkanið á bak við útreikning lánshæfismatsins byggir á gögnum sem taka enn ekki tillit til heimsfaraldursins. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og lánastofnana, s.s. frystingar, brúarlán, stuðningslán, hlutabótaleið og laun á uppsagnarfresti, gera það að verkum að hinir hefðbundnu mælikvarðar eins og kröfur í innheimtu, slæm greiðsluhegðun, vanskil og gjaldþrot raungerast ekki eins hratt og annars gæti orðið. Enn fremur má benda á að aðgerðir til aðstoðar fyrirtækjum beinast frekar til þeirra þar sem áhrifin eru mest og því er óvíst hver lokaniðurstaðan verður. COVID-váhrifamatinu er því ætlað að fylla í eyðurnar sem lánshæfismatið skilur eftir. Reynsla Creditinfo og annarra fjárhagsstofa af óvissuástandi eins og því sem ríkir núna er að vanskil muni aukast en röðun í áhættuflokka haldi sér áfram í stórum dráttum. Félög sem eru fjárhagslega sterk og hafa ekki lent í vanskilum áður eiga auðveldara með að standa af sér óvissuástand en önnur fyrirtæki og eru því áhættuminni. Þannig spáir lánshæfismat fyrirtækja fyrir um líkur á vanskilum fram í tímann en spálíkanið fangar ekki enn sértæk áhrif þessarar alþjóðlegu krísu á fyrirtæki að fullu og óvissuna henni tengda. 

Við eðlilegar aðstæður gefur lánshæfismat fyrirtækja glögga mynd af stöðu fyrirtækja. Lánshæfismatið er einkunn á skalanum eitt til tíu sem segir til um hversu líklegt er að fyrirtæki fari í vanskil á næstu tólf mánuðum. Fyrirtæki í flokki tíu eru líklegust til að fara í vanskil en fyrirtæki í flokki eitt eru ólíklegust.

Þegar váhrifamati atvinnugreinar er teflt saman við lánshæfismat fyrirtækja er hægt að taka saman rekstraróvissu fyrirtækja bæði með tilliti til þess hversu líklegt er að fyrirtækið fari í vanskil á næstu 12 mánuðum út frá hefðbundnum forsendum og hversu mikil óvissa er í rekstri fyrirtækisins vegna COVID-19 faraldursins. Neðangreind tafla skýrir hvernig rekstraróvissa fyrirtækja skiptist eftir þessum flokkum.

Hvernig er COVID-váhrifamatið reiknað? 

Fyrirtæki eru flokkuð í 21 starfsemisflokk eða atvinnugeira byggt á ISAT-flokkum og staðsetningu. Hver atvinnugeiri fær svo einkunn út frá eftirfarandi þáttum: 

  • fjárhagsupplýsingum 
  • fjarlægð frá ferðaþjónustu (þ.e. hversu mikil áhrif hefur samdráttur í ferðaþjónustu á atvinnugreinina) 
  • hversu nauðsynleg varan/þjónustan er 
  • hversu auðveldlega fyrirtækið getur starfað þegar lokanir eru 
  • hversu vel starfsemin getur aðlagast breyttum aðstæðum 
  • hversu fljótt eftirspurn vaknar eftir lokanir 
  • hvort líklegt er að aðfangakeðjan slitni 

Váhrifamatið er að mestu byggt á sérfræðiáliti en til hliðsjónar er haft hlutfall fyrirtækja sem sótt hafa um ríkisaðstoð á Íslandi, Eistlandi og Lettlandi og merki um snemmbúin vanskil (e. early default indicators). 

Með því að skoða COVID-váhrifamat atvinnugreinar í samhengi við lánshæfismat fyrirtækja má betur átta sig á áhættu og óvissu í rekstri á meðan áhrifa COVID-19 gætir. Þannig verða til fimm flokkar í takt við mismunandi óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. 

Hvernig nýtist COVID-váhrifamatið? 

Áskrifendur geta nálgast COVID-váhrifamatið þegar þeir fletta upp lánshæfismati fyrirtækja á þjónustuvef Creditinfo. Fyrirtæki geta einnig pantað sérunna greiningu á sínu viðskiptasafni með tilliti til COVID-váhrifamatsins.

COVID-váhrifamatinu er ætlað að styðja við lánshæfismatið svo hægt sé að leggja ítarlegt mat á greiðslugetu og rekstrarhæfi fyrirtækja. Í einhverjum tilfellum getur fyrirtæki verið með gott lánshæfismat en jafnframt í mikilli óvissu vegna COVID-19. Það þýðir í stuttu máli að fyrirtæki starfar í atvinnugrein sem gæti orðið fyrir miklum áhrifum vegna COVID-19 en fjárhagslegar undirstöður þess eru sterkar og það hefur ekki lent í greiðsluerfiðleikum nýlega. COVID-váhrifamatið veitir þannig nauðsynlegt samhengi þegar lánshæfismat fyrirtækja er skoðað.   

Fyrirtækjum býðst að sækja upplýsingar um COVID-váhrifamatið fyrir viðskiptasafn sitt til að leggja mat á áhrif COVID-19-faraldursins á reksturinn. Hægt er að brjóta niður útistandandi kröfur með tilliti til lánshæfismats og COVID-váhrifamats svo hægt sé að kortleggja áhættuna í rekstrinum betur. Fyrir fyrirtæki sem eru með mikinn fjölda viðskiptavina gæti þetta mat hjálpað til við að búa til forgangsröðun fyrir úttektir eða endurmat á viðskiptasamböndum.

Flest fyrirtæki hafa lagt einhvers konar mat á óvissu í sínum rekstri vegna COVID-19 en með COVID-váhrifamatinu gefst þeim kostur á að fá hlutlaust mat á stöðu sinna viðskiptavina og óvissuna í rekstrinum. COVID-áhrifamatið nýtist einnig við að greina nýja viðskiptavini með það fyrir augum að lágmarka áhættu og óvissu í rekstrinum.

Mikil óvissa ríkir hjá fjölda íslenskra fyrirtækja

Þegar COVID-váhrifamatið er reiknað fyrir öll virk íslensk fyrirtæki sést að töluverður fjöldi fyrirtækja býr við mikla eða mjög mikla óvissu.

Á Íslandi eru um 18.000 virk fyrirtæki samkvæmt mati Creditinfo. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þau dreifast eftir lánshæfisflokkum (lóðrétti ásinn) og váhrifamati (lárétti ásinn). Litunum er svo ætlað að taka þessar upplýsingar saman og varpa þannig heildstæðara ljósi á áhættuna og óvissuna í rekstrarumhverfi fyrirtækja á næstu misserum. Fyrirtækin á dökkgræna svæðinu eru talin í minnstri áhættu en fyrirtækin á dökkrauða svæðinu í mestri áhættu. Á myndinni má sjá að um 54% (17,0% + 18,5% +18,5%) virkra fyrirtækja eru í lánshæfisflokkum 1-3 en af þeim eru um 16% talin í mikilli áhættu vegna COVID, og jafngildir það um 8% allra virkra fyrirtækja (sjá appelsínugulu og rauðu svæðin í lánshæfisflokkum 1-3). Á myndinni má sjá að um 10% allra virkra fyrirtækja teljast í mikilli óvissu og um 12% í mjög mikilli óvissu (sjá heildartölur fyrir samsvarandi dálka) en váhrifamatinu er ætlað að varpa ljósi á þá óvissu framundan sem ekki er gripin í lánshæfismatinu. Lánshæfismatið er tölfræðilegt líkan sem byggist á sönnunargögnum sem komin eru fram en að engu leyti á huglægu mati á meðan váhrifamatið er að mestu byggt á sérfræðiáliti þar sem hugsanleg sértæk áhrif COVID-faraldursins eru metin. Óvissan sem ríkir um áhrif COVID-faraldursins á einstaka atvinnugreinar er mikil eða mjög mikil fyrir 22% allra virkra félaga.

Á myndinni hér að neðan er búið að draga saman niðurstöður þar sem búið er að flétta saman lánshæfismat og COVID-váhrifamat, þ.e. taka saman niðurstöðu eftir litnum í töflunni hér að ofan. 

Myndin hér að neðan sýnir hversu stórt hlutfall hvers lánshæfisflokks fær hvaða COVID-váhrifamat. Hér má sjá að um 5,7% fyrirtækja í lánshæfisflokki 1 eru rauðlituð og talin í mestri áhættu vegna COVID.

Vinnumálastofnun birti á dögunum lista yfir fyrirtæki sem sóttu um hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Listinn miðaðist þó eingöngu við fyrirtæki með 6 eða fleiri starfsmenn. Af um 18.000 virkum fyrirtækjum eru um 3.000 með 6 eða fleiri starfsmenn og sóttu hátt í 40% þeirra, eða tæplega 1.200, um hlutabótaleiðina. Taflan hér að neðan sýnir hvernig þessi 3.000 fyrirtæki með 6 eða fleiri starfsmenn dreifast á sama hátt eftir lánshæfisflokkum. Hér eru undanskilin félög sem fá ekki lánshæfismat, s.s. íþróttafélög og önnur félagasamtök. 

Taflan hér að neðan sýnir hlutfall þeirra virku félaga sem höfðu 6 eða fleiri starfsmenn og sóttu um hlutabótaleiðina eftir váhrifamati. 

Umfjöllun um COVID-váhrifamatið í fjölmiðlum

Fjallað var um COVID-váhrifamatið í Morgunblaðinu 13. júní síðastliðinn. Þar kom m.a. fram að fjarlægð fyrirtækja frá ferðaþjónustunni vegur þungt í útreikningi COVID-váhrifamatsins. Einnig var fjallað um váhrifamatið á vef Morgunblaðsins, mbl.is.


Vilt þú fá greiningu á þínu viðskiptasafni með tilliti til COVID-váhrifamatsins? Hafðu samband við okkur.

3 athugasemdir á “Mælikvarði á óvissu vegna COVID-19

Lokað er fyrir athugasemdir.