Creditinfo hefur hafið undirbúning á gagnagrunni sem mun innihalda upplýsingar um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla (e. Politically Exposed Persons – PEP) til að aðstoða fyrirtæki við að uppfylla kröfur um varnir gegn peningaþvætti. Creditinfo hefur samráð við Persónuvernd í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Einstaklingar sem skráðir verða í grunninn munu hafa gott aðgengi að upplýsingunum og munu fá tilkynningu um vinnslu þeirra.

Af hverju vinnum við gagnagrunn um stjórnmálaleg tengsl einstaklinga?

Í október 2019 rataði Ísland á svokallaðan gráan lista FATF (Financial Action Task Force) vegna ónógra varna gegn peningaþvætti. Grái listinn nær yfir ríki sem eru sögð „samvinnufús og aðgerðaáætlun um endurbætur eru í farvegi.“ Ísland fór af listanum ári síðar, í október 2020.

Í umsögn um Ísland á vef FATF kom fram að Ísland hafi tekið nokkrar póli­tískar ákvarð­anir um að skuld­binda sig til að auka virkni varna sinna. Þar segir að Ísland ætti að halda áfram að inn­leiða áætlun sína um bættar varnir gegna peningaþvætti, meðal ann­ars með því að mæti fyr­ir­liggj­andi skorti á réttum upp­lýs­ingum um raun­veru­lega eig­endur fyr­ir­tækja, en félög höfðu til 1. mars 2020 til að ganga frá skráningu raunverulegra eigenda.  

Fjármálafyrirtæki og aðrir tilkynningaskyldir aðilar verða að kynnast viðskiptavinum sínum (KYC) til að geta metið hvort hætta er á að þeir þvætti peninga. Til þess þarf t.d. að afla persónuupplýsinga um einstaklinga og tryggja að þeir sanni á sér deili með framvísun persónuskilríkja. Einnig er kallað eftir opinberum gögnum um fyrirtæki, hverjir stýra þeim og eiga þau (raunverulegir eigendur).

Þá ríkir sérstök skylda til að kanna hvort einstaklingar hafi stjórnmálaleg tengsl, það er gegni opinberri stöðu, sitji t.d. á Alþingi, séu dómarar eða sendiherrar eða hafi náin tengsl við slíka einstaklinga. Ástæðan fyrir því að þessi tengsl eru könnuð sérstaklega er vegna þess að aðilar með slík tengsl eru taldir útsettari fyrir spillingu og mútuþægni en aðrir. Til þess hafa verið notaðir svokallaðir PEP-listar, þ.e.a.s. upplýsingar um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla (PEP). 

Fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn, fasteignasalar og fjölmargir aðrir lögaðilar þurfa því að geta aflað áreiðanlegra upplýsinga um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla (PEP) til að uppfylla lagaskyldu sem á þeim hvílir samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Mikilvægt er að upplýsingar um þá aðila sem falla undir það að teljast einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla séu aðgengilegar og uppfærðar en vinnsla persónuupplýsinga skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og eingöngu vera í þeim tilgangi að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Hvernig er hægt að nálgast gögnin?

Vinna er hafin hjá Creditinfo við að útbúa gagnagrunn sem mun innihalda upplýsingar um einstaklinga með stjórnmálaleg tengsl. Sérfræðingar hjá Creditinfo munu viðhalda gagnagrunninum til að tryggja að upplýsingarnar séu eins áreiðanlegar og kostur er á. Lögaðilar munu geta nýtt gagnagrunninn til að uppfylla skilyrði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og einstaklingar geta gengið úr skugga um að upplýsingar um þá í gagnagrunninum séu réttar.

Lögaðilar munu geta nálgast upplýsingar um stjórnmálatengsl einstaklinga á þjónustuvef Creditinfo. Á myndinni hér fyrir neðan sést dæmi um hvernig þjónustan mun líta út frá þeirra sjónarhóli.

Einstaklingar munu svo geta staðfest og uppfært upplýsingar sem geymdar eru í gagnagrunninum í gegnum Mitt Creditinfo. Á myndinni hér fyrir neðan sést dæmi um hvernig þjónustan mun líta út frá þeirra sjónarhóli.


Vilt þú frekari upplýsingar um PEP-gagnagrunn Creditinfo eða aðrar vörur? Hafðu samband.

Ein athugasemd á “Creditinfo býr til PEP-gagnagrunn

Lokað er fyrir athugasemdir.