Creditinfo Lánstraust hf. hefur hlotið Jafnlaunavottun frá vottunarstofnuninni BSI. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Jafnréttisáætlun Creditinfo var lögð fram í september árið 2022 samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna nr. 150/2020, lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og annarra laga og reglna er snúa að jafnrétti og gildir fyrir alla starfsmenn Creditinfo. Áætlunin kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki fyrirtækisins þau réttindi sem kveðið er á um í 6. – 14. gr. laganna.

Jafnlaunavottun BSI er staðfesting á því að jafnréttisáætlun Creditinfo standist kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og veitir Creditinfo heimild til að nota jafnlaunamerkið.

Við þetta má bæta að Creditinfo var nýlega valið á meðal þeirra 59 fyrirtækja sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2022. Viðurkenningin er veitt árlega frá Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA).