Creditinfo mun í samstarfi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands leggja til gögn í nýjan norrænan gagnabanka á sviði stjórnarhátta fyrirtækja. Creditinfo mun afhenda söguleg gögn um íslensk fyrirtæki í gagnabankann til að styðja rannsóknir á norrænum stjórnarháttum.

Gagnabankinn mun innihalda upplýsingar úr margvíslegum gagnagrunnum frá ólíkum löndum og ná yfir áratugi. Center of Corporate Governance við Copenhagen Business School hýsir verkefnið og er einn viðskiptaháskóli frá hverju hinna norrænu ríkjanna samstarfsaðili. Í frétt um málið á vef Háskóla Íslands kemur fram að akademískir starfsmenn þessara viðskiptaháskóla hafa aðgang að gagnabankanum og þeir rannsakendur sem eru hluti af tengslaneti fræðimanna á Norðurlöndum á sviði stjórnarhátta, Nordic Corporate Governance Network.

„Við hjá Creditinfo teljum það mjög mikilvægt að styðja við rannsóknarstarf norrænu viðskiptaháskólanna á þennan hátt. Creditinfo hefur átt í góðu samstarfi við Háskóla Íslands undanfarin ár og það er ánægjulegt að koma að uppbyggingu á þessum samnorræna gagnabanka. Auknar rannsóknir og samanburður á atvinnulífinu á Norðurlöndum er mjög jákvæður fyrir þetta atvinnusvæði. Það er vonandi að gagnabankinn og aukið aðgengi að gögnum muni stuðla að því að fleiri nemendur feta þessa braut í sínu viðskiptanámi,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo. 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Þröstur Olaf Sigurjónsson, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands – olaf@hi.is.

Fjallað er ítarlega um málið á vef Háskóla Íslands.


Creditinfo býður öllum aðgang að stærsta gagnagrunni fyrirtækjaupplýsinga á Íslandi án áskriftar. Hægt er að sækja nýja og gamla ársreikninga, upplýsingar um lánshæfi fyrirtækja, upplýsingar um endanlegt eignarhald og ýmislegt fleira.