Á næstu dögum og vikum þarf að meta nokkur þúsund fyrirtæki sem standa höllum fæti og ákveða hvort og hvaða úrræði standi þeim til boða. Lykilatriði er að ákvörðunin sé hlutlaus og byggð á gögnum en ekki huglægu mati. Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi var í ítarlegu viðtali í Markaðnum þann 22. apríl 2020.

Fjöldi íslenskra fyrirtækja er í fjárhagslegri gjörgæslu um þessar mundir. Bankar og hið opinbera þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir fljótlega til að tryggja að við komumst í gegnum áskoranir næstu mánaða fljótt og vel, segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.


Hún segir að það þurfi að innleiða stafrænar og sjálfvirkar lausnir til að meta raunverulega stöðu fyrirtækja og taka hraðar, markvissar og hlutlausar ákvarðanir í kjölfarið. „Það er afar brýnt að nota þau tæki og tól sem við höfum til að greina stöðu fyrirtækja til að stýra erfiðum björgunaraðgerðum.“

Brynja bendir á að fyrirtækin séu undirstaða blómlegs samfélags og veiti fjölda fólks vinnu. „Markmiðið hlýtur að vera að halda sem flestum í vinnu, tryggja að hér séu styrkar stoðir og að viðspyrnan verði sem kröftugust þegar faraldrinum lýkur. Það er mikilvægt að nýta okkar sameiginlegu sjóði til að bjarga þeim fyrirtækjum sem eru lífvænleg og tryggja að líflínan til þeirra sé traust. En á sama tíma er ekki sanngjarnt að nota þessa sömu sjóði til að bjarga fyrirtækjum sem voru komin í alvarlegan vanda fyrir þessa krísu,“ segir hún.

Þrettán prósent stóðu afar illa

Brynja segir að af tæplega 18 þúsund fyrirtækjum á Íslandi sem séu í daglegum rekstri hafi um þrettán prósent verið annað hvort á vanskilaskrá eða með mjög lélegt lánshæfismat í upphafi árs eða áður en áhrifa COVID fór að gæta.

„Til að aðgerðirnar virki sem best fyrir heildina þurfa lausnirnar að vera sérsniðnar að þörfum hvers og eins. Þetta er ekki ein stærð sem gildir fyrir alla. Nauðsyn sértækra lausna verður mikilvægari þegar fram í sækir, til dæmis vegna hruns í ákveðnum atvinnugreinum,“ segir hún.

Með hvaða hætti getur sjálfvirkni komið að góðum notum við að taka ákvarðanir þegar verið er að bjarga fyrirtækjum á tímum kórónaveirunnar?

„Á næstu dögum og vikum þarf að meta nokkur þúsund fyrirtæki til þess að ákvarða hvort og þá hvaða úrræði eigi að standa þeim til boða. Það er mjög mikilvægt að hér sé vandað vel til verka og unnið hratt. Fyrirtækin hafa ekki margar vikur til að bíða eftir svari. Þá er einnig lykilatriði að ákvörðunin sé hlutlaus, byggð á staðreyndum og gögnum en ekki huglægu mati.

„Á næstu dögum og vikum þarf að meta nokkur þúsund fyrirtæki til þess að ákvarða hvort og þá hvaða úrræði eigi að standa þeim til boða.“

Góðu fréttirnar eru að innviðirnir hérna eru góðir. Við erum frekar vel tæknivædd og aðgengi að gögnum er mun betra en gerist og gengur í mörgum öðrum löndum. Á síðustu árum hafa fjártæknifyrirtæki sprottið upp úti um allan heim og við höfum ekki farið varhluta af því. Mikil áhersla hefur verið lögð á að tæknivæða fjármálaþjónustu til einstaklinga, enda er massinn þar og mikill ávinningur. Auk þess er mun flóknara að meta fyrirtæki en einstaklinga í þessum tilgangi. Í dag er til dæmis hægt að sækja um húsnæðislán og fá fullt greiðslumat á nokkrum mínútum, ferli sem tók margar vikur og kostaði mikla vinnu við gagnaöflun fyrir bara nokkrum árum.

Sjálfvirknivæðing ferla og sjálfsafgreiðsla í þjónustu til fyrirtækja er næst og með öllum þeim ákvörðunum sem þarf að taka þessa dagana þarf að stíga stór skref í þeim efnum á skömmum tíma. Við höfum hreinlega ekki efni á að taka langan tíma í þetta núna. Úrræðin þurfa að koma strax.“

Dagar en ekki vikur

Hve hratt væri hægt að sjálfvirknivæða þá ferla? Hver er munurinn á að sjálfvirknivæða lán til einstaklinga og fyrirtækja?

„Grunnvirknin er til og þekkingin líka. Við erum því að tala um nokkra daga frekar en margar vikur. Flækjustigið liggur í því að það eru svo margar breytur sem koma að ákvörðun um lífvænleika og greiðslugetu fyrirtækja, miklu fleiri en þegar verið er að meta einstakling. Stærstu fyrirtækin munu alltaf þurfa handvirkt mat þar sem flækjustigið er svo mikið og stórar upphæðir í spilinu. En það er til mikið af upplýsingum um lítil og meðalstór fyrirtæki sem hægt er að byggja sjálfvirkar ákvarðanatökur á. Þetta eru til dæmis ársreikningar, lánshæfismat, vanskilasaga, tekjur og viðskiptasaga.

Með réttri notkun á þeim upplýsingum er hægt að leggja mjög áreiðanlegt, sjálfvirkt mat á stóran hluta fyrirtækjanna og afgreiða úrræði til þeirra. Þannig er hægt að flýta fyrir afgreiðslu til stórs hluta fyrirtækja, mál sem þurfa nánari yfirlegu geta þá farið í handvirkt ferli sem tekur lengri tíma. Þetta er vel þekkt ferli úr einstaklingsþjónustu sem virkar jafn vel fyrir fyrirtæki.“„Við erum svo fá að það er allt talsvert einfaldara hér. Fjárhagslegar upplýsingar eru á fáum stöðum,“ segir Brynja. Fréttablaðið/Ernir

Hver er munurinn á aðstæðum á Íslandi til að sjálfvirknivæða ferla fyrir lán miðað við önnur Vesturlönd?

„Vesturlönd eru almennt orðin vel tæknivædd en Ísland er mjög vel í stakk búið til að vera í forystu. Við erum svo fá að það er allt talsvert einfaldara hér. Fjárhagslegar upplýsingar eru á fáum stöðum; við erum með Reiknistofu bankanna sem rekur grunnkerfið, við erum með eina vanskilaskrá og ársreikningar eru til á stafrænu formi mörg ár aftur í tímann. Hér eru einnig þrír stórir viðskiptabankar á meðan fjöldi banka hleypur á tugum eða hundruðum í flestum öðrum löndum. Það er lykilatriði að upplýsingar séu miðlægar og aðgengilegar. Þess vegna eigum við að geta brugðist hratt og rétt við, við verðum að vinna saman að lausnum og nýta það sem við höfum. Það á eftir að skipta sköpum.“

Vanskil ekki aukist að ráði

Hagkerfið hafði kólnað hratt fyrir kórónaveiruna. Höfðu vanskil aukist á þeim tíma? Voru mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu í vanskilum fyrir kórónaveiruna?

„Vanskil virðast ekki hafa aukist að ráði síðustu misseri en vanskil í ferðaþjónustu eru hlutfallslega meiri en heildarinnar og fyrirtæki í ferðaþjónustu virðast vera lengur í vanskilum en áður. Hlutfallslega virðast þó ekki fleiri ferðaþjónustufyrirtæki lenda á vanskilaskrá en áður.

Það eru allar líkur á að vanskil muni aukast en erfitt er að spá fyrir um hve mikil aukningin verður og hvaða fyrirtæki eða atvinnugeirar verða verst úti.

Ýmsar ástæður gera allar spár erfiðar eins og til dæmis óvissa um hversu lengi ástandið varir og hversu yfirgripsmiklar efnahagsráðstafanir íslenskra stjórnvalda verða. Enn fremur fer niðurstaðan að miklu leyti eftir því hvernig aðrar þjóðir bregðast við og svo því hvort áhrifin eru varanleg eða hvort um frestunaraðgerðir neytenda er að ræða, hvort verið sé að fresta viðburðum, innkaupum og ferðalögum þar til veiran er gengin yfir eða hætta við.“

Misskilningur ASÍ

ASÍ og Neytendasamtökin kölluðu eftir því að þið hættuð að halda utan um vanskilaskrá vegna fjárhagserfiðleika hjá fólki sem rekja má til kórónaveirunnar. Hvernig horfir það við þér?

„Ég tel að þessi krafa hafi verið á misskilningi byggð. Í fyrsta lagi þá berast beiðnir um skráningar til okkar frá kröfuhöfum, Creditinfo skráir engan á vanskilaskrá að eigin frumkvæði. Vanskilaskrá er nauðsynlegt tæki til áhættustýringar fyrir lánveitendur, líka þá sem eru að veita aðilum vörur og þjónustu út á reikning. Ef hún væri ekki til staðar þyrftu lánveitendur að vera með miklu strangari kröfur á lántaka, sem þýðir í rauninni að aðgangur að lánsfé myndi skerðast. Önnur sviðsmynd er að afskriftir myndu aukast mikið, sem myndi leiða til hærri vaxta eða lántökukostnaðar fyrir góða lántaka, sem langflestir eru. Annað mikilvægt hlutverk vanskilaskrár er líka að vernda lántakann, það er að hann skuldsetji sig ekki um of og lendi mögulega í enn meiri vandræðum.

Á tímum eins og þeim sem við lifum núna er þetta hlutverk enn mikilvægara. Vanskil koma ekki til okkar fyrr en í fyrsta lagi eftir 40 daga vanskil, 90 dagar er mjög algengt, svo það er enginn að detta inn á vanskilaskrá í dag vegna mála sem urðu til vegna COVID. Við verðum að athuga að það er einmitt sérlega mikilvægt að vel sé haldið utan um vanskil sem eru ekki til komin vegna COVID til þess að hægt sé að beina úrræðum til þeirra sem voru í góðum málum fyrir. Það má líka nefna að frystingar lána hafa ekki áhrif á lánshæfismat hjá okkur.“

Creditinfo starfar í 33 löndum. Geturðu nefnt dæmi um með hvaða ólíka hætti er verið að bregðast efnahagslega við kórónaveirunni? Hvernig erum við að bregðast við ástandinu samanborið við önnur ríki sem þið starfið í?

„Það er áhugavert að sjá að það er mjög mismunandi hvaða björgunaraðgerðir er verið að setja í gang. Frystingar og styrkir eru auðvitað mjög algeng úrræði. Íslensk stjórnvöld hafa verið að kynna sín úrræði og þó að mörgum finnist ekki nóg gert þá er alveg augljóst að allir eru að vanda sig og það er mikill samhugur þvert á allar flokkslínur um að ríkið eigi að stíga inn í aðstæður fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga. Þetta er mikill styrkleiki að ekki sé verið að eyða tíma í pólitískt karp.

Creditinfo starfar meðal annars í Afríku og hafa til dæmis stjórnvöld í Kenía lokað á allar tegundir vanskilaskráninga nema frá bönkum. Þar er meirihluti þjóðarinnar ekki í bankakerfinu, ekki með nein lán eða innlánsreikninga. Fólk er hins vegar að taka alls konar lán og sum af miður ábyrgum aðilum og er aðgerðin til að stemma stigu við því. Þetta þýðir hins vegar að mikil yfirsýn tapast. Í Litháen vorum við að klára kerfi í samstarfi við Seðlabankann sem auðveldar skráningar fyrirtækja á vanskilaskrá til muna og aðgengi að þeim upplýsingum. Þetta er hugsað sem hvati til fyrirtækja til að standa í skilum. Sú nálgun virkar þar en yrði engin stemning fyrir hér.“

Stýrir líka í Austur-Evrópu

Þú stýrir Creditinfo á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum. Hver er helsta áskorunin við að bera ábyrgð á rekstri hérlendis og í þremur öðrum löndum?

„Mesta áskorunin hefur mér þótt vera að fjarstýra hlutum, ég get auðvitað ekki verið í öllum löndunum alltaf. Það er oft flóknara að geta ekki bara sest niður með fólki og leyst málin. Það er erfiðara að fá tilfinningu fyrir hlutum úr fjarska en þegar maður er á staðnum. En nú erum við auðvitað öll í þeim aðstæðum.

Við erum öll svo ótrúlega lík inn við beinið en menningarmunur telur aðeins. Eitt áhugaverðasta sem ég hef lent í var þegar starfsmaður í einu fyrirtækinu kom til mín og hafði áhyggjur af því að nýskipaður framkvæmdastjóri vissi bara ekki neitt, hún væri alltaf að spyrja þau hvernig þau vildu hafa þetta og hitt. Þá vorum við að skipta út framkvæmdastjóra sem var með öll svörin og þurfti að samþykkja allt. Svona stjórnunarstíll held ég að þekkist varla hér lengur. Starfsmaðurinn sem var vanur þessu tók þessu hins vegar sem svo að hún væri alltaf að spyrja því hún vissi ekki hvað hún ætti að gera. Það er rétt að taka fram að síðan eru liðin næstum því þrjú ár og þessi framkvæmdastjóri er búinn að ná frábærum árangri í rekstrinum þarna.“

Hvaða áhrif hefur kórónaveiran haft á tekjur og rekstur Creditinfo á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum?

„Við erum að selja áhættustýringu sem er meiri eftirspurn eftir í krísu en í góðæri. Við, eins og allir aðrir, gerum ráð fyrir að sjá einhvern samdrátt, sérstaklega til skemmri tíma, en við gerum ekki ráð fyrir að þurfa að minnka starfshlutfall hjá neinum. Það á þó auðvitað allt eftir að koma í ljós, ég held að flestir séu enn þá bara að stýra sínum rekstri viku fyrir viku þessa dagana.“

Það hafa komið upp peningaþvættismál hjá norrænum bönkum í Eystrasaltslöndunum. Af hverju voru bankar frá Norðurlöndunum berskjaldaðir fyrir peningaþvætti í Eystrasaltslöndunum?

„Skandinavísku bankarnir eru stærstu bankarnir á þeim mörkuðum en á síðustu árum hafa komið upp nokkur mjög stór peningaþvættismál. Ástæðan er fyrst og fremst nálægðin við Rússland og uppruni svikanna hefur verið þar. Nokkrir bankar hafa þurft að loka eða beðið mikinn álitshnekki út af þessu. Danske Bank er til dæmis ekki lengur starfandi þarna og forstjóri Swedbank í Svíþjóð þurfti að segja af sér vegna hneykslis sem kom upp þarna.“

Vandi að rekja eignarhald erlendis

Creditinfo þróaði varnir fyrir fjármálafyrirtæki á því svæði. Hvað geturðu sagt mér um þá vinnu?

„Peningaþvættisvarnir eru mjög stórt umræðuefni í Eystrasaltslöndunum og hafa verið um nokkurt skeið. Reglugerð um peningaþvætti frá Evrópusambandinu hefur verið innleidd í flestum löndum Evrópu, þar með talið hér og lentum við meðal annars á gráa lista FATF í fyrra eins og frægt er orðið. Þessi mál eru því alltaf að verða mikilvægari og vega þyngra í rekstri fjármálafyrirtækja.

Við erum að þróa vörur fyrir peningaþvættisvarnir í Eistlandi sem til stendur að nýta á fleiri mörkuðum. Við höfum átt mjög gott samstarf við samtök fjármálafyrirtækja í bæði Eistlandi og Lettlandi en mér finnst Lettarnir hafa sýnt mjög skapandi hugsun við hvernig þau hafa innleitt þessar reglugerðir frá Evrópusambandinu. Sem er í sjálfu sér áhugavert þar sem Lettland slapp naumlega við að slást í hóp með okkur á gráa lista FATF nú í febrúar.

Við erum aðallega að horfa á ferlið þegar aðili kemur í viðskipti. Ástæðurnar fyrir því að við fórum í þessa vinnu er sú að okkar sérhæfing liggur í að vinna með gögn um fyrirtæki og einstaklinga. Þau eru oft persónuvernduð sem þýðir að við erum með alla ferla og öryggisstaðla til að höndla þau gögn sem þarf í þessu ferli auk þess sem við eigum nú þegar talsvert af þeim gögnum sem þarf að nota.

Mjög stórt vandamál er að rekja eignarhald, sérstaklega þegar um erlenda aðila er að ræða. Við erum til dæmis hér á Íslandi með mjög góða yfirsýn yfir eignarhald innlendra aðila en það stoppar oftast þegar til útlanda er komið. Sem hluta af nýju lausninni erum við búin að semja við stóra gagnabirgja á okkar stærstu viðskiptamörkuðum sem þýðir að brátt verður hægt að ganga mun lengra í að rekja eignarhaldið. Hugmyndin með lausninni er einnig að endurnýta umsóknargögn þannig að ef aðili er búinn að sækja um á einum stað er hægt að sækja öll gögn í gagnabankann og umsækjandinn þarf ekki að skila öllu inn upp á nýtt. Eins er hugmyndin að hægt verði að sjá ef aðila hefur verið hafnað eða hann staðinn að svikum.“„Mjög stórt vandamál er að rekja eignarhald, sérstaklega þegar um erlenda aðila er að ræða. Við erum til dæmis hér á Íslandi með mjög góða yfirsýn yfir eignarhald innlendra aðila en það stoppar oftast þegar til útlanda er komið,“ segir Brynja. Fréttablaðið/Ernir

Má nýta eitthvað af þeirri vinnu á Íslandi?

„Já, það stendur til að kynna þessa lausn fyrir okkar viðskiptavinum í skrefum á næstu mánuðum. Við höfum tekið fyrstu skrefin með því að gera upplýsingar um endanlega eigendur enn aðgengilegri, og nú má til dæmis sjá myndræna framsetningu á eignarhaldi eða svokallað tengslanet. Við ætlum einnig að bjóða upp á vöktun á endanlegum eigendum á næstu mánuðum en samkvæmt íslenskum lögum bera fyrirtæki ábyrgð á því að þeir séu skráðir. Það er ekkert endilega auðvelt ef eignarhaldið er flókið.“

Tölfræði um uppskeru

Creditinfo þarf stundum að fara óhefðbundnar leiðir til að meta lánshæfi því það starfar líka í löndum þar sem fjármálamarkaðir eru vanþróaðir. Geturðu nefnt áhugaverð dæmi um það?

„Já, við höfum til dæmis unnið með gögn úr símum í Afríku þar sem til dæmis notkun á farsímaforritum, hringimynstur og annað er notað til að meta lánshæfi. Einnig unnum við áhugavert verkefni fyrir landbúnaðarbanka í Georgíu þar sem horft var til tegundar landbúnaðar og tölfræði um uppskeru og fleira við lánshæfismat. Það varð ansi gott.

Vandamálið við að meta lánshæfi er að litlar fjárhagslegar upplýsingar eru til um sumt fólk og fyrirtæki. Hér á Íslandi erum við komin í viðskipti við banka snemma svo okkar fjármálasaga er mjög vel þekkt miðað við mörg lönd. En við erum að starfa á mörkuðum, sérstaklega í Afríku, þar sem meira en helmingur þjóðarinnar er ekki í bankakerfinu. Algengasta ástæða þess að fjármálasaga er ekki til hér er sú að um ungt fólk er að ræða eða aðila sem eru nýfluttir hingað, eða að fyrirtækið er nýstofnað.“Fréttablaðið/Ernir

Situr í fjórum stjórnum

Brynja situr í stjórnum þriggja fyrirtækja og Viðskiptaráðs. „Ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í rekstri nokkurra fyrirtækja gegnum stjórnarsetu. Ég sit í stjórn Sensa, sem er tæknifyrirtæki með áherslu á grunnrekstur og innviði, er í stjórn Fossa markaða sem er ungt fyrirtæki á sviði verðbréfamiðlunar en byggir þó á traustum grunni og að lokum sit ég í stjórn Véla og verkfæra, sem er heildsala og fjölskyldufyrirtæki. Það er gaman að segja frá því að öll fyrirtækin sem ég sit í stjórn hjá voru á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki í fyrra. Ég var alveg einstaklega stolt af því og því flotta fólki sem starfar hjá þeim,“ segir hún.

Hvers vegna sóttist þú eftir að sitja í stjórn Viðskiptaráðs?

„Viðskiptaráð er sterkur samráðsvettvangur fyrir atvinnulífið til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Samtök atvinnulífins eru líka mjög mikilvæg, sérstaklega þegar kemur að kjarasamningum, en hafa aðeins formlegra hlutverk. Viðskiptaráð getur tekið meira afgerandi afstöðu og talað skýrar. Mér hefur alltaf þótt skipta máli að leggja mitt af mörkum til samfélagsins þó að ég hafi tekið mér langar pásur vegna anna á öðrum sviðum lífsins. Ég er nú að hefja mitt annað kjörtímabil hjá Viðskiptaráði og hlakka til að taka enn virkari þátt í því góða starfi sem fram fer þar.“

Viðtalið við Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo Lánstrausts og svæðisstjóra Creditinfo Group í N-Evrópu birtist upphaflega í Markaðinum– viðskiptablaði Fréttablaðisins og á frettabladid.is