Nær öruggt þykir að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Peningaþvætti er vaxandi vandi í íslensku samfélagi sem skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði, viðheldur skipulagðri brotastarfsemi og veldur fyrirtækjum og hinu opinbera verulegu fjárhagslegu tjóni.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur afar líklegt að nokkur hundruð einstaklinga á Íslandi tengist skipulagðri brotastarfsemi með einum eða öðrum hætti og að þau umsvif muni einungis aukast nú að loknum heimsfaraldri. Hafi einstaklingur hagnast á ólöglegan hátt og reynir síðan að koma ávinningnum inn í hagkerfið t.d. með því að kaupa löglegar eignir eins og t.d. fasteignir, bíla, hlutabréf, skartgripi o.s.frv., þá er það peningaþvætti og ef tilkynningarskyldur aðili hefur ekki gert heimavinnuna sína, þá getur hann verið þátttakandi í brotinu, jafnvel óafvitandi. Refsing vegna alvarlegustu ásetningsbrota peningaþvættis geta varðað allt að 12 ára fangelsi. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Auknar kröfur um eftirlit

Undanfarin ár hefur lagaumhverfið varðandi peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið bætt verulega og sú skylda lögð á þá aðila, sem stunda starfsemi sem líkleg þykir til að vera notuð til peningaþvættis, að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð. Þessum aðilum ber að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og viðhafa reglubundið eftirlit með þeim. Þetta eru svokallaðir tilkynningarskyldir aðilar og eru taldir upp í 2. gr. laganna. Auk fjármálafyrirtækja, hefur þessi skylda verið lögð á fleiri aðila á undanförnum árum og nú þurfa því m.a. endurskoðendur, lögmenn, bókarar, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar ásamt skartgripa-, gull og lismunasölum að þekkja deili á sínum viðskiptamönnum.

Áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum sínum með því m.a. að afla fullnægjandi upplýsinga um viðskiptamanninn og raunverulegan eiganda, tilgang og eðli fyrirtækisins og hinna fyrirhuguðu viðskipta. Grípa þarf til ráðstafana til að sannreyna þær upplýsingar sem viðskiptavinur leggur fram t.d. með upplýsingum úr opinberri skrá við upphaf viðskiptanna og reglulega ef um viðvarandi samningssamband er að ræða.

Áreiðanleikakannanir með hjálp Creditinfo

Áskrifendum Creditinfo býðst að sækja allar helstu upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma áreiðanleikakönnun um viðskiptavini á þjónustuvef Creditinfo. Einnig er í boði að vakta þær breytingar sem kunna að verða á upplýsingunum viðskiptamanna eða kaupar stakar skýrslur um áreiðanleikakönnun. Í nýrri og uppfærðri áreiðanleikaskýrslu Creditinfo er að finna ítarlegar upplýsingar um fyrirtæki og aðstandendur þeirra til að auðvelda hinum tilkynningarskyldu aðilum að framkvæma áreiðanleikakannanir. Einnig er í boði að kaupa skýrslur um erlend fyrirtæki sé þess þörf.

Tilkynningarskyldir aðilar þurfa að hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla (e. Politically exposed person; PEP). Sé viðkomandi í slíkum áhættuhópi skulu tilkynningarskyldir aðilar grípa til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs og þeirra fjármuna sem notaðir eru í viðskiptunum, viðhafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu og fá samþykki yfirstjórnar áður en viðskiptin fara fram eða stofnað er til samningssambandsins.

Creditinfo hefur útbúið gagnagrunn, í samráði við Persónuvernd, um þá einstaklinga sem hafa stjórnmálaleg tengsl hér á landi og unnið er að því að koma á tengingu við sambærilegan alþjóðlegan gagnagrunn. Með áskrift að PEP-grunni Creditinfo geta tilkynningarskyldir aðilar sannreynt með einföldum hætti hvort einstaklingar séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og þá gripið til viðeigandi ráðstafana.

Verði tilkynningarskyldir aðilar varir við grunsamleg viðskipti eða fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi, hvort heldur sem er í upphafi viðskipta eða í viðvarandi samningssambandi, skulu þeir forðast viðskipti við viðkomandi viðskiptamann og tilkynna grun sinn til skrifstofu fjármálagerninga lögreglu sem leiðbeinir um næstu skref.

Tilkynningarskyldum aðilum ber einnig að varðveita öll gögn og upplýsingar sem aflað hefur verið vegna áreiðanleikakönnunar í amk. 5 ár frá því að samningssambandi lýkur og verða að geta brugðist skjótt við fyrirspurnum frá bæði skrifstofu fjármálagerninga lögreglu og Fjármálaeftirlitinu eða Ríkisskattstjóra, sem hafa eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum. Með því að nýta sér skýrslu um áreiðanleikakönnun og gagnagrunn Creditinfo um stjórnmálaleg tengsl geta tilkynningarskyldir aðilar nálgast allar þær helstu upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd áreiðanleikakönnunar viðskiptavinar, fljótt og örugglega á einum stað, sem sparar þeim tíma, vinnu og auðveldar utanumhald fyrir varðveislu.


Hafðu samband ef þú vilt frekari kynningu á framkvæmd áreiðanleikakannana með hjálp Creditinfo