Ein verðmætasta vísbendingin um fjárhagslegt heilbrigði fyrirtækja er lánshæfismat þeirra. Lánshæfismat Creditinfo byggir á stærsta safni viðskiptaupplýsinga hérlendis og metur líkur á vanskilum fram í tímann.

Fyrirtæki hafa um árabil nýtt sér vanskilaskrá Creditinfo til að leggja mat á viðskiptavini og greina áhættu í rekstri sínum. Það er mikilvægt að vita hvort tilvonandi eða núverandi viðskiptavinir eru komnir í vanskil til að draga úr hættunni á töpuðum kröfum. Því hefur uppfletting í vanskilaskránni sparað íslenskum fyrirtækjum töluverðar fjárhæðir.

Það er þó vert að vekja athygli á því að Creditinfo reiknar einnig út lánshæfismat á öll virk fyrirtæki og einstaklinga á landinu þar sem lagt er mat á líkur á skráningu á vanskilaskrá á næstu 12 mánuðum. Lánshæfismatið er reiknað út daglega og byggir á stærsta gagnagrunni viðskiptaupplýsinga á Íslandi.

Lánshæfismat fyrirtækja er einkunn á skalanum einn til tíu sem segir til um hversu líklegt er að fyrirtæki fari í vanskil á næstu tólf mánuðum. Fyrirtæki í flokki tíu eru líklegust til að fara í vanskil en fyrirtæki í flokki eitt eru ólíklegust.

Lánshæfismatið veitir dýpri upplýsingar um hversu áhættusamir viðskiptavinir þínir eru en uppfletting í VOG vegna þess að það dregur fram líkurnar á því að viðskiptavinir séu á leið í vanskil frekar en punktstöðu hverju sinni á því hvort þeir séu á vanskilaskrá.

Við mat á viðskiptavinum er því heppilegra að kanna lánshæfiseinkunn í stað þess að fletta upp vanskilastöðu. Ef viðskiptavinur er í vanskilum þá kemur það fram í uppflettingunni en ef ekki þá getur þú lagt ítarlegra mat á hversu áhættusamur viðskiptavinurinn er.

Á meðfylgjandi mynd er einfalt dæmi um tvo viðskiptavini með mismunandi lánshæfismat. Fyrirtæki A er með lánshæfiseinkunnina 9 sem þýðir að það er mjög áhættumikið og vanskil líkleg. Fyrirtæki B er með lánshæfiseinkunnina 2 sem þýðir að líkur á vanskilum eru mjög litlar og að fyrirtækið er mjög áhættulítið. Uppfletting í vanskilaskrá myndi einungis sýna að hvorugt þessara fyrirtækja væri í vanskilum en lánshæfismatið sýnir að annað þeirra er töluvert áhættusamara.

Aðilar sem eru í innheimtustarfsemi og vilja fylgjast með kröfu í innheimtuferli hafa eftir sem áður mikið gagn af því að fletta upp í vanskilaskránni. Þannig geta þeir fylgst með stöðu máls eftir að viðkomandi fyrirtæki eða einstaklingur hefur verið skráð á vanskilaskrá.


Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um lánshæfismat Creditinfo.

Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú hefur spurningar eða athugasemdir um vörur og þjónustu Creditinfo.