Í tólf ár hefur Creditinfo tekið saman lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Þau fyrirtæki eiga það sameiginlegt að hafa staðist ströng skilyrði um stöðugan rekstur og gott lánshæfi. Skilyrðin fyrir að komast á listann eru að finna í heild sinni hér fyrir neðan:

 • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
 • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
 • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
 • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
 • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
 • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
 • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
 • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
 • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
 • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

Þótt skilyrðin fyrir að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki séu ströng þá er það ljóst að það eru ekki einungis fjárhagslegir mælikvarðar sem skera út um það hvort rekstur sé framúrskarandi. Það er þess vegna sem að Creditinfo hefur um árabil staðið fyrir sérstökum hvatningarverðlaunum til að hvetja fyrirtæki til góðra verka, jafnt á sviði samfélagsábyrgðar og nýsköpunar, en í ár voru þau veitt byggingavöruversluninni BYKO og tæknifyrirtækinu Trackwell.

Mælikvarðar á árangur fyrirtækja eru að taka miklum breytingum en skýrasta birtingarmynd þessara breytinga eru ríkari kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja varðandi sjálfbærnimál. Hingað til hafa upplýsingar um sjálfbærni fyrirtækja verið nokkuð óstaðlaðar og af skornum skammti. Þróunin í þeim málaflokki er sem betur fer nokkuð hröð og líklegt að mælikvarðar fyrir sjálfbærni verði komnir inn í rekstrarbókhald flestra fyrirtækja áður en langt um líður.

Creditinfo hefur stigið skref í áttina að því að útbúa mælikvarða á sjálfbærni fyrirtækja með því að beina spurningum til Framúrskarandi fyrirtækja um sjálfbærni sem skiptast í þrjá flokka: Umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti fyrirtækja.

Spurningunum er ætlað að ná góðri mynd af því hvernig fyrirtæki huga að sjálfbærni í sínum rekstri. Hægt er að hengja við spurningalistann vottanir, sjálfbærniskýrslur, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu eða önnur skjöl sem sýna fram á að fyrirtækið hugi vel að samfélagslegri ábyrgð. Spurningarnar eru eftirfarandi:

Umhverfismál:

 1. Hefur fyrirtækið sett sér umhverfisstefnu eða áætlun/markmið í umhverfismálum?
 2. Hefur félagið fengið vottun í umhverfismálum?

Félagslegir þættir:

 1. Uppfyllir fyrirtækið ákvæði laga um kjarasamninga og réttindi starfsfólks?
 2. Er fyrirtækið með jafnlaunastefnu eða markmið þess efnis?
 3. Hversu mörg stöðugildi er fyrirtækið með á ársgrundvelli?
 4. Hvert er kynjahlutfall í framkvæmdastjórn?
 5. Hver er kynjasamsetning starfsmanna innan fyrirtækisins?

Stjórnarhættir:

 1. Hefur fyrirtækið sett sér siðareglur?
 2. Hefur fyrirtækið sett sér sjálfbærnistefnu og birtir hana opinberlega?
 3. Sætir fyrirtækið opinberri rannsókn vegna starfsemi fyrirtækisins?
 4. Hefur stjórn fyrirtækisins sett sér stefnu varðandi góða stjórnarhætti?
 5. Hefur fyrirtækið sett sér formlega stefnu hvað varðar kröfur um sjálfbærni og/eða samfélagslega ábyrgð birgja (e. supplier code of conduct)?

Spurningalistinn er opinn öllum íslenskum fyrirtækjum og vil ég því nýta tækifærið til að hvetja öll fyrirtæki til að svara og þannig stuðla að því að til séu áreiðanlegar upplýsingar um sjálfbærni íslenskra fyrirtækja. Um leið bendum við á að góðar leiðbeiningar hafa verið gefnar út varðandi upplýsingagjöf um sjálfbærni sem ættu að verða til þess að einfalda fyrirtækjum upplýsingagjöfina.

Þegar fram í sækir verða upplýsingar um sjálfbærni teknar markvisst inn í viðmiðin sem skera úr um hvaða fyrirtæki teljast til Framúrskarandi fyrirtækja. Framtíðin kallar á nýja mælikvarða um rekstur fyrirtækja og til þess að það geti orðið vantar markvissari upplýsingagjöf.

Markmið Creditinfo hefur verið frá upphafi að útvega áreiðanleg gögn svo viðskiptavinir okkar geti tekið upplýstar ákvarðanir. Það er okkar von að hægt sé að halda utan um gögn um sjálfbærni fyrirtækja með áreiðanlegum hætti svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um fyrirtæki sem byggja ekki einungis á fjárhagslegum upplýsingum.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi

Greinin birtist upphaflega í Jólablaði Vísbendingar 2021.