Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, skrifar um notkun persónuupplýsinga til lánsákvarðana í Markaðinum – viðskiptablaði Fréttablaðsins.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.

Flest okkar hafa þurft að fá fyrirgreiðslu á ævinni. Hvort sem það er úttektarheimild í verslun, eftirágreidd farsímaáskrift, yfirdráttur eða húsnæðislán, þá virkar samfélag okkar þannig að við erum stöðugt að treysta hvert öðru til að standa við gerða samninga. Sem betur fer greiða langflestir sínar skuldir og það eru undantekningar þegar það er ekki gert. Það er ekki bara slæmt fyrir þann sem veitir fyrirgreiðsluna að fá skuldina ekki greidda. Kostnaður af lélegum lánaákvörðunum getur verið gífurlegur og hann lendir á okkur öllum og það er engum greiði gerður að verða yfirskuldsettur og lenda í fjárhagsvandræðum. Það er því hagsmunamál okkar allra að hér sé stunduð ábyrg lánastarfsemi sem byggir á góðum upplýsingum.

Vinnsla þessara upplýsinga byggir í dag á reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust frá árinu 2001. Það er Persónuvernd sem gefur út starfsleyfi til handa þeim sem má framkvæma þessa vinnslu og er Creditinfo í dag eina fyrirtækið á Íslandi með slíkt leyfi.

Gjörbreytt miðlun upplýsinga

Frá árinu 2001 hefur fjártækni, upplýsingaflæði og deiling gagna gjörbylst. Facebook varð til 2004, fyrsti iPhone síminn kom á markað 2007, úrval lánamöguleika hefur stóraukist og nú er hægt að sækja um næstum öll lán í sjálfsafgreiðslu á nokkrum mínútum. Flestum finnst þetta sjálfsagt í dag, en þetta þýðir að það er hægt að skuldsetja sig á mörgum stöðum á stuttum tíma, af því að heimildir til upplýsingaöflunar og vinnslu, miða við að lántökuferli taki margar vikur.

Árið 2001 voru faxtæki í fullri notkun og aðeins fjögur ár frá því að hver sem er gat keypt vanskilaskrá á bókarformi. Í dag er gagna aflað og miðlað gegnum öruggar tengingar, geymdar í aðgangsstýrðum gagnagrunnum, uppflettingar eru rekjanlegar og skýrir ferlar gilda um alla meðhöndlun þeirra.

Gjörbreytt lagaumhverfi

Árið 2013 voru samþykkt lög um neytendalán sem skylda lánveitendur til að lánshæfismeta alla sem taka lán. Ef lánsfjárhæð er yfir ákveðinni upphæð skal einnig framkvæma greiðslumat. Eftir að lögin tóku gildi kom út reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat. Þar eru nákvæmar leiðbeiningar um greiðslumat, en orðalag um lánshæfismat er rýrt. Þannig getur áhættusækinn lánveitandi notað uppflettingu í vanskilaskrá eingöngu sem lánshæfismat, sem segir bara til um hvort viðkomandi er nú þegar kominn í vandræði. Þá eru heimildir takmarkaðar til að nota jákvæð gögn og ekki er gert ráð fyrir að lántaki vilji deila upplýsingum um sína fjármálasögu til að fá betri fyrirgreiðslu.

Árið 2018 tóku ný lög um persónuvernd gildi sem byggja á Evrópureglugerð, en tilgangur hennar var að koma til móts við breytt tækniumhverfi. Í greinargerð með lögunum kemur fram að eðlilegt þyki að settar verði reglur, og frekari ákvæði um vinnslu fjárhagsupplýsinga í reglugerð, og að til álita komi hvort setja eigi sérstök lög um efnið. Vilji löggjafans er því skýr, hann telur þörf á nánari reglum og virðist ekki ætla að fela eftirlitsvaldinu (Persónuvernd) að setja þær. Síðan eru liðin tvö ár og ekki bólar á reglugerðinni.

Skýr lög grundvöllur framþróunar

Notkun persónuupplýsinga til lánsákvarðana byggir í dag á úreltu lagaumhverfi. Þar er gert ráð fyrir að málið snúist eingöngu um persónuvernd en fjárhagshlutinn er ekki síður mikilvægur, sem er á herðum Persónuverndar að setja reglur um í dag. Í nágrannalöndunum er búið að aðlaga lagaumhverfið og eru almennt sér lög um rekstur fjárhagsupplýsingastofu, þar sem þessi tvö hlutverk eru skýr.

Ísland hefur tækifæri til að vera framúrskarandi á mörgum sviðum. Til þess að svo megi verða þurfa einstaklingar og fyrirtæki að hafa gott aðgengi að fyrirgreiðslu. Með skýrum lögum um aðgengi og skilvirka miðlun upplýsinga, þar sem persónuverndar er gætt í hvívetna, tryggjum við betri áhættustýringu, betri lánakjör, greiðara aðgengi að fjármagni, sanngjarnari og hraðari lánaákvarðanir og síðast en ekki síst betri neytendavernd og ábyrgari fjármálahegðun okkar allra.

Greinin birtist upphaflega í Markaðinum– viðskiptablaði Fréttablaðisins og á frettabladid.is