Nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki var verðlaunuð í fyrsta sinn á Framúrskarandi fyrirtækjum 2017 og hlaut Hampiðjan verðlaunin. Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum og það var mat dómnefndar að Hampiðjan væri sönn fyrirmynd starfandi fyrirtækja þegar kemur að öflugu nýsköpunarstarfi.

Hvatningarverðlaun um nýsköpun verða nú veitt í annað sinn á Framúrskarandi fyrirtækjum 2018 í Eldborg miðvikudaginn 14. nóvember. Í samstarfi við Icelandic Startups – mun dómnefnd skipuð þremur sérfræðingum á sviði nýsköpunar velja fyrirtæki sem hlýtur viðurkenninguna ,,Framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki 2018”. Við val á framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti. Í þetta sinn er óskað eftir tilnefningum um framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins og koma öll Framúrskarandi fyrirtæki 2018 til greina. Verðlaunin eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups og tekið er á móti tilnefningum til og með 20. október. Er fyrirtækið þitt framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins?

Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. Creditinfo vinnur árlega ítarlega greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og birtir lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Meginmarkmið greiningarinnar er að verðlauna þau fyrirtæki sem standa sig vel og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi.