Árlega veitir Creditinfo fyrirtækjum sérstök hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og framúrskarandi nýsköpun. Marel hf hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð árið 2019.

Creditinfo veitir verðlaunin í þriðja sinn á sama tíma og listi yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2019 var gerður opinber 23. október síðastliðinn. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hámarki jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í ekki síður en fjárhagslegan árangur sinn.

Skýr stefna í samfélagsábyrgð

Creditinfo skipaði dómnefnd í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem vann úr fjölda tilnefninga um fyrirtæki sem áttu það sameiginlegt að vera á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 og með skýra stefnu í samfélagsábyrgð. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að Marel hefur skapað sér stefnu á sviði samfélagsábyrgðar með heildstæðum hætti út frá rekstri fyrirtækisins. Í rökstuðningnum segir enn fremur að það fari ekki á milli mála að „stjórnendur leggja sig fram um að skapa menningu innan fyrirtækisins þar sem jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi eru í forgrunni. Sjálfbærni er sett fram sem mikilvægur hlekkur í leiðarljósi fyrirtækisins. Má þar nefna að forstjórinn beitir sér fyrir samfélagslega ábyrgum áherslum svo eftir er tekið, svo sem í samstarfi við önnur fyrirtæki hérlendis og erlendis. Fleiri fulltrúar fyrirtækisins eru einnig iðnir við að viða að sér og miðla til annarra fyrirtækja hagnýtum aðferðum í að innleiða samfélagslega ábyrga starfshætti, þ.á.m. hvernig fyrirtæki geta unnið að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.“

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, segir í tilefni verðlaunaafhendingarinnar að verðlaunin séu mikil hvatning fyrir fyrirtækið. „Við þurfum að vera og erum mjög markviss í öllum okkar aðgerðum tengdum samfélagslegri ábyrgð,“ segir Guðbjörg. „Það er mikil matarsóun í virðiskeðjunni á heimsvísu eða um 1,3 milljarðar tonna á ári, eitthvað sem við getum ekki litið fram hjá. Að sama skapi teljum við það vera mikilvægt tækifæri að nýta tækni og nýsköpun til þess að þróa lausnir sem nýta verðmætar auðlindir á skynsaman hátt. Við teljum þá einnig að grundvöllur fyrir langtíma verðmætasköpun felist í að líta á hlutverk fyrirtækja í víðara samhengi, að huga að öllum haghöfum og skila virðisaukningu til samfélags, viðskiptavina, starfsmanna og hluthafa.“

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, og í dómefnd sátu Fanney Karlsdóttir sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð og fyrrum formaður Festu , Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki og Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar. Dómnefnd vann úr lista yfir tilnefnd fyrirtæki sem voru á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 og sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Almenningi gafst kostur á að tilnefna fyrirtæki sem sköruðu fram úr í samfélagsábyrgð í ágúst og gat dómnefnd því valið úr fjölda tilnefndra fyrirtækja.