Eftir mikinn vöxt síðastliðin ár hefur afkoma fyrirtækja í byggingageiranum minnkað lítillega frá árinu 2017 til 2018.

Afkoma fyrirtækja í byggingariðnaði er farin að dragast saman eftir mikinn vöxt frá árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo á rekstrarniðurstöðum þeirra byggingarfyrirtækja sem skilað hafa ársreikningi fyrir árið 2018. Fjallað var um greiningu Creditinfo í Viðskiptamogganum í dag.

Dregst saman árið 2018

Rekstrarhagnaður þeirra byggingarfyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi nam að meðaltali 15 milljónum króna árið 2018 og hefur dregist saman um eina milljón króna frá árinu áður. Hið sama gildir um rekstrarhagnað byggingarfyrirtækja fyrir fjármagnsliði og afskriftir sem drógust einnig lítillega saman á milli ára.

70% skila hagnaði

Vöxtur fyrirtækja í byggingariðnaði hefur verið töluverður frá árinu 2011 til ársins 2018 ef marka má rekstrarniðurstöður þeirra fyrirtækja sem skilað hafa ársreikningi fyrir árið 2018. Rekstrarhagnaður fyrirtækja í byggingariðnaði nam að meðaltali 286 þúsund krónum árið 2011 en var neikvæður um 800 þúsund árið áður.  Árið 2011 skiluðu 55% fyrirtækja í byggingariðnaði hagnaði en árið 2018 voru það 70% fyrirtækja sem skiluðu hagnaði.

Flest búin að skila ársreikningi

2.221 byggingarfyrirtæki hafa skilað ársreikningi til ríkisskattstjóra fyrir reikningsárið 2018 en það er um 70% þeirra fyrirtækja sem skiluðu ársreikningi fyrir árið 2017. Síðasti skiladagur ársreiknings fyrir flest fyrirtæki var 10. september síðastliðinn en útlit er fyrir að einhver fjöldi fyrirtækja eigi eftir að skila reikningi fyrir reikningsárið 2018. 

Framúrskarandi byggingafyrirtækjum fjölgaði

Hlutfall byggingafyrirtækja á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2014 til ársins 2018. Um 9,2% framúrskarandi fyrirtækja árið 2018 voru í byggingageiranum sem er hærra hlutfall en hjá t.d. ferðaþjónustufyrirtækjum, sjávarútvegsfyrirtækjum og hjá fyrirtækjum í veitingageiranum svo dæmi séu tekin. Til að ná á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki þurfa fyrirtæki meðal annars að uppfylla skilyrði um meira en 20% eiginfjárhlutfall og jákvæða rekstrarniðurstöðu síðustu þrjú ár.


Frétt um greiningu Creditinfo birtist í Morgunblaðinu í dag, 2. október 2019.