Blikur eru á lofti hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustunni. En hvað segja gögnin okkur um stöðu mála?

Eftir fall Wow Air hefur mikið verið fjallað um stöðu og horfur innan ferðaþjónustunnar. Nýlegar spár virðast benda til þess að draga muni úr vexti ferðamanna í ár og að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja muni dragast saman í kjölfarið. Samkvæmt skammtímahagvísum Hagstofunnar um ferðaþjónustuna fyrir júnímánuð var fjöldi ferðamanna í maí rúmlega 111 þúsund og dróst saman um 24% frá sama mánuði árið 2018. Þetta er mesti samdráttur erlendra ferðamanna innan sama mánaðar síðan talningar hófust. Í sömu hagvísum kemur fram að launþegum í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu fækkaði um 5% frá mars árið 2018 til mars árið 2019.

Ekki er hægt að fá skýra mynd af því hvernig útlitið er fyrir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja um þessar mundir þar sem helstu heimildir um rekstrarniðurstöðu þeirra er að finna í ársreikningum. Sem stendur hafa um 21,9% fyrirtækja skilað ársreikningi fyrir árið 2018 en skilafrestur á ársreikningum er til 31. ágúst. Það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar fyrir árið 2018 þegar allir ársreikningar hafa borist en ekki verður hægt að fá glögga mynd af áhrifum gjaldþrots Wow Air fyrr en á næsta ári, þegar ársreikningar fyrir árið 2019 berast.

Ferðaþjónustufyrirtækjum fjölgar

Engu að síður er athyglisvert að rýna í þau gögn sem eru til staðar nú þegar, þ.e. ársreikningar til ársins 2017 og þá ársreikninga sem eru komnir fyrir árið 2018. Á myndinni hér fyrir neðan sést glögglega að fjölgun ferðaþjónustufyrirtækja hefur verið umtalsverð. Ef við tökum út fyrir sviga annars vegar fjölda nýrra fyrirtækja og hins vegar fjölda fyrirtækja sem hafa hætt starfsemi sést að færri ferðaþjónustufyrirtæki eru að hefja starfsemi en áður og fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu eru farin að hætta starfsemi. Þetta gæti verið vísbending um að samþjöppun sé hafin í atvinnugreininni.

Aðeins hafa tæplega 300 fyrirtæki í ferðaþjónustugeiranum skilað inn ársreikningi fyrir árið 2018 og eins og áður sagði er erfitt að fullyrða um stöðu geirans út frá þeim niðurstöðum. Þó eru vísbendingar um versnandi afkomu í greininnni ef rekstrarniðurstöður þeirra fyrirtækja sem hafa skilað reikningi fyrir 2018 eru skoðaðar. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig EBITDA og rekstrarhagnaður þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi árið 2018 hefur þróast frá árinu 2009 til ársins 2018 að meðaltali. Hátindinum var náð árið 2016 og svo virðist sem að afkoman fari hægt sígandi frá og með árinu 2017.

Framúrskarandi ferðaþjónustufyrirtækjum fækkar

Með haustinu kemur í ljós hvaða fyrirtæki eru á meðal Framúrskarandi fyrirtækja árið 2019. Þau fyrirtæki sem ná þeim árangri þurfa að uppfylla ýmis skilyrði sem bera vott um stöðugan rekstur. Til að leggja mat á stöðu ferðaþjónustunnar er því áhugavert að skoða hlutfall Framúrskarandi fyrirtækja á meðal ferðaþjónustufyrirtækja. Líkt og myndin hér fyrir neðan sýnir hefur það hlutfall dregist lítillega saman allt frá árinu 2015. Rétt er að taka fram að hvert ár byggist á rekstrarniðurstöðum ársins á undan. Þ.e. útreikningur á Framúrskarandi fyrirtækjum árið 2018 byggist m.a. á niðurstöðum úr ársreikningum árið 2017. Heilt yfir stóð fjöldi Framúrskarandi fyrirtækja nokkurn veginn í stað frá árinu 2017 til ársins 2018. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan fækkar fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustunni á meðal Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2017-2018 en félögum í byggingariðnaði fjölgar á sama tíma.

Út frá ofangreindum gögnum er því ljóst að hægja tók á vexti ferðaþjónustunnar áður en Wow Air varð gjaldþrota í mars á þessu ári. Eins og áður sagði verða áhrif falls Wow Air á ferðaþjónustuna ekki skýr fyrr en á næsta ári en miðað við fyrirliggjandi gögn er ekki útlit fyrir annað en áframhaldandi samþjöppun í geiranum.