Dagný Dögg Franklínsdóttir

Dagný Dögg Franklínsdóttir, forstöðumaður viðskiptastýringar Creditinfo, skrifar um hlutverk fjárhagsupplýsingastofu í ábyrgum lánveitingum í Markaðinum – viðskiptablaði Fréttablaðsins.

Flest viljum við geta gengið frá kaupum á bíl, leigutryggingu eða greiðslumati hratt og vel. Fengið bílalán eða leigutryggingu stafrænt og í rauntíma. Til þess að það sé hægt þarf að byggja upp traust á milli skuldara og lánveitanda hratt og örugglega. Þetta traust byggist á fjárhagsgögnum s.s. greiðslusögu og skilvísi, fyrri vanskilum og góðri viðskiptasögu við aðra lánveitendur.  

Sæki einstaklingur um lán, ber lánveitandanum skv. lögum um neytendalán að meta lánshæfi viðkomandi. Þannig hvílir sú skylda á lánveitendum að skoða gögn um einstaklinginn sem skuldara og meta getu hans á að standa í skilum eða óska eftir tryggingu fyrir greiðslum. Í samræmi við lög um neytendalán byggir lánshæfismat  á viðskiptasögu og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. 

Í þeim tilfellum þar sem lán fer yfir 2 milljónir ber lánveitendum samkvæmt lögum um neytendalán að framkvæma greiðslumat til viðbótar við lánshæfismat.  Í greiðslumati er greiðslugeta á mánuði metin út frá tekjum, skuldbindingum og kostnaði og tekur lánveitandi ákvörðun um lánveitingu í kjölfar greiðslumats.  Munurinn á greiðslumati og lánshæfismati er því í grófum dráttum sá að greiðslumat metur mánaðarlega greiðslugetu einstaklings á meðan lánshæfismat spáir fyrir um líkurnar á að einstaklingur fari í vanskil í náinni framtíð. Vinnsla lánshæfis- og greiðslumats stuðlar þannig að ábyrgum  lánveitingum, betri væntum endurheimtum fyrir lánveitendur og betri kjörum fyrir skilvísa lántakendur. 

Lánveitendur mega samkvæmt lögum ekki lána ef greiðslugeta eða mat á lánshæfi einstaklings sýnir fram á að hann sé mögulega ekki borgunarmaður fyrir skuldinni. Vanskilaskrá er mikilvæg sýn á umfang vanskila og er heimilt að skrá vanskil einstaklinga og fyrirtækja sem staðið hafa yfir í 40 daga eða meira þar sem heimild til skráningar liggur fyrir eða opinberar innheimtuaðgerðir.  Ef lán væru veitt áhættumeiri einstaklingum myndi það hratt skila sér í verri kjörum fyrir skilvísa skuldara og mögulega minna framboði fjármagns og stífari útlánareglum. Hins vegar geta góð og traust gögn verið grundvöllur þess að hægt er að auka og auðvelda aðgengi að fjármagni á betri kjörum en ella. 

Þróað og vanþróað fjármálakerfi  

Í þróuðu fjármálakerfi eru allir lántakar metnir á sömu forsendum og haldbærum og traustum gögnum. Í vanþróuðum fjármálakerfum eru tengsl við rétta aðila oft forsenda lánveitinga en þar er gjarnan skortur á haldbærum gögnum. Creditinfo starfrækir  25 fjárhagsupplýsingastofur (e. credit bureau) í fjórum heimsálfum. Í samstarfi við World Bank og IFC hefur Creditinfo hafið starfssemi á mörkuðum út um allan heim, meðal annars í Kenía, Srí Lanka, Óman og Jamaíka. Félagið vinnur markvisst að því að auka fjárhagslega þátttöku (e. Financial inclusion) minni og meðalstórra fyrirtækja og einstaklinga á jaðarmörkuðum með því að halda utan um og veita fjárhags- og viðskiptaupplýsingar þar sem þær hafa verið af skornum skammti. 

Sjálfvirknivæðing á ljóshraða 

Það er ekki langt síðan það tók nokkrar vikur og allt upp í mánuði að fara í greiðslumat. Þá þurfti lántakinn að safna gögnum um sig hjá fjölda fyrirtækja og stofnana og fara með til viðkomandi lánveitanda. Nú tekur sama ferli örfáar mínútur og fer fram rafrænt. Gott aðgengi að miðlægum gögnum gerir það jafnframt að verkum að nú er mögulegt að sækja um fyrirgreiðslu hjá lánveitendum og fyrirtækjum sem eiga litla eða enga sögu um einstaklinginn. Þannig má segja að aðgengileg gögn um lántaka ýti undir virka samkeppni og betri kjör á lánamarkaði. 

Sjálfsafgreiðsla og sjálfvirkni er þróun sem hefur verið á ljóshraða á síðustu árum en við aðstæður eins og í dag, heimsfaraldur þar sem samkomubann er við lýði, er þetta enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr.  

Creditinfo hefur sérhæft sig í sjálfvirknivæðingu ákvarðanatöku við lánveitingar. Þessar ákvarðanir byggja á lagalegum grunni, traustum gögnum og rýndum ferlum. Aðgengi að góðum og traustum gögnum er því nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að tryggja aukna sjálfvirknivæðingu og ábyrgar lánveitingar.  

Greinin birtist upphaflega í Markaðinum– viðskiptablaði Fréttablaðisins.