Ein verðmætasta vísbendingin um fjárhagslegt heilbrigði fyrirtækja er lánshæfismat þeirra. Lánshæfismat Creditinfo byggir á stærsta safni viðskiptaupplýsinga hérlendis og metur líkur á vanskilum fram í tímann. Hér verður farið yfir hvað lánshæfismat fyrirtækja er og hvernig það er unnið.

Lánshæfismat fyrirtækja er reiknað daglega fyrir nánast öll íslensk fyrirtæki sem ekki eru með virka skráningu í vanskilaskrá, hafa verið brottfelld eða eru gjaldþrota. Creditinfo lánshæfismetur eftirfarandi rekstrarform: hlutafélög (hf.), einkahlutafélög (ehf.), samvinnufélög (svf.), sameignarfélög (sf.) og samlagsfélög (slf.) ásamt nokkrum fágætari rekstrarformum. Opinber fyrirtæki og bankar eru ekki lánshæfismetin.

Lánshæfismat fyrirtækja á vef Creditinfo

Hægt er að sækja lánshæfismat fyrirtækja á þjónustuvef Creditinfo og í gegnum vefverslun. Í lánshæfismatinu kemur fram lánshæfiseinkunn fyrirtækis, COVID-váhrifamat þess, sögulegt lánshæfismat fyrirtækis borið saman við atvinnugreinina að meðaltali auk upplýsinga úr ársreikningum, hluthafaskrá o.fl.  

Dæmi um lánshæfismat á þjónustuvef Creditinfo

Lánshæfismat og vanskilatíðni

Lánshæfismat Creditinfo skiptir félögum í 10 lánshæfisflokka, 1-10, þar sem 1 er besta einkunnin. Einnig er hverju fyrirtæki úthlutað gildi sem táknar reiknaðar líkur á því að það fari í vanskil á næstu tólf mánuðum. Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig þessar líkur eru í hverjum lánshæfisflokki:

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig lánshæfismat fyrirtækja tengdist vanskilatíðni fyrirtækja á síðasta ári. Af þeim fyrirtækjum sem voru með lánshæfiseinkunnina 10 fóru um 57% fyrirtækja í vanskil en hlutfallið var mun lægra hjá fyrirtækjum sem voru með lánshæfiseinkunn á bilinu 1-4 þar sem flest íslensk fyrirtæki standa hverju sinni.

Sérfræðingar Creditinfo endurskoða lánshæfismatið reglulega til að taka tillit til þeirra þátta sem hafa mest áhrif á vanskil fyrirtækja hverju sinni. Lánshæfismatið er unnið úr öllum þeim gögnum sem Creditinfo hefur aðgang að og er heimilt að nota. Á myndinni hér fyrir neðan er hægt að sjá helstu áhrifaþætti lánshæfismats fyrirtækja, raðað eftir vægi:

Uppflettingar og vaktanir af innheimtuástæðu

Á hverjum degi eru framkvæmdar um 1.200 uppflettingar á fyrirtækjum í vanskilaskrá Creditinfo af innheimtuástæðu. Slíkar uppflettingar hafa mikið spágildi fyrir vanskil fyrirtækja og hafa þær því mikið vægi við útreikning lánshæfismats fyrirtækja. Þessu til viðbótar eru um 5.000 fyrirtæki vöktuð með tilliti til vanskila af sömu ástæðu. Vert er að taka fram að aðrar uppflettingar á vanskilum eða lánshæfi fyrirtækja hafa mun minni og oft engin áhrif til lækkunar á lánshæfismati.

Fyrri vanskil

Hafi fyrirtæki áður lent á vanskilaskrá hefur það einnig sterk áhrif til lækkunar á lánshæfiseinkunn. Um 5.500 íslensk fyrirtæki eru um þessar mundir með um 20.000 opin vanskilamál. Þetta eru bæði mál frá opinberum aðilum og um 80 aðilum sem senda inn mál fyrir hönd um 1.000 kröfuhafa. Þegar litið er til fyrri vanskila við útreikning lánshæfismats er horft m.a. til sögu vanskila, hvenær þau áttu sér stað, gagnvart hvaða aðila, af hvaða gerð þau eru og upphæðir þeirra.  

Tengsl aðila

Hluthafagrunnur Creditinfo inniheldur helstu eigendur allra félaga á landinu. Fyrirtæki eru tengd saman með ýmsum leiðum og því hafa þau áhrif á lánshæfismat hvers annars. Við útreikning á lánshæfismati eru fyrirtæki flokkuð tengd ef þau eru í eigu sömu einstaklinga eða er stýrt af sömu aðilum. Því getur það haft áhrif á lánshæfismat fyrirtækja ef tengd fyrirtæki hafa gott eða slæmt lánshæfismat.

Ársreikningar

Í gagnagrunnum Creditinfo er hægt að nálgast upplýsingar úr um 550.000 ársreikningum um 60.000 félaga. Breytur úr ársreikningum sem notaðar eru við útreikning lánshæfismats eru m.a. afkoma, lykilhlutföll og skiladagsetningar ársreikninga. Til að leggja mat á lánshæfismat fyrirtækja eru skoðaðar breytingar á milli ársreikninga og eru þeir einnig greindir til lengri tíma til að verðlauna fyrirtæki fyrir stöðugleika yfir langan tíma.

Fyrirtækjaupplýsingar

Ýmsar fyrirtækjaupplýsingar eru teknar til skoðunar við útreikning lánshæfismats. Skoðaðar eru meðal annars upplýsingar um aldur fyrirtækis, fjöldi í stjórn og kynjahlutföll hennar, stofnfé, starfsemi o.fl.

Greiðsluhegðun

Í hverjum mánuði móttekur Creditinfo upplýsingar um greiðslu 20.000 reikninga frá um 6.000 greiðendum úr greiðsluhegðunarkerfi Creditinfo. Við útreikning á lánshæfismati er athugað hversu margir reikningar eru greiddir og hversu tímanlega. Fyrirtæki geta á auðveldan hátt miðlað upplýsingum um útgefna reikninga til Creditinfo.


Með aðgangi að stærsta safni viðskiptaupplýsinga á Íslandi tekur þú markvissari ákvarðanir í viðskiptum. Kynntu þér áskriftarleiðirnar sem standa til boða hjá Creditinfo.