Flest viljum við geta gengið frá kaupum á bíl, húsgögnum eða jafnvel húsnæði hratt og vel. Fengið bílalán, loforð um fasteignalán eða leigutryggingu stafrænt og í rauntíma. Til þess að það sé hægt þarf að byggja upp traust á milli skuldara og lánveitanda hratt og örugglega. Þetta traust byggist á fjárhagsgögnum s.s. greiðslusögu og skilvísi, fyrri vanskilum og góðri viðskiptasögu við aðra lánveitendur.

Lánshæfismat og greiðslumat

Sæki einstaklingur um lán, ber lánveitandanum skv. lögum um neytendalán að meta lánshæfi viðkomandi. Þannig hvílir sú skylda á lánveitendum að skoða gögn um einstaklinginn sem skuldara og meta getu hans á að standa í skilum eða óska eftir tryggingu fyrir greiðslum. Í samræmi við lög um neytendalán byggir lánshæfismat á viðskiptasögu og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. 

Munurinn á greiðslumati og lánshæfismati er því í grófum dráttum sá að greiðslumat metur mánaðarlega greiðslugetu einstaklings á meðan lánshæfismat spáir fyrir um líkurnar á að einstaklingur fari í vanskil í náinni framtíð.

Í þeim tilfellum þar sem lán fer yfir 2 milljónir (4 milljónir fyrir hjón og sambúðarfólk) ber lánveitendum samkvæmt lögum um neytendalán að framkvæma greiðslumat til viðbótar við lánshæfismat.  Í greiðslumati er greiðslugeta á mánuði metin út frá tekjum, skuldbindingum og kostnaði og tekur lánveitandi ákvörðun um lánveitingu í kjölfar greiðslumats.  Munurinn á greiðslumati og lánshæfismati er því í grófum dráttum sá að greiðslumat metur mánaðarlega greiðslugetu einstaklings á meðan lánshæfismat spáir fyrir um líkurnar á að einstaklingur fari í vanskil í náinni framtíð.

Lánveitendur mega því samkvæmt lögum ekki lána ef greiðslugeta eða mat á lánshæfi sýnir fram á að væntanlegur lántaki sé mögulega ekki borgunarmaður fyrir skuldinni. Þannig ber lánveitandi ábyrgð á að ganga úr skugga um að lántaki sé lánshæfur áður en ákvörðun er tekin um lánveitingu. Vinnsla lánshæfis- og greiðslumats stuðlar þannig að ábyrgum lánveitingum, aukinni neytendavernd, betri væntum endurheimtum fyrir lánveitendur og betri kjörum fyrir skilvísa lántakendur. 

Hvaða þættir hafa áhrif á lánshæfismat einstaklinga? Hvernig er það reiknað?

Creditinfo reiknar lánhæfismat fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Lánshæfi einstaklinga er metið á kvarðanum A1-E3 hjá Creditinfo, þar sem A1 er besta möguleika einkunn og E3 sú lakasta. Myndin sýnir dreifingu lánshæfiseinkunna einstaklinga á Íslandi, eldri en 18 ára. Ekki er reiknað lánshæfismat fyrir einstaklinga á vanskilaskrá eða þá sem búsettir eru erlendis.

Dreifing einstaklinga í lánshæfisflokka.
Langflestir skuldarar eru skilvísir og það því þeim í hag að geta sýnt lánveitendum fram á það með sterku lánshæfismati.

Vanskilaskrá er mikilvæg sýn á umfang vanskila og þangað er heimilt að skrá vanskil sem staðið hafa yfir í 40 daga eða meira þar sem heimild til skráningar liggur fyrir eða innheimtuaðgerðir eins og dómar, gjaldþrot og árangurslaust fjárnám.

Ef einstaklingur er með virka skráningu á Vanskilaskrá fær viðkomandi ekki reiknað lánshæfismat. Þetta er vegna þess að lánshæfismatinu er ætlað að meta líkur á vanskilum í framtíð og sé virk skráning á Vanskilaskrá er eðli málsins samkvæmt nú þegar um vanskil að ræða. Fyrri skráningar á Vanskilaskrá eru jafnframt helsti áhrifaþáttur til lækkunar lánshæfismats. Þær geta haft áhrif á lánshæfismat í fjögur ár frá skráningu og minnkar vægi þeirra eftir því sem tíminn líður og fellur niður að fjórum árum liðnum. Aðrir áhrifaþættir eru til dæmis aldur, búseta og fyrirtækjatengsl.

Áhrifaþættir lánshæfismats.
Fyrrum skráningar á vanskilaskrá vega lang-þyngst í útreikningi lánshæfismats einstaklinga.

Einstaklingar geta nálgast lánshæfismat sitt á Mitt Creditinfo. Þar er jafnframt mögulegt að samþykkja notkun viðbótarupplýsinga við gerð lánshæfismats Creditinfo og þannig varpa skýrara ljósi á fjárhagslega stöðu. Miðlun viðbótarupplýsinga styrkir í flestum tilfellum lánshæfismat einstaklings og eykur spágildi lánshæfismatsins. Einfalt er að afturkalla samþykkið undir „stillingar“ á Mitt Creditinfo. Eftir því sem meira af jákvæðum sönnunargögnum finnast um skilvísi og fjárhagslegan styrk, þeim mun meiri verða jákvæðu áhrifin.

Get ég haft áhrif á lánshæfismatið mitt?

Eins og áður sagði hafa vanskil mikil áhrif á lánshæfismat þitt og því er mikilvægt að forðast þau eins og mögulegt er. Stefni krafa í vanskil skiptir miklu máli að leita strax til lánveitenda og innheimtuaðila og nýta þau úrræði sem í boði eru eins og frystingar afborgana, lengingar á lánum, endurfjármagnanir eða gerð greiðslusamkomulaga. Taka skal fram að frystingar lána vegna Covid-faraldursins hafa ekki áhrif á lánshæfismatið. Séu vanskilin við fleiri en einn lánveitanda eða fjárhagsvandræðin veruleg bendum við jafnframt á að Umboðsmaður skuldara veitir einstaklingum aðstoð vegna fjárhagsvanda.

Þumalfingurreglan er:

  • Greiða reikninga tímanlega – ekki lenda í vanskilum
  • Lendir þú í greiðsluerfiðleikum – hafðu tafarlaust samband við lánveitendur til að forðast skráningu á vanskilaskrá
  • Ef þú ert komin í vanskil og skuld komin í innheimtu – hafðu samband við innheimtuaðilann til að semja um greiðslu skuldarinnar

Er gott lánshæfismat þá allt sem þarf?

Þó lánshæfismat Creditinfo sýni mögulega fram á litlar líkur á að einstaklingur fari í vanskil er ekki þar með sagt að aðgengi að fjármagni sé tryggt. Lánveitendur taka ákvörðun um lánveitingu út frá lánareglum og þar koma oft á tíðum fleiri þættir inn í ákvarðanatökuna en lánshæfismatið. Jafnframt getur lánveitandi breytt lánareglum sem getur haft í för með sér að einstaklingur sem áður hafði aðgang að lánsfé hafi það ekki lengur – þó svo lánshæfismatið sé óbreytt. Jafnframt er vert að nefna að lánveitendur nota í mörgum tilvikum eigin gögn (gögn um viðskiptasögu eins og veltu á reikningum og upplýsingar um skilvísi) um viðskiptavini sína og reikna jafnvel eigið lánshæfismat – ýmist með lánshæfismat Creditinfo til hliðsjónar eða ekki. Í þessum tilfellum er kvarði lánshæfismatsins gjarnan annar en í lánshæfismati Creditinfo.

Það er deginum ljósara að gott lánshæfismat er mikils virði og mikilvægur mælikvarði þegar lánveitendur meta áhættu í útlánum. Ef lán væru veitt áhættumeiri einstaklingum myndi það hratt skila sér í verri kjörum fyrir skilvísa skuldara og mögulega minna framboði fjármagns og stífari útlánareglum. Hins vegar geta góð og traust gögn verið grundvöllur þess að hægt er að auka og auðvelda aðgengi að fjármagni á betri kjörum en ella. Vinnsla lánshæfismats stuðlar þannig að ábyrgari lánveitingum og aukinni neytendavernd.


Lánshæfismat Creditinfo byggir á stærsta safni viðskiptaupplýsinga hérlendis og metur líkur á vanskilum tólf mánuði fram í tímann. Einstaklingar geta nálgast lánshæfismat sitt á vefnum mittcreditinfo.is. Þar má jafnframt sjá yfirlit yfir þá þætti sem hafa áhrif á lánshæfismatið hverju sinni, skráningar á vanskilaskrá, skuldastöðu og fyrirtækjatengsl.

Ein athugasemd á “Hvað er lánshæfismat og hvernig er það notað?

Lokað er fyrir athugasemdir.