Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. Í ellefu ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og birt lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki.

Meginmarkmið greiningarinnar er að verðlauna þau fyrirtæki sem standa sig vel og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Það er því eftirsóknarvert að komast á lista Framúrskarandi fyrirtækja og njóta þannig aukins trausts. Á síðasta ári voru Framúrskarandi fyrirtæki 881 talsins eða um 2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi árið 2020.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að teljast Framúrskarandi fyrirtæki?

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3.
  • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag. Tekið er tillit til allra opinberra framlenginga RSK á skilafresti.
  • Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo.
  • Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK.
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú rekstrarár.
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú rekstrarár.
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú rekstrarár.
  • Eiginfjárhlutfall hærra en 20% síðustu þrjú rekstrarár.
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú rekstrarár.

Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru vegna COVID-19 áskiljum við okur rétt til að kalla eftir frekari upplýsingum sem kynnu að varpa ljósi á rekstur fyrirtækja ef ástæða þykir til.

Fyrirtæki sem hljóta útnefninguna Framúrskarandi fyrirtæki geta keypt vottunina og notað hana í markaðs- og kynningarefni sínu. Jafnframt má kaupa heildar-lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem inniheldur allar grunnupplýsingar byggðar á ársreikningum.