Ein mikilvægasta forsenda ábyrgra lánveitinga er að til staðar séu greinargóðar upplýsingar um fjárhagslega stöðu lántakenda. Samkvæmt lögum um neytendalán mega lánveitendur ekki lána ef greiðslugeta eða mat á lánshæfi sýnir fram á að væntanlegur lántaki sé mögulega ekki borgunarmaður fyrir skuldinni. Þannig ber lánveitandi ábyrgð á að ganga úr skugga um að lántaki sé lánshæfur áður en ákvörðun er tekin um lánveitingu.

Upplýsingar um vanskil einstaklinga og fyrirtækja teljast mikilvægar upplýsingar um fjárhagslega stöðu lántaka og eru þær því stór þáttur við útreikning á lánshæfismati Creditinfo. Creditinfo hefur haldið utan um sérstaka skrá um vanskil einstaklinga og fyrirtækja frá árinu 1997 og er skráningin háð starfsleyfi fyrirtækisins frá Persónuvernd. Hér fyrir neðan verður farið yfir hverjar heimildir eru til skráningar vanskilamála hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Hvaða upplýsingum er safnað?

Creditinfo safnar upplýsingum um vanskil einstaklinga og lögaðila á grundvelli starfsleyfis frá Persónuvernd í þeim tilgangi að miðla til lánveitenda og annara sem veita fjárhagslega fyrirgreiðslu, og aðila í innheimtu-  og/eða skiptastarfsemi.

Upplýsinga um vanskil er aflað annars vegar frá opinberum aðilum, s.s. sýslumönnum og dómstólum og hins vegar frá áskrifendum Creditinfo, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hvenær má senda inn upplýsingar um vanskil einstaklinga? 

Heimildir áskrifenda Creditinfo til innsendinga vanskila einstaklinga eru bundnar eftirfarandi skilyrðum:

 • Áskrifandi hafi með undirritun, samþykkt skilmála samnings um heimild til innsendinga upplýsinga um vanskil 
 • Áskrifandi lúti eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands eða hafi heimild til innheimtu með stoð í lögum.

Að þessum skilyrðum uppfylltum hefur áskrifandi heimild til innsendinga upplýsinga um skuldir einstaklinga sem hver um sig nemur a.m.k. kr. 60.000,- að höfuðstóli, þ.e. fjárhæð kröfu að undanskildum vöxtum og öðrum kostnaði, þ.m.t. innheimtukostnaði. 

Þá er gert að skilyrði að löginnheimta sé hafin og a.m.k. eitt af eftirfarandi eigi við

 • Skuldari hafi skriflega gengist við því að krafa sé fallin í gjalddaga. 
 • Skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með sátt sem er aðfararhæf samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
 • Skuldara hafi með dómi, úrskurði eða áritaðri stefnu verið gert að greiða skuldina.
 • Skuldara hafi sannanlega verið birt boðun í fyrirtöku fjárnámsgerðar sem ekki hefur verði unnt að ljúka vegna fjarveru hans.
 • Skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun vegna skuldarinnar, enda uppfylli hún:
 • öll skilyrði 7. gr. laga nr. 90/1989, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn
 • öll skilyrði 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn.
 • Fyrir liggi sannanlega vanefndur nauðasamningur, samningur eða nauðasamningur til greiðsluaðlögunar sem skuldari hefur gert og áskrifandi er aðili að.
 • Skuldari hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali, sem skuldin er sprottin af, fallist á að áskrifandi óski skráningar fjárhagsupplýsingastofu á vanskilunum, enda séu skilyrði til þess uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr í skjalinu og við það miðuð að vanskil hafi varað í a.m.k. 40 daga.
 • Skuldari hafi með áritun á svonefnda eignaleysisyfirlýsingu, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., fallist á að kröfuhafi óski skráningar hennar hjá Creditinfo, enda sé slík heimild skýr og áberandi í skjalinu.
 • Skuldari hafi ekki innan 3 vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottinn þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 95/2010 og 78/2015.

Hvenær má senda inn upplýsingar um vanskil lögaðila? 

Heimildir áskrifenda Creditinfo til innsendinga vanskila lögaðila eru bundnar við að áskrifandi hafi með undirritun, samþykkt skilmála samnings um heimild til innsendinga upplýsinga um vanskil. Þá er gert að skilyrði að greiðanda hafi verið gert viðvart, með áletrun á útgefinn reikning, greiðsluseðil eða innheimtuviðvörun, um að upplýsingum um vanskil verði miðlað til Creditinfo og að vanskil hafi varað í að minnsta kosti 40 daga. Vanskil lögaðila er heimilt að skrá án tillits til fjárhæða. Athygli er vakin á að ekki er heimilt að skrá vanskil samkvæmt þessari heimild, ef um vanskil einstaklinga er að ræða.

Hverjir sinna eftirliti?

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur eftirlit með störfum lögmanna og þá hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með því að innheimtustarfsemi leyfisskyldra aðila, opinberra aðila, viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sé í samræmi við innheimtulög, reglur og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra. Creditinfo hefur jafnframt virkt eftirlit með því að áskrifendur fari að áskriftarsamningum. Komi í ljós við slíkt eftirlit eða með öðrum hætti að áskrifandi hafi brotið gegn skilmálum í áskriftarsamningi ber fjárhagsupplýsingastofu að tilkynna það tafarlaust til Persónuverndar sem tekur þá ákvörðun um beitingu valdheimilda sinna, þ. á m. um hvort lögð verði á stjórnvaldssekt og hver fjárhæð hennar skuli vera. Jafnframt ber Creditinfo að grípa til viðhlítandi ráðstafana með það fyrir augum að hindra að brot endurtaki sig. Í því felst að rifta ber samningi við áskrifanda sé skrá notuð í óheimilum tilgangi tvisvar á 12 mánuðum. Að liðnum 6 mánuðum má semja við hann að nýju. Verði áskrifandi aftur uppvís að notkun í óheimilum tilgangi innan 6 mánaða frá gerð nýs samnings skal honum sagt upp og skal honum ekki gefinn kostur á nýjum samningi fyrr en að 12 mánuðum liðnum.