Þegar þú sækir um lán eða heimild á kreditkorti þá verður lánveitandi samkvæmt lögum að kanna lánshæfi þitt. Í stuttu máli er lánshæfi mælikvarði á hversu líklegt það er að þú munir greiða skuldina þína til baka án vandræða. Lánshæfismat Creditinfo er notað af mörgum lánastofnunum til að meta lánshæfi einstaklinga. Það skiptir því miklu máli að hafa gott lánshæfismat til að hægt sé að eiga í lánsviðskiptum.

En hvað ákvarðar lánshæfismat einstaklinga og eru einhverjar leiðir til að bæta lánshæfi?

Lánshæfismat einstaklinga er metið á kvarðanum A1-E3 hjá Creditinfo, þar sem A1 er besta mögulega einkunn og E3 sú lakasta. Ekki er reiknað lánshæfismat fyrir einstaklinga á vanskilaskrá eða þá sem búsettir eru erlendis. Ýmsir þættir ákvarða lánshæfi einstaklinga en sá þáttur sem vegur einna þyngst er fyrri vanskil einstaklinga. Hér er hægt að lesa meira um lánshæfismat einstaklinga og hvernig það er notað.

Einstaklingar sem standa í skilum með sínar skuldbindingar og hafa gert það sögulega eru líklegri en aðrir til að hafa gott lánshæfi. Nokkrar leiðir eru færar til að stuðla að góðu lánshæfismati en hér fyrir neðan eru taldar upp þær helstu.

Ekki skuldsetja þig of mikið

Flestir þurfa að taka lán til að standa straum af stórum fjárfestingum eins og húsnæði eða bifreið. Aldrei hefur verið jafn mikið framboð af fjölbreyttum lánamöguleikum fyrir einstaklinga en því fylgir hætta á að einstaklingar skuldsetji sig um efni fram. Allir þurfa einhverja vörn fyrir ytri áföllum og ef þú ert mjög skuldsett/ur þá er minna svigrúm til að takast á við fjárhagsleg áföll. Ef þú gætir þess ekki að því að stilla skuldsetningum í hóf og hafa hana í samræmi við tekjur aukast líkurnar á því að þú lendir í vanskilum.

Semdu strax um skuldir

Ef þú sérð fram á að geta ekki greitt af skuldum þínum þá er mikilvægt að leita strax leiða til að semja um greiðslu þeirra. Hægt er að leita til þeirrar lánastofnunar sem þú ert í viðskiptum við eða til Umboðsmanns skuldara fyrir frekari ráðgjöf. Því lengur sem þú bíður með að semja um skuldir þínar því líklegra er að þú lendir á vanskilaskrá með tilheyrandi áhrifum á lánshæfi þitt.

Ekki fara í vanskil

Einn stærsti áhrifaþáttur í lánshæfismati einstaklinga er fyrri vanskil. Stefni krafa í vanskil skiptir miklu máli að leita strax til lánveitenda og innheimtuaðila og nýta þau úrræði sem í boði eru eins og frystingar afborgana, lengingar á lánum, endurfjármagnanir eða gerð greiðslusamkomulaga. Taka skal fram að frystingar lána vegna Covid-faraldursins hafa ekki áhrif á lánshæfismatið. Séu vanskilin við fleiri en einn lánveitanda eða fjárhagsvandræðin veruleg bendum við jafnframt á að Umboðsmaður skuldara veitir einstaklingum aðstoð vegna fjárhagsvanda. Skráningar á vanskilaskrá geta haft áhrif á lánshæfismat í fjögur ár en með tímanum minnka áhrifin. Það er því mjög mikilvægt að gæta að því að gera allt sem hægt er til að forðast vanskilaskráningu.

Borgaðu reikninga á réttum tíma

Ýmsar ástæður liggja fyrir því að kröfur einstaklinga fara í vanskil. Einstaklingar sem greiða reikninga seint og hafa ekki yfirsýn yfir þá reikninga sem þeir eiga að greiða geta átt á hættu að stofna til mikils kostnaðar og margir enda í vanskilum vegna þessa. Því er mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir þá reikninga sem til stendur að greiða um hver mánaðarmót og greiða alla reikninga á réttum tíma.

Deildu upplýsingum með Creditinfo

Til að reikna út lánshæfismat eru notaðar upplýsingar um fyrrum skráningar á vanskilaskrá, upplýsingar um aldur, búsetu og hjúskaparstöðu auk upplýsinga um tengingar einstaklinga við fyrirtæki. Í sumum tilfellum er hægt að bæta lánshæfismat með því að veita Creditinfo heimild til að sækja viðbótarupplýsingar. Á Mitt Creditinfo getur þú samþykkt notkun viðbótarupplýsinga við gerð lánshæfismats. Notkun viðbótarupplýsinga við útreikning lánshæfismats getur eftir atvikum komið til hækkunar eða lækkunar en styrkir það í flestum tilfellum og eykur spágildi þess. Þú getur með einföldum hætti bæði samþykkt notkun viðbótarupplýsinga og afturkallað slíkt samþykki. Sé samþykki afturkallað reiknast lánshæfismatið að nýju miðað við fyrri forsendur á innan við klukkustund.


Lánshæfismat Creditinfo byggir á stærsta safni viðskiptaupplýsinga hérlendis og metur líkur á vanskilum tólf mánuði fram í tímann. Einstaklingar geta nálgast lánshæfismat sitt á vefnum mittcreditinfo.is. Þar má jafnframt sjá yfirlit yfir þá þætti sem hafa áhrif á lánshæfismatið hverju sinni, skráningar á vanskilaskrá, skuldastöðu og fyrirtækjatengsl.