Eimskip er leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi og sinnir flutningum fyrir fjöldann allan af viðskiptavinum um allan heim. Skilvirkt utanumhald um viðskiptasambönd með tilliti til áhættu er því lykilatriði í árangursríkum rekstri fyrirtækisins.

Eimskip hefur lengi nýtt lánshæfismat fyrirtækja við mat á sínum viðskiptavinum með góðum árangri. Að sögn Áslaugar Guðjónsdóttur, forstöðumanns innheimtu hjá Eimskip, er lánshæfismatið mikilvægt verkfæri í þeirra verkfærakistu. „Við notum lánshæfismatið m.a. þannig að þegar fyrirtæki óska eftir að koma í reikningsviðskipti þá skoðum við lánshæfismat þeirra. Við vöktum líka lánshæfismat viðskiptavina okkar og við fylgjumst þannig með því hvernig lánshæfismatið er að hreyfast til hjá þeim,“ segir Áslaug.

Byggir upp traust

Hún bætir því við að það skiptir sköpum í þeirra starfsemi að geta byggt upp traust til viðskiptavina Eimskips. Lánshæfismatið hjálpar innheimtudeild Eimskips að meta viðskiptavini í upphafi viðskiptasambands. „Við treystum á lánshæfismatið, það er engin spurning um það,“ segir Áslaug.

Kemur í veg fyrir tapaðar kröfur

Áslaug segir Eimskip hafa komið í veg fyrir tapaðar kröfur með því að nota lánshæfismat fyrirtækja við ákvarðanatöku. „Ef lánshæfismatið er ekki gott þá lánum við ekki viðkomandi,“ segir Áslaug. „Þá fer viðkomandi í staðgreiðsluviðskipti og það er ekki erfið ákvörðun að taka. Lánshæfismatið styður við ákvörðun okkar um reikningsviðskipti og hjálpar okkur að taka góðar ákvarðanir fyrr. Það er mikilvægt að sjá stöðuna áður en skaðinn er skeður – að vera aðeins á undan.“

Mikilvægt að vakta

Það er ekki aðeins nauðsynlegt að kanna lánshæfismat viðskiptavina við upphaf viðskiptasambands heldur skiptir máli að vakta það meðan á viðskiptasambandi stendur, að mati Áslaugar.

„Það er mjög mikilvægt að fylgjast með viðskiptasafninu og það er mjög gott að gera það á vefnum hjá ykkur,“ segir Áslaug og vísar þar til Viðskiptamannavaktarinnar sem er aðgengileg áskriftum Creditinfo. „Ég nýti mér það mjög mikið að sjá hvernig viðskiptasafnið okkar stendur í gegnum yfirlitsmyndina á þjónustuvefnum. Við viljum sjá hvernig viðskiptasafnið er samansett með tilliti til áhættu. Það er sérstaklega þægilegt að geta sótt gögnin í Excel. Við fáum líka tölvupósta með tilkynningum um breytingar á vaktinni til innheimtudeildarinnar sem er mjög þægilegt og hjálpar okkur mikið.“

Upplýstari með lánshæfismatinu

Hún bætir því við að þar sem Eimskip er í viðskiptum við mörg fyrirtæki skiptir miklu máli að vera með uppfærðar upplýsingar við höndina þegar ákvarðanir eru teknar. „Lang flestir viðskiptavinir okkar eru mjög góðir en það er mikilvægt að halda utan um þetta vegna þess að það er mjög dýrt að hafa viðskiptavin sem stendur ekki við skuldbindingar sínar. Með lánshæfismatinu erum við upplýstari, það segir sig sjálft,“ segir Áslaug að lokum.


Hafðu samband ef þú vilt frekari upplýsingar um Lánshæfismat fyrirtækja eða Viðskiptamannavaktina