Það skiptir sköpum í rekstri fyrirtækja að taka upplýstar ákvarðanir um nýja viðskiptavini. Miklar fjárhæðir geta tapast ef þú hleypir illa reknum fyrirtækjum í reikningsviðskipti og góður rekstur getur grundvallast á því að stunda viðskipti við traust fyrirtæki.

Með aðgangi að Creditinfo hefur þú aðgang að stærsta safni fjármálaupplýsinga á Íslandi. Þær upplýsingar eru til þess að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku í viðskiptum. En hvernig nýtast þær til að taka ákvarðanir um nýja viðskiptavini?

Til að framkvæma ítarlega greiningu á greiðslugetu fyrirtækja og hvort fyrirtæki eigi erindi í viðskipti við þig er gagnlegt að skoða þá ákvörðun út frá eftirfarandi spurningum:

  • Hvers konar fyrirtæki er þetta?
  • Hvernig hefur reksturinn verið?
  • Hverjir standa að baki fyrirtækinu?
  • Hvert stefnir reksturinn?

Hvers konar fyrirtæki er þetta?

Til að skilja hvort fyrirtækið eigi erindi við þína starfsemi þarft þú grunnupplýsingar um starfsemi fyrirtækisins eins og aldur þess, heimilisfang, atvinnugrein og lykilstjórnendur. Grunnupplýsingar um öll íslensk fyrirtæki eru aðgengileg án viðbótarkostnaðar á þjónustuvef Creditinfo og á vefverslun Creditinfo.  Til að fá upplýsingar um stjórnarmenn, stjórnendur og prókúruhafa fyrirtækis getur þú sótt gildandi skráningu fyrirtækisins úr hlutafélagaskrá. Þannig getur þú t.d. gengið úr skugga um að tengiliður þinn við fyrirtækið sem þú ert að skoða hafi í raun umboð til að skuldbinda fyrirtækið.

Skjáskot af grunnupplýsingum úr þjónustuvef Creditinfo

Hvernig hefur reksturinn verið?

Áreiðanlegustu upplýsingar um rekstur fyrirtækja er oftast að finna í ársreikningum þeirra. Með ársreikningi er hægt að leggja mat á það hversu vel rekstur fyrirtækis hefur gengið síðustu ár, stærð fyrirtækisins, skuldsetningu og margt fleira. Á þjónustuvef Creditinfo er hægt að sækja skönnuð frumrit af ársreikningum, innslegin eintök og ársreikningaskýrslur sem innihalda upplýsingar úr ársreikningum fyrirtækja fimm ár aftur í tímann. Gott er að hafa í huga að áskrifendur geta vaktað skil á ársreikningum án viðbótarkostnaðar með Fyrirtækjavakt Creditinfo.

Skjáskot af Ársreikningaskýrslu úr þjónustuvef Creditinfo

Lánshæfismat fyrirtækja gefur einnig góða vísbendingu um hvernig rekstur fyrirtækis hefur þróast. Þegar þú flettir upp lánshæfi fyrirtækis færðu ekki aðeins lánshæfiseinkunn fyrirtækisins á þeim degi sem þú flettir henni upp heldur sérðu einnig hvernig hún hefur þróast á síðastliðnum 19 mánuðum til samanburðar við meðaltal þeirrar atvinnugreinar sem fyrirtækið starfar í.

Skjáskot af lánshæfismati úr þjónustuvef Creditinfo

Góð leið til að taka skjóta ákvörðun um rekstrarhæfi fyrirtækja er að kanna hvort þau séu á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem uppfylla ströng skilyrði um góðan rekstur nokkur ár aftur í tímann. Hægt er að sjá hvort fyrirtæki sé á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki þegar því er flett upp á þjónustuvefnum og með þeim hætti sparað tíma við að greina greiðslugetu þess.

Skilyrðin sem fyrirtæki þurfa að uppfyllta til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja

Fjölmiðlavaktin hefur að geyma upplýsingar um alla þá fjölmiðlaumfjöllun sem fyrirtæki hafa hlotið í gegnum árin. Fjölmiðlaupplýsingar eru mikilvægar til að gefa fjárhagsupplýsingum samhengi. Úr ársreikningum er hægt að sjá að hagnaður hafi aukist eða dregist saman á milli ára en úr fjölmiðlaupplýsingum er mögulegt að lesa af hverju reksturinn gekk vel eða illa þetta árið.

Skjáskot af þjónustuvef Fjölmiðlavaktarinnar

Hverjir standa að fyrirtækinu?

Að baki öllum fyrirtækjum eru einstaklingar og til að hafa skýra mynd af rekstri fyrirtækja getur skipt sköpum að hafa skýra mynd af eignarhaldi þeirra.

Eignarhald fyrirtækja getur verið þannig að margir einstaklingar geta átt hlut í fyrirtæki í gegnum fjölda annarra fyrirtækja. Þegar svo ber undir er erfitt að halda utan um alla eigendakeðjuna og erfitt að sjá hverjir það eru sem standa að baki rekstrinum.

Með því að fletta upp skýrslu um Endanlega eigendur fyrirtækja opnast skýr mynd af því hvaða einstaklingar og/eða fyrirtæki eru raunverulegur eigendur. Skýrslan sýnir með myndrænum hætti hvernig eignarhaldið skiptist og hægt er að stækka eða minnka myndina eftir því hvaða eignarhlut þú vilt miða við.

Skjáskot af skýrslu um Endanlega eigendur úr þjónstuvef Creditinfo

Creditinfo býður upp á fjölbreyttar lausnir til að greina eignarhald og tengsl félaga. Hér er að finna yfirlit yfir þær skýrslur sem standa til boða um eignarhald og tengsl félaga hjá Creditinfo og í hvaða tilgangi er best að nota þær.

Hvert stefnir reksturinn?

Þegar þú hefur aflað þér nægra upplýsinga um fyrirtækið og rekstur þess síðustu ár þá stendur eftir spurningin um hversu líklegt það er að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar. Lánshæfismat Creditinfo sýnir líkurnar á því að fyrirtæki fari í vanskil á næstu 12 mánuðum og er því veigamikill þáttur í að ákveða hvort fyrirtæki eigi að koma í reikningsviðskipti og á hvaða kjörum.

Lánshæfismatið er einkunn á skalanum eitt til tíu sem segir til um hversu líklegt er að fyrirtæki fari í vanskil á næstu tólf mánuðum. Fyrirtæki í flokki tíu eru líklegust til að fara í vanskil en fyrirtæki í flokki eitt eru ólíklegust. Lánshæfismat Creditinfo byggir á fjölbreyttum gagnalindum og er reiknað daglega. Það er því kvikur og áreiðanlegur mælikvarði á greiðslugetu fyrirtækja.

Áhrifaþættir í lánshæfismati fyrirtækja

Ef þú hefur ekki ítarleg og uppfærð gögn um stöðu viðskiptavina þinna þá á þitt fyrirtæki hættu á því að verða jafn veikburða og veikasti hlekkurinn í viðskiptasafni þínu. Þess vegna skiptir máli að nota lánshæfismatið ekki einungis í upphafi viðskipta heldur að vakta breytingar á því á meðan viðskiptasambandið varir. Með Viðskiptasafninu getur þú vaktað breytingar sem kunna að verða á lánshæfi eða vanskilastöðu þinna viðskiptavina og þannig gripið hratt til aðgerða ef þeir lenda í greiðsluerfiðleikum.  

Dæmi um hvernig lánshæfi fyrirtækja getur þróast.

Á myndinni hér fyrir ofan sést dæmi um þróun á lánshæfismati fyrirtækis til samanburðar við meðaltal lánshæfismats í þeirri atvinnugrein sem fyrirtækið starfar í. Í þessu tilfelli er lánshæfismat fyrirtækis að versna stöðugt frá og með nóvembermánuði 2018 og þar gefst tækifæri til að grípa til aðgerða áður en fyrirtækið fer í vanskil nokkrum mánuðum síðar. Hægt er að taka saman hversu miklar kröfur eru útistandandi og annað hvort stöðvað frekari reikningsviðskipti eða minnkað útlánaheimildir til að draga úr töpuðum kröfum.

Ferli við ákvörðun reikningsviðskipta

Til að stuðla að skilvirkri ákvarðanatöku um viðskiptavini er mikilvægt að útbúa ferla og skýr skilyrði um reikningsviðskipti. Algengt er að setja t.d. reglu um að fyrirtæki þurfi að vera með lánshæfismat fyrir ofan eitthvað tiltekið skilyrði til að þau geti farið í reikningsviðskipti. Einnig er hægt hafa útlánaheimildir þrepaskiptar eftir því hversu sterkt lánshæfismat fyrirtækja er. Ef umsóknir eru tíðar er einnig hægt að útbúa sjálfvirka ferla utan um reikningsviðskipti með Viðskiptareglum Creditinfo.


Með aðgangi að stærsta safni viðskiptaupplýsinga á Íslandi tekur þú markvissari ákvarðanir í viðskiptum. Kynntu þér áskriftarleiðirnar sem standa til boða hjá Creditinfo.