Gunnar Gunnarsson forstöðumaður ráðgjafar og greiningar hjá Creditinfo skrifar um íslensku fjártæknibyltinguna og fjármálaheim í umbreytingarferli í Markaðnum í dag.

Fjármálaheimurinn er í miklu umbreytingarferli. Fjártækni er á allra vitorði og flestum er það kunnugt að fjártæknifyrirtæki eru líkleg til að umbylta því hvernig við stundum viðskipti og leitum okkur fjármögnunar. Slík fyrirtæki hafa verið stofnuð vegna mikilla tækniframfara og leysa annaðhvort gömul vandamál af hólmi t.d. með auknum hraða og sjálfvirkni, eða þá að þau eru stofnuð á grundvelli nýrra fjármálagerninga og nýrra rafrænna mynta. Sumir hafa gengið svo langt að tala um að bankar muni brátt verða úreltir og að í stað þeirra komi fjöldinn allur af smáforritum sem leysa þá af hólmi.

Eins og staðan er í dag þá lifa hefðbundnir bankar enn góðu lífi, bæði á Íslandi og erlendis. En ný fjártæknifyrirtæki hafa rutt sér rúms á síðustu árum og hafa markað sér djúp spor á fjármálamarkaði. Enginn veit hvernig þetta landslag mun þróast á næstu árum en nú er staðan orðin slík að fyrstu skrefin eru farin að verða ljós.

Spilin á borðið

Fjártæknin er komin til að vera en það er enn óljóst hvernig fyrirtæki á því sviði munu þróast og hvaða hlutverki bankar og aðrar hefðbundnar fjármálastofnanir munu gegna á þessum breyttu tímum. Erlendis hafa bankar brugðist við þróuninni með mismunandi hætti. Sumir bankar ganga beinlínis til höfuðs smærri fjártæknifyrirtækjum og skilgreina sig sem fjártæknifyrirtæki, aðrir vinna í samstarfi með þeim og enn aðrir taka skref til baka og marka sinn sess sem hæglátir heildsölubankar. Tíminn mun svo einn leiða í ljós hver þessara leiða mun skila mestum árangri en allir þátttakendur á markaðnum vita að það er ekki hægt að sitja hjá og gera ekki neitt.

Þótt þróunin hafi gengið hraðar fyrir sig erlendis hafa íslenskar fjármálastofnanir flestar fyrir löngu greint hana og markað sér stefnu. Viðskiptabankarnir þrír hafa lagt spilin á borðið að einhverju leyti og er ekki útlit fyrir að nokkur þeirra hafi áhuga á að sitja hjá.

Flóra af fjártæknifyrirtækjum

Mörg fjártæknifyrirtæki hafa sprottið upp erlendis, mörg hver með einn anga af þeirri þjónustu sem hefðbundnar bankastofnanir hafa áður sinnt á meðan önnur sinna öllum hliðum hefðbundinnar bankaþjónustu á rafrænum grundvelli. Þó nokkur fjártæknifyrirtæki hafa risið á Íslandi nú þegar og eru nær öll í útlánastarfsemi sem er einkar athyglisvert. Flóra erlendra fyrirtækja spannar allt frá innlánastarfsemi og almennri lánveitingu til smærri fyrirtækja til sprotafyrirtækja á tryggingamarkaði. Hingað til virðast engin íslensk fyrirtæki hafa gert atlögu að þessum hliðum fjártækninnar.

Erlendis hafa nokkur sprotafyrirtæki haslað sér völl á innlánamarkaði. Það getur verið að smæð Íslands komi í veg fyrir að slíkt sé yfir höfuð hagkvæmt en þó gætu leynst tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki á þeim markaði sem hefðu einnig áhuga á að líta út fyrir landsteinana. Enn sem komið er hafa fá fjártæknifyrirtæki sérhæft sig í útlánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það gæti verið vegna þess að það er almennt erfiðara að lánshæfismeta fyrirtæki en einstaklinga því þar eru fleiri hlutir sem skipta máli, svo sem viðskiptaáætlun, samkeppni á markaði, fjármálaskipan félagsins, hverjir koma að fyrirtækinu o.fl. Ör tækniþróun gæti hins vegar gert slíka lánveitingu einfaldari og í kjölfarið gætu ný fyrirtæki haslað sér völl á þessu sviði. Annar spennandi vettvangur fjártækninnar er tryggingastarfsemi. Tækniframfarir síðustu ára gera hefðbundin tryggingafélög alveg jafn berskjölduð fyrir aðkomu smærri sprotafyrirtækja og bankana. Neytendur gera í dag auknar kröfur um hraða og skilvirkni í viðskiptum sem tryggingafélög þurfa að mæta.

Þess má einnig geta að íslenskur fjármálaheimur gæti einnig breyst vegna tilkomu erlendra fyrirtækja sem gætu haslað sér völl hér á landi. Það liggur í eðli tæknifyrirtækja að þeim tekst yfirleitt að kljúfa landamæri og það getur einnig átt við um fjártæknifyrirtæki. Það er því ljóst að það er enn óplægður akur í fjártækni á Íslandi og spennandi verður að fylgjast með þróuninni á næstu árum.

Gunnar Gunnarsson, PhD

Forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo.

Greinina má einnig lesa á vef Fréttablaðsins