Kórónufaraldurinn (COVID-19) mun koma til með að hafa gríðarleg áhrif á fjárhag fjölmargra heimila á næstu vikum og mánuðum. Við tókum saman nokkur góð ráð um hvernig mætti best takast á við þær áskoranir sem eru fram undan eru þannig að langtímaáhrifin á fjárhag heimilisins verði sem allra minnst.

Greiðsluhlé og frystingar afborgana

Flestir lánveitendur eru nú þegar farnir að bjóða upp á frystingar á afborgunum lána. Það þýðir að ef þú átt í vandræðum með að standa í skilum vegna Kórónufaraldursins getur þú sótt um greiðsluhlé/frystingar í 3-6 mánuði. Nánari upplýsingar um hvernig þessum frystingum er háttað veitir hver lánveitandi fyrir sig.

Frystingar lána hafa ekki áhrif á lánshæfismat þitt. Ef þú sérð fram á að lenda í vandræðum með að standa í skilum er því mikilvægt að hafa tafarlaust samband við lánveitanda til að forðast vanskil.

Sértu í greiðsluvandræðum sem rekja má til annars en Kórónufaraldursins ættirðu jafnframt að heyra í lánveitendum og viðskiptabankanum þínum sem allra fyrst til að kanna hvaða lausnir eru í boði. Jafnframt veitir Umboðsmaður skuldara aðstoð vegna fjárhagsvanda.

Nú er rétti tíminn til að endurfjámagna

Seðlabanki Íslands hefur lækkað stýrivexti mikið og hafa lánveitendur fylgt því eftir og bjóða lægri vexti. Vextir á húsnæðislánum eru því í sögulegu lágmarki. Þannig má spara talsverðan vaxtakostnað yfir lánstímann. Það er auðveldara að endurfjármagna nú en oft áður. Margir lánveitendur bjóða sjálfvirk ferli fyrir greiðslumat og lánsumsóknir og auðvelt er að bera saman kjör lánveitenda á síðum eins og aurbjorg.is. Jafnframt er orðið ódýrara en áður að endurfjármagna því með breyttum lögum um fasteignalán (2017) lækkuðu lántökugjöld og þak var sett á uppgreiðslugjöld. Sjá meira um endurfjármögnun hér.

Ný fyrirgreiðsla við núverandi aðstæður

Vanti þig aðgang að fjármagni við núverandi aðstæður er ágætis hugmynd að bera saman hin ýmsu lánaform og fjármögnunarkosti á aurbjorg.is.

Það er viðbúið að við þessar aðstæður herði lánveitendur útlánareglur sínar. Því er gagnlegt að skoða lánshæfismat sitt og skuldastöðu. Hvoru tveggja má nálgast á vef Creditinfo mitt.creditinfo.is. Einstaklingar geta þar samþykkt notkun viðbótarupplýsinga við gerð lánshæfismats. Miðlun viðbótarupplýsinga styrkir í flestum tilfellum lánshæfismatið og eykur spágildi þess. Þú getur kynnt þér lánshæfismatið og áhrifaþætti þess hér.

Við vekjum athygli á því að vanskil geta haft mikil áhrif á lánshæfismat þitt og því er mikilvægt að leita strax til lánveitenda og nýta þau úrræði sem í boði eru eins og frystingar afborgana til að forðast vanskil. Eins og áður sagði hafa frystingar ekki áhrif á lánshæfismatið.

Að auki er vert að vita að Ríkisstjórnin kynnti þann 21. mars s.l. ýmis úrræði sem ætlað er að styðja við heimilin í kjölfar Kórónufaraldurins. Þar má nefna aukinn rétt til útgreiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda, sérstakan barnabótaauka og heimild til úttektar séreignasparnaðar upp að 800 þúsund krónum á mánuði í 15 mánuði. Meira um úrræðin má sjá hér.


Skráðu þig á Fréttabréf Creditinfo til að fá nýjustu upplýsingar um áhrif COVID-19 á efnahagslífið ásamt fréttum og ítarefni um þjónustu Creditinfo.