Frá því að kórónuveirunnar varð fyrst vart í Wuhan í Kína fyrir um hálfu ári síðan hefur heldur betur hrikt í stoðum fjármálakerfa heimsins. Ríkisstjórnir hafa nauðbeygðar sett á samkomubann og aðrar takmarkanir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Afleiðingarnar hafa verið óvenjumiklar í sögulegu samhengi og eftirspurn í hagkerfinu hefur nánast þurrkast upp í ákveðnum geirum. Í kjölfarið hefur hlutabréfaverð hrunið á mörkuðum heimsins og olíuverð hefur náð sögulegum lægðum. Flugferðir eru skyndilega bara til í minningunni og flugstöðvar eru jafntómar og New York-borg þegar Tom Cruise sprangaði þar um í myndinni Vanilla Sky.   

Mörg fyrirtæki hafa þurft að bregðast við tekjutapi með uppsögnum eða einfaldlega með því að hætta rekstri. Rekstrarkostnaður fyrirtækja hverfur nefnilega ekki þó að tekjurnar hverfi. Atvinnulausum hefur fjölgað mikið og sums staðar hafa seðlabankar reynt að bregðast við með því að lækka vexti til að örva hagkerfið, t.a.m. hér á Íslandi. Staðan er hvarvetna grafalvarleg og ekki síst í löndum, eins og Íslandi, sem hafa mikinn hag af ferðaþjónustu.  

Ljóst er að aðgerða er þörf til að efla atvinnulífið hér á landi og tryggja að það leggist ekki á hliðina. Ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt til sögunnar þrjá aðgerðapakka til stuðnings einstaklingum og fyrirtækjum í landinu og fjármálafyrirtæki hafa m.a. boðið upp á tímabundna frystingu afborgana af lánum til einstaklinga og fyrirtækja. Í fyrsta aðgerðapakkanum frá 21. mars má finna brúarlán til fyrirtækja í rekstrarvanda. Í brúarlánunum felst að ríkið muni gangast í ábyrgð fyrir 70% bankalána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. 

Stjórnvöld gera ráð fyrir að ábyrgjast 70% af brúarlánum og að fjárhæð ábyrgðar nemi að hámarki 50 milljörðum króna. Það þýðir að heildarfjárhæð brúarlána getur orðið rétt um 71 milljarður króna. Tilgangurinn með brúarlánum er að veita fyrirtækjum stuðning til að greiða laun og annan fastan kostnað og komast þannig yfir erfiðasta hjallann í ástandinu sem ríkir. Fyrirtæki þurfa þó að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta fengið brúarlán og þau þurfa að vera líkleg til að lifa af eftir að faraldurinn hefur gengið yfir, þ.e. vera lífvænleg.  

Hvað eru lífvænleg fyrirtæki? 

Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af heimsfaraldri kórónuveirunnar eru skilyrðin sem fyrirtækin þurfa að uppfylla eftirfarandi (orðalagi hefur verið breytt hér og það stytt): 

  1. Fjárhagsleg vandræði: 
    • Tekjumissir a.m.k. 40% milli ára.  
    • Vandi fyrirtækisins ófyrirséður. 
    • Fyrirtækið geti orðið rekstrarhæft með viðeigandi aðstoð. 
  2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða og þau dugi ekki til. 
  3. Lán verði að hámarki tvöfaldur árslaunakostnaður undangengins árs.
  4. Skilyrði um kjör lána. 
  5. Skilyrði um tímalengd ábyrgðar. 
  6. Launakostnaður a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengið ár. 
  7. Skilyrði um nýtingu láns. 
  8. Takmörkun á umfangi veittra ábyrgða. 

Þó að fyrirtæki uppfylli skilyrðin hér að ofan hefur það ekki endilega í för með sér að þau hafi burði til að lifa af erfiðleikana á næstu mánuðum. Hugtakið „lífvænleg fyrirtæki“ hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við brúarlánin en þó er óljóst hvað það merkir nákvæmlega og hvernig meta skuli hvaða fyrirtæki eru í raun lífvænleg. Ljóst er að hægt er að meta hvort fyrirtæki er lífvænlegt eða ekki á marga mismunandi vegu. Hér á eftir verður umfang brúarlána metið út frá þeim forsendum að fyrirtæki teljist lífvænleg ef þau uppfylla fimm skilyrði: fjögur rekstrartengd og eitt tengt lánshæfismati (skilyrði 2 til 6 hér að neðan).  

Þessi skilyrði eru í anda skilyrða sem notuð eru til að meta fyrirtæki í erfiðleikum í skilningi EES-réttar eins og lýst er í samningi milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Umfang brúarlána

Creditinfo hefur lagt mat á mögulegt umfang brúarlánanna. Við mat á umfanginu voru lögð til grundvallar öll fyrirtæki á Íslandi sem hafa skilað nýjasta ársreikningi sínum til Ríkisskattstjóra fyrir rekstrarárið 2018 eða 2019. Um 36.000 fyrirtæki uppfylla þetta skilyrði. Af þessum 36.000 fyrirtækjum eru þó einungis rétt um 18.000 í virkum rekstri samkvæmt mati Creditinfo og gætu komið til greina fyrir brúarlánin.  

Af þessum 18.000 fyrirtækjum eru á bilinu 1.500 til 2.700 sem talist geta til ferðaþjónustufyrirtækja en ferðaþjónusta er ekki eiginleg atvinnugrein samkvæmt ISAT-flokkunarstaðlinum. Lægri talan (ferðaþjónusta þröngt) nær m.a. yfir ferðaskrifstofur, bílaleigur, hótel, gistiheimili og afþreyingarfyrirtæki en hærri talan (ferðaþjónusta vítt) nær að auki yfir m.a. smásölu og veitingarekstur. Hér á eftir verður miðað við ferðaþjónustu þröngt þegar talað er um ferðaþjónustuna. 

Af skilyrðunum átta hér að ofan voru einungis skilyrði 1, 2 og 6 skoðuð en skilyrði 3, 4, 5, 7 og 8 snúast um brúarlánin sjálf og ábyrgðina og skipta ekki máli í þessari greiningu. Til að skoða hver af þessum 18.000 virku fyrirtækjum uppfylla skilyrðin voru eftirfarandi viðmið lögð til grundvallar en þau eru að mati Creditinfo nægjanleg til að uppfylla þau. Hafa ber í huga að þessi viðmið eru einungis eitt tilvik af fjölmörgum sem hægt er að hugsa sér og vissulega geta fyrirtæki uppfyllt skilyrðin þó að þau standist ekki öll viðmiðin hér: 

  1. Laun/Rekstrargjöld ≥ 25%. 
  2. Á ekki vanskilamál á tímabilinu 1.1.2020 til 1.3.2020. 
  3. Lánshæfisflokkur er 7 eða betri. 
  4. Eiginfjárhlutfall ≥ 10%. 
  5. EBITDA/Heildarskuldir ≥ 10%.
  6. Rekstrarhagnaður/Rekstrartekjur > 0. 

Viðmiðum 2 til 6 er ætlað að ná utan um þau fyrirtæki sem stóðu frammi fyrir ófyrirséðum vanda, þar sem hefðbundin úrræði hafa ekki dugað til og eru líkleg til að verða rekstrarhæf áfram þegar öldurnar lægir í efnahagslífinu. Taflan hér að neðan sýnir hversu stórt hlutfall virku fyrirtækjanna fellur á hverju skilyrði fyrir sig, óháð öðrum. Til samanburðar má sjá sama hlutfall hjá virkum ferðaþjónustufyrirtækjum. 

Af um 18.000 virkum fyrirtækjum eru laun og launatengd gjöld einungis þekkt fyrir um 10.000 fyrirtæki. Fjöldi fyrirtækja sem uppfylla öll sex viðmiðin er um 3.300 en þó vantar launaupplýsingar fyrir um 3.000 fyrirtæki sem uppfylla öll önnur skilyrði en skilyrði 1. Gera má ráð fyrir að launaupplýsingar vanti frekar hjá minni fyrirtækjum en stærri og líklegt er að lægra hlutfall minni fyrirtækja uppfylli skilyrði 1 hér að ofan. Heildarfjöldi fyrirtækja sem uppfylla viðmiðin sex hér að ofan liggur því einhvers staðar á bilinu 3.300 til 6.300. 

Heildarlaunakostnaður þeirra 3.300 fyrirtækja sem uppfylla viðmiðin sex hér að ofan og birta launakostnað í ársreikningum sínum var um 240 milljarðar króna í síðasta ársreikningi. Það samsvarar 20 milljörðum króna á mánuði. Brúarlánaúrræðið er líklega aðallega hugsað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og því er fyrirtækjum með meira en þriggja milljarða króna rekstrartekjur sleppt hér. Í heild er því tæplega 300 fyrirtækjum sleppt en launakostnaður þeirra er um 57% af heildarlaunakostnaði og rekstrartekjur þeirra um 66% af heildarrekstrarkostnaði allra 18.000 fyrirtækjanna. Ef gróft mat er lagt á launakostnað þeirra 3.000 fyrirtækja sem uppfylla viðmiðin en birta ekki launakostnað má áætla að heildarlaunakostnaður allra þessara 6.300 fyrirtækja geti numið um 30 til 35 milljörðum króna á mánuði. Þessar tölur, fyrir önnur félög en þau allra stærstu, eru dregnar saman í töflunni hér að neðan. 

Heildarfjárhæð brúarlána, 71 milljarður króna, dygði því einungis til að greiða launakostnað þessara 6.300 fyrirtækja í um 2 til 3 mánuði. Hafa verður í huga að ekki eru öll þessara 6.300 fyrirtækja í vandræðum og því mun einungis hluti þeirra koma til með að nýta sér brúarlánaúrræðið. Til samanburðar er heildarlaunakostnaður hjá þeim rúmlega tvö hundruð ferðaþjónustufyrirtækjum sem uppfylla viðmiðin um 1,6 milljarðar króna á mánuði. Hægt væri að brúa launakostnað þeirra í heilt ár með 20 milljarða króna framlagi. 

Frá því að fyrstu tveir aðgerðapakkarnir voru kynntir hefur staða fyrirtækja í landinu versnað og hver vika sem líður án frekari aðgerða hefur ýtt fleiri og fleiri fyrirtækjum út á bjargbrúnina. Til að bregðast við stöðunni hefur ríkisstjórnin kynnt til sögunnar þriðja aðgerðapakkann. Í honum má finna ný úrræði fyrir fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna kórónuveirufaraldursins og þeim m.a. gert kleift að sækja um stuðning úr ríkissjóði til að greiða uppsagnarfrest starfsfólks. Að auki hafa reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja verið einfaldaðar. Þessar viðbótaraðgerðir eiga þannig að veita fyrirtækjum skjól meðan versta óveðrið geisar og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot í greinum eins og ferðaþjónustu.