Vextir á húsnæðislánum er í sögulegu lágmarki og er því góður tími til að skoða hvort það borgi sig að endurfjármagna fasteignalán. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti mikið síðustu misseri og lánveitendur fylgja eftir með því að bjóða lægri vexti. Með minni vaxtakostnaði er hægt að spara háar fjárhæðir yfir lánstímann.

Stýrivextir Seðlabankans

Að endurfjármagna er í augum margra mjög flókið og langt ferli, en með mikilli þróun á sjálfvirkum lausnum síðustu ár hefur þetta ferli aldrei verið auðveldara. Eftir að Creditinfo og Arion banki þróuðu saman sjálfvirkt greiðslumatskerfi hefur vinnslutími fasteignalána farið úr vikum niður í daga. Síðan þá hafa fleiri fylgt eftir með sambærilegum lausnum og í dag bjóða margir lánveitendur upp á slíka þjónustu. Stærsti hluti af ferlinu er rafrænn, allt frá greiðslumati að lánsumsókn, og auðvelt er að bera saman kjör lánveitenda á aurbjorg.is.

Lægstu vextir í boði skv. Hagtölum SÍ og verðbólga

Í dag er orðið töluvert ódýrara að endurfjármagna heldur en áður. Með breyttum lögum um fasteignalán 2017 lækkuðu lántökugjöld mikið og þak var sett á uppgreiðslugjöld. Lántökugjald eru í dag á bilinu 35.000-75.000 kr. Það er því hægt að reikna út hvort sparnaðurinn sé meiri heldur en útgjöldin við endurfjármögnun.

Það eru margar ástæður fyrir því að skoða endurfjármögnun á húsnæðisláni. Helstu kostir endurfjármögnunar eru:

 • Lækka heildargreiðslu lánsins
 • Lækka afborganir – hentar ef greiðslugeta minnkar
 • Hraðari eignamyndun – hentar ef greiðslugeta eykst
 • Lægri vextir
 • Fækka lánum – endurfjármagna mörg lán í eitt lán á betri kjörum
 • Breyta úr verðtryggðu yfir í blandað eða óverðtryggt lán

Tvö einföld dæmi:

Verðtryggð og óverðtryggð lán til 25 ára með föstum vöxtum.

Í báðum þessum dæmum þá borgar það sig að endurfjármagna. Þó að lánin væru með uppgreiðslugjald sem er almennt 1-2% af höfuðstól þá sparast háar upphæðir.

*Reiknað er með föstum vöxtum út lánstímann og lánveitanda þar sem allir hafa lánsrétt. Það ber að hafa í huga að hægt er að festa vexti í mis langan tíma eftir lánveitendum eða nota breytilega vexti. Borið er saman lán þar sem 25 ár eru eftir af afborgunartímabilinu við nýtt lán til 25 ára.

Hvað ber að hafa í huga áður en farið er af stað?

Skilmálar á eldri lánum skipta öllu máli svo það sé hagstætt að endurfjármagna. Það fer svo eftir greiðslugetu hvers og eins hvaða leið er best að fara. Viltu lægri afborganir, hraðari eignamyndun, öryggi eða áhættu? Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að skoða áður en ákvörðun er tekin:

 • Hvað skulda ég mikið?
 • Er lánið með uppgreiðsluákvæði?
  • Sum lán hafa uppgreiðsluákvæði sem þarf að reikna inn í dæmið
 • Hver er greiðslugetan mín?
  • Einfalt að fara í greiðslumat á netinu en einnig hægt að áætla greiðslugetu í reiknivélum lánveitenda
 • Hvað er ég með í veðhlutfall?
  • Lánveitendur bjóða upp á mis hátt veðhlutfall
 • Hef ég lántökurétt?
  • Hjá lífeyrissjóðum hafa sjóðsfélagar lántökurétt
 • Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur?
 • Verðtryggt eða óverðtryggt?
  • Verðtryggð lán eru óvarin í verðbólgu. Gott að skoða efnahagshorfur og verðbólguspá og mynda sér sjálfstæða skoðun.
 • Fastir eða breytilegur vextir?

Samantekt

Í flestum tilfellum geta einstaklingar sparað með því að endurfjármagna íbúðarlán á lægri vöxtum. Lántakar ættu að vakta markaðinn vel og skoða reglulega hvort betri kjör standa til boða. Einfalt er að reikna út ábata endurfjármögnunar í lánareikni Aurbjargar en þar er hægt að slá inn forsendur og bera saman kjör.


Á Mitt Creditinfo hefur þú aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu þína og getur séð hvort aðilar sem þú átt í viðskiptum séu að vakta breytingar á þinni stöðu

Ein athugasemd á “Nú er rétti tíminn til að endurfjármagna

Lokað er fyrir athugasemdir.