Nýskráningum á vanskilaskrá hefur fjölgað lítillega á síðustu 6 mánuðum eftir stöðuga fækkun síðustu ára.

Yfir þúsund manns á aldrinum tuttugu og eins til tuttugu og fjögurra ára eru á vanskilaskrá samkvæmt nýjustu gögnum frá Creditinfo sem voru til umfjöllunar í fréttum Stöðvar 2 laugardagskvöldið síðastliðið. Þá hefur nýskráningum á vanskilaskrá farið fjölgandi á síðustu mánuðum eftir stöðuga fækkun síðustu ára. Sigríður Laufey Jónsdóttir, forstöðumaður Þjónustu-og lögfræðisviðs og lögfræðingur Creditinfo segir þróunina áhyggjuefni og bendir á að leggja þurfi meiri áherslu á gott fjármálauppeldi.

Myndin sýnir að nýskráningum á vanskilaskrá hefur fjölgað lítillega á síðustu 6 mánuðum eftir stöðuga fækkun síðustu ára.

„Vissulega er þetta áhyggjuefni og þetta tengist til þess að við þurfum að fara horfa meira til fjármálalæsis og eins og ég vil kannski kalla fjármálauppeldi,” segir Sigríður Laufey í viðtali við Stöð 2.

Þá bætir hún við að ungt fólk sé ekki nógu meðvitað um að skráning á vanskilaskrá geti haft slæmar afleiðingar til framtíðar en Creditinfo hefur heimild til að nota fyrrum skráningar við gerð lánshæfismats í allt að fjögur ár.

„Það er ekki þannig að þegar þú ert búin að borga viðkomandi kröfu og farin af vanskilaskránni þá sé sagan þín horfin,“ bætir Sigríður Laufey við.

Hér er hægt að sjá frétt Stöðvar 2 í heild sinni.