Nýskráningum fyrirtækja og einstaklinga á vanskilaskrá hefur farið fjölgandi frá því í september á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo á vanskilum fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi.

Í greiningunni kemur fram að hlutfall fyrirtækja sem hafa komið ný inn á vanskilaskrá á 12 mánaða tímabili stóð í 3,8% í mars á þessu ári. Á síðastliðnum fimm árum fór hlutfallið hæst í 5,7% árið 2019 en hafði farið stiglækkandi frá þeim tíma til september árið 2022 þegar það stóð í 2%. Myndin hér fyrir neðan sýnir þróunina frá ársbyrjun 2019 til mars 2023.

Í eldri greiningu Creditinfo á þróun vanskila kom fram að greiðslufrestir frá lánastofnunum og fyrirtækjum í kjölfar COVID-19 faraldursins hafi átt stóran þátt í minnkandi hlutfalli nýskráninga fyrirtækja á vanskilaskrá síðastliðin ár. Greinilegt er að breyting hafi orðið á þeirri þróun frá og með september árið 2022 og næstu mánuði þar á eftir.

Gjaldþrot fyrirtækja aukast hratt

Þegar litið er til fjölda gjaldþrota og árangurslausra fjárnáma fyrirtækja á Íslandi ár má sjá að gjaldþrotum fór fækkandi frá árinu 2021 til ársins 2022. Um 320 gjaldþrot voru skráð 2022 í samanburði við 800 til 1.000 gjaldþrot árin 2018 til 2021.

Svo virðist sem að þessi þróun sé að snúast hratt við. Það sem af er 2023 hafa 458 gjaldþrot verið skráð sem umtalsvert fleiri en allt árið í fyrra. Á myndinni hér fyrir neðan sést fjöldi skráðra gjaldþrota fyrirtækja frá árinu 2022 á mánaðargrundvelli. Á fyrstu mánuðum ársins 2023 eru greinilega skráð mun fleiri gjaldþrot en árið 2022.

Árangurslausum fjárnámum fór fækkandi frá árinu 2019 en tóku að aukast á ný árið 2022 eins og myndin hér fyrir neðan sýnir. Fjöldi árangurslausra fjárnáma fyrirtækja var á bilinu 1.800 til 2.600 árin 2020 til 2022 í samanburði við 3.500 og 3.800 árin 2018 og 2019. Í lok mars voru samtals skráð 296 árangurslaus fjárnám en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 voru skráð 202 árangurslaus fjárnám.

Vanskil einstaklinga

Þegar litið er til vanskila einstaklinga sést að þróunin er með sambærilegum hætti og hjá fyrirtækjum. Nýskráningum á 12 mánaða tímabili fór fækkandi frá 2019 til ársloka 2022 þegar þeim fór fjölgandi. Hlutfall nýskráninga einstaklinga lækkaði úr 2,3% í júní 2019 í 0,8% í nóvember 2022 en var búið að hækka í 1,3% í mars 2023.


Fjallað var um greiningu Creditinfo í Morgunblaðinu föstudaginn 14. apríl 2023:

Einnig var fjallað um greiningu Creditinfo í kvöldfréttum RÚV 15. apríl síðastliðinn.