Alls voru stofnuð 2.070 ný fyrirtæki á Íslandi á árinu 2020 en það er fjölgun um 11% frá árinu áður. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Creditinfo á nýstofnuðum hlutafélögum og einkahlutafélögum að undanskildum eignarhaldsfélögum. Greiningin var unnin að beiðni Morgunblaðsins en fjallað var um greininguna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun, 10. febrúar 2021.

Í greiningunni kemur fram að nýstofnuðum fyrirtækjum fjölgaði jafnt og þétt frá árinu 2011 til ársins 2016 en hefur eftir það farið minnkandi á hverju ári til ársins 2020 þegar fjöldinn jókst um 11%. Á myndinni hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2011 til ársins 2020.

Þróun í fjölda nýstofnaðra fyrirtækja frá 2011-2020

Erfitt er að segja til um hvort aukningin í nýstofnuðum fyrirtækjum sé á einhvern hátt tengd afleiðingum COVID-19 faraldursins. Atvinnuleysi jókst töluvert á árinu sem var að líða sem gæti haft það í för með sér að fleiri sjá tækifæri í að hefja eigin rekstur. Einnig gæti verið að hluti aukningarinnar sé vegna nýrra fyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfar gjaldþrots annarra fyrirtækja.

Fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja árið 2020 er nokkuð yfir meðalfjölda nýstofnaðra fyrirtækja frá árinu 2011 til 2020. Fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja árið 2020 var 2.070 á meðan meðalfjöldinn frá árinu 2011 til 2020 var um 1.860. Fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja á síðustu fimm árum er 2.060 sem er aðeins undir heildarfjölda nýstofnaðra fyrirtækja árið 2020.

Fjölgun í smásölu og byggingastarfsemi

Þegar litið er til einstakra atvinnugreina sést að dregið hefur jafnt og þétt úr stofnun nýrra ferðaþjónustufyrirtækja frá árinu 2016. Nýjum fyrirtækjum í sjávarútvegi hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2017 á meðan nýjum fyrirtækjum í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð fjölgaði frá árinu 2019 til 2020.

Þróun fjölda nýstofnaðra fyrirtækja eftir atvinnugreinum 2011-2020

Fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja í smásölu jókst um 47% í fyrra og um 21% árið 2019 á meðan fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja í heildsölu hefur haldist nokkuð stöðugur síðastliðin fimm ár. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja hefur þróast í helstu atvinnugreinum síðastliðin fimm ár:

Þróun fjölda nýstofnaðra fyrirtækja eftir atvinnugreinum 2016-2020

Fjallað var um greiningu Creditinfo í Morgunblaðinu sem kom út í morgun (10. febrúar 2021). Þar er haft eftir Gunnari Gunnarssyni, forstöðumanni greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, að það sé ánægjulegt að sjá fjölgun fyrirtækja í miðjum kórónuveirufaraldri. „Það má velta fyrir sér hvort fjölgunin á nýstofnuðum fyrirtækjum sé afleiðing ástandsins í samfélaginu á þann hátt að fólk, sem hafi misst vinnuna á síðasta ári hafi stofnað fyrirtæki til að finna tekjuleiðir en einnig að stofnuð hafi verið ný fyrirtæki eftir að önnur lögðu upp laupana sökum ástandsins,“ segir Gunnar.

Umfjöllun um greiningu Creditinfo í Morgunblaðinu 10. febrúar 2021

Með aðgangi að stærsta safni viðskiptaupplýsinga á Íslandi tekur þú markvissari ákvarðanir í viðskiptum. Kynntu þér áskriftarleiðirnar sem standa til boða hjá Creditinfo.