Fasteignafélagið Reginn hf. fékk verðlaun fyrir árangur á sviði sjálfbærni meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2022. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Reginn hf. leggi mikla áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri og leggur kapp á að hvetja viðskiptavini til þess sama og hefur þar með víðtækari áhrif á sjálfbæra þróun í samfélaginu.

Þá er einnig nefnt að Reginn mótaði sjálfbærnistefnu árið 2019 sem tók á umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum. Samhliða setti félagið sér mælanleg markmið í þessum þremur flokkum sem unnið hefur verið með góðum árangri. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið.

Grænar áherslur lykilþáttur í rekstri

Dómnefnd minnist einnig á að Reginn fasteignafélag telur að grænar áherslur fyrirtækja séu einn af lykilþáttum í rekstri þeirra ─ eða með þeirra eigin orðum: „með sjálfbærni að leiðarljósi verða til ný viðskiptatækifæri og fyrirtæki verða samkeppnishæfari.“

Reginn er í einstakri aðstöðu til að minnka umhverfisáhrif fasteigna sinna. Helstu neikvæðu áhrifin sem félagið hefur á umhverfið er losun gróðurhúsalofttegunda frá fasteignum þess á rekstrartíma þeirra. Stór þáttur í að mæta þessum áhrifum er umhverfisvottun fasteigna. Með umhverfisvottun fasteigna er m.a. hægt að greina þær áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið auk þess sem þær eru staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna.  Reginn hefur vottað þrjár af stærstu fasteignum eignasafnsins með BREEAM In-use vottun, Smáralind, Katrínartún 2 og Borgartún 8-16 sem alls telja 26% af eignasafni félagsins. Markmiðið er að votta 50% af eignasafni félagsins fyrir lok árs 2025.

Á síðasta ári bauð Reginn upp á græna leigusamninga sem felur í sér að leigutaki setur sér mælanleg markmið, svo sem að minnka sorp, minnka orkunotkun og auka vægi vistvænna samgangna. Reginn er því í góðri aðstöðu til þess að hvetja sína viðskiptavini til þess að huga að sjálfbærni. Markmið félagsins er að þriðjungur leigusamninga verði orðnir grænir árið 2025. Félagið leggur einnig áherslu á grænar samgöngur við fasteignir sínar með hleðslustöðvum fyrir rafbíla, hjóla- og hlaupahjólastæðum.

Fyrir tveimur árum skráði félagið græna umgjörð með það að markmiði að fjármagna umhverfisvottaðar fasteignir og umhverfisvænar fjárfestingar. Reginn var því fyrsta skráða félagið til að gefa út slík bréf. Á síðasta ári var Reginn var langstærsti útgefandi grænna skuldabréfa á innlendum skuldabréfamarkaði, að undanskildum opinberum aðilum, fyrirtækjum í eigu opinberra aðila og bönkum.  

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2022. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu – miðstöð um sjálfbærni. Í dómnefnd sátu Erla Tryggvadóttir formaður dómnefndar, samskiptastjóri VÍS, varaformaður stjórnar Festu, Jón Geir Pétursson, dósent við HÍ sem sæti á í stjórn Festu og Sigríður Guðjónsdóttir, notendarannsakandi á Þjónustu og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar og stofnandi SPJARA.