Tölur úr ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja sýna að samdráttur hófst í geiranum árið 2017. Eitt stórt fyrirtæki er fyrirferðamikið í heildarafkomu allra ferðaþjónustufyrirtækja.

Rúmlega 1.200 ferðaþjónustufyrirtæki hafa skilað ársreikningi fyrir reikningsárið 2018. Þetta eru tæplega 60% allra þeirra fyrirtækja sem skiluðu ársreikningi fyrir reikningsárið 2017. Miðað við afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2018 þá hófst samdráttur í geiranum strax árið 2017 og hefur hún versnað á milli ára.

Athygli vekur að eitt stærsta fyrirtækið í þessum hópi, Icelandair, hefur mikil áhrif á meðalafkomu geirans en samdrátturinn frá árinu 2017 til 2018 minnkar verulega sé fyrirtækið tekið fyrir utan sviga. Fjallað var um samantekt Creditinfo í Morgunblaðinu sl. laugardag.

Þróun fjölda ársreikninga ferðaþjónustufyrirtækja - súlurit

Mikill vöxtur frá árinu 2009

Á síðustu átta árum hefur ferðaþjónustufyrirtækjum fjölgað mikið á Íslandi. Árið 2011 skiluðu samtals 1.435 fyrirtæki í ferðaþjónustunni ársreikningi fyrir reikningsárið 2010 en 2.428 ársreikningum var skilað fyrir reikningsárið 2017. Með árinu 2017 fór að hægja á þessum vexti þar sem nýjum fyrirtækjum fækkaði og meira var um brottfall fyrirtækja í ferðaþjónustunni.

Þróun fjölda ferðaþjónustufyrirtækj - súlurit

Afkoman minnkar

Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig hagnaður fyrir fjármagnstekjur og skatta (EBITDA) og rekstrarhagnaður þeirra fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2018 hefur þróast frá árinu 2010 til ársins 2018. Á henni sést hvernig afkoman hefur vaxið jafnt og þétt til ársins 2016 og svo dregist saman árið 2017 og 2018.

Þróun rekstrarhagnaðar með og án Icelandair – súlurit

Icelandair fyrirferðamikið

Þegar eitt stærsta fyrirtækið í þessum hópi er tekið út fyrir sviga sést hins vegar að afkoman minnkar mun minna frá árinu 2017 til ársins 2018. Árið 2018 skilaði Icelandair tapi upp á rúma 6,7 milljarða króna en það dregur meðaltalið í öllum geiranum niður eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Þróun rekstrarhagnaðar með og án Icelandair - súlurit

Framúrskarandi ferðaþjónustufyrirtækjum fækkar

23. október næstkomandi kemur í ljós hvaða fyrirtæki eru á meðal Framúrskarandi fyrirtækja árið 2019. Þau fyrirtæki sem ná þeim árangri þurfa að uppfylla ýmis skilyrði sem bera vott um stöðugan rekstur. Til að leggja mat á stöðu ferðaþjónustunnar er því áhugavert að skoða hlutfall Framúrskarandi fyrirtækja á meðal ferðaþjónustufyrirtækja.

Líkt og myndin hér fyrir neðan sýnir hefur það hlutfall dregist lítillega saman allt frá árinu 2015. Rétt er að taka fram að hvert ár byggist á rekstrarniðurstöðum ársins á undan. Þ.e. útreikningur á Framúrskarandi fyrirtækjum árið 2018 byggist m.a. á niðurstöðum úr ársreikningum árið 2017.

Heilt yfir stóð fjöldi Framúrskarandi fyrirtækja nokkurn veginn í stað frá árinu 2017 til ársins 2018. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan fækkar fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustunni á meðal Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2017-2018 en félögum í byggingariðnaði fjölgar á sama tíma.