Creditinfo hefur hafið þróun á kerfi sem mun koma til með að miðla upplýsingum um fasteignaveð sjálfvirkt til þeirra aðila sem á þeim þurfa að halda og hafa heimild til að móttaka þær. Kerfið kallast Veðstöðukerfi Creditinfo og mun verða aðgengilegt fyrir lánveitendur fasteignaveðlána sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og fasteignasala.  

Ferlið í dag 

Í fasteignaviðskiptum þurfa fasteignasalar að afla upplýsinga um veðstöðu lána sem hvíla á þeim fasteignum sem þeir selja. Til þess að sækja þessar upplýsingar í dag þurfa þeir að óska eftir skriflegu umboði frá viðskiptavinum sínum til að sækja veðstöðu eigna sem þeir senda síðan áfram í gegnum tölvupóst til lánveitanda til að kalla eftir stöðu á veði eignar. Þegar lánveitandi móttekur beiðnina sækir hann upplýsingarnar í sín kerfi og sendir áfram til fasteignasala. Þetta getur verið tímafrekt ferli fyrir bæði fasteignasala og lánveitendur. 

Ferlið með Veðstöðukerfi Creditinfo 

Með Veðstöðukerfi Creditinfo er öllum þessum upplýsingum miðlað með sjálfvirkum hætti til þeirra aðila sem á þeim þurfa að halda og hafa heimild til að móttaka þær. Kerfið verður sett upp í fyrirspurnarformi með svipuðum hætti og skuldastöðukerfi Creditinfo. Það þýðir að þegar fyrirspurn er gerð í kerfið er hún send rafrænt til lánveitanda sem skilar upplýsingunum rafrænt til baka.  Fasteignasali getur fengið umboð til að kalla eftir veðstöðu fasteigna hjá einstaklingi með rafrænum skilríkjum og upplýsingarnar berast með sjálfvirkum hætti í kjölfarið frá lánveitanda til fasteignasala án símtala eða tölvupósta á milli þeirra.  

Með því að sjálfvirknivæða ferlið spara þátttakendur sér þá vinnu sem fer í að afgreiða beiðnirnar handvirkt í dag​. Með einum smelli skila upplýsingarnar sér til þess sem þarf á þeim að halda óháð afgreiðslutíma lánveitanda​. Með sjálfvirknivæðingu sparast því ekki aðeins tími heldur verður ferlið rekjanlegt og viðkvæm fjárhagsgögn eru ekki send óvarin á milli aðila.    

Hverjir geta nýtt sér Veðstöðukerfi Creditinfo?  

Fasteignasalar 

Með Veðstöðukerfi Creditinfo geta fasteignasalar fengið upplýsingar um veðstöðu hratt og örugglega á einum stað. Þeir þurfa ekki að bíða eftir lánastofnunum og geta fengið svar strax. Með sjálfvirknivæðingu eru minni líkur á villum við skráningu upplýsinga þar sem fasteignasalar fá gögnin beint til sín með rafrænum hætti.  

Lánadeildir banka 

Þegar upplýsingum um veðstöðu er miðlað með sjálfvirkum hætti þurfa starfsmenn hjá lánastofnunum ekki lengur að taka saman og senda handvirkt upplýsingar til fasteignasala. Slíkar upplýsingar eru viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem munu berast með öruggum og skilvirkum hætti til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Þetta eykur öryggi hjá lánastofnunum og sparar tíma og vinnu hjá starfsfólki. Þar að auki getur starfsfólk lánastofnana fengið upp nákvæmt uppgreiðsluvirði lána þegar viðskiptavinir sækja um að endurfjármagna lán með fljótlegri hætti en áður.   

Áhættustýring lánastofnana 

Lánveitendur munu geta kallað í Veðstöðukerfi Creditinfo með reglubundnum hætti fyrir allt lánasafn sitt til að fá greinargóða mynd af stöðu sinna lána. Þannig geta þeir fylgst með ef einhverjar breytingar hafa orðið á lánum sem eru á undan í veðröðinni. Lánveitendur geta því notað kerfið til að meta veðsetningu eigna sem getur haft áhrif á mat á áhættu í lánasöfnum og þar með talið eiginfjárbindingu vegna lána sem er minni fyrir vel tryggð lán.   

Hvernig virkar kerfið? 

Veðstöðukerfi Creditinfo verður aðgengilegt fyrir lánveitendur og fasteignasala í gegnum Þjónustuvef Creditinfo. Hægt verður með einföldum hætti að halda utan um beiðnir um veðstöðuuppflettingar líkt og sést á skjáskotinu hér fyrir neðan: 

Skjáskot af Veðstöðukerfi Creditinfo

Þegar veðstaðan hefur verið sótt hjá einstaklingum verða allar upplýsingar aðgengilegar á Þjónustuvef Creditinfo með einföldum hætti. Einnig verður mögulegt að sækja upplýsingarnar í gegnum vefþjónustutengingu.  

Skjáskot af Veðstöðukerfi Creditinfo

Ekki hika við að hafa samband ef frekari spurningar vakna um Veðstöðukerfi Creditinfo.