Birta lífeyrissjóður hefur nú, fyrstur lífeyrissjóða, tekið í notkun sjálfvirka greiðslumatslausn sem þróuð er með Creditinfo.

Greiðslumatskerfi Creditinfo gerir lánveitendum kleift að meta svigrúm viðskiptavina sinna til lántöku, til dæmis einstaklinga sem hyggja á húsnæðiskaup.

Birta lífeyrissjóður hefur um nokkurra ára skeið nýtt greiðslumatskerfi Creditinfo en tók nýlega skref í átt að aukinni sjálfvirkni og betri þjónustu með sjálfvirku greiðslumati.

Lausnin, sem Birta þróaði með Creditinfo, gefur sjóðfélögum Birtu kost á að sjá bráðabirgðaniðurstöðu greiðslumats síns á nokkrum sekúndum eftir þeirra hentugleika.

Lausnin tengist lánareiknivél Birtu og birtir umsækjendum þá lánamöguleika sem standa til boða út frá gögnum sem eru fyrirliggjandi um umsækjendann. Sjóðfélögum gefst þannig kostur á að velja lán í samræmi við greiðslugetu sína.

Í frétt á vef Birtu kemur fram að reynsla sjóðfélaga sé mjög góð af notkun sjálfvirka greiðslumatsins. Lausnin er enn í mótun en Birta er fyrsti lífeyrissjóðurinn til að bjóða upp á sjálfvirka greiðslumatslausn fyrir sjóðfélaga.

Creditinfo fagnar því að geta tekið þátt í að auka hagræði og skilvirkni til hagsbóta fyrir sjóðfélaga Birtu. Með auknu aðgengi að gögnum og hraðri þróun í hugbúnaðargeiranum er aukin sjálfvirknivæðing orðin raunhæfur kostur fyrir fjölda fyrirtækja.


Creditinfo hefur verið leiðandi í að bjóða upp á lausnir við sjálfvirka ákvarðanatöku um allan heim. Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um þær lausnir sem standa til boða.