Creditinfo hefur þróað og innleitt sjálfvirka rafræna lausn á umsóknum um leigutryggingar í samstarfi við vátryggingamiðlunina Tryggja. Um er að ræða sjálfvirkt ferli við mat á umsækjendum leigutrygginga sem gerir Tryggja kleift að ganga frá afgreiðslu trygginga í rauntíma, segir í tilkynningu.

Tryggja hefur um nokkurn tíma boðið upp á leigutryggingu sem hefur leyst af hólmi hinar hefðbundnu bankaábyrgðir eða fyrirframgreiðslur. Með þessari nýju lausn verður allt umsóknarferlið sjálfvirkt og leigjendur geta fengið staðfesta leigutryggingu á örfáum mínútum í stað nokkurra daga áður.

Sjálfvirknivæðing sífellt að aukast

„Lausnin sem við þróuðum er algjör bylting fyrir leigjendur á markaði. Nú geta þeir nálgast staðfestingu á ábyrgð fyrir leigunni um leið og þeir skoða húsnæðið til dæmis. Þetta fyrirkomulag gefur Tryggja visst forskot á markaði varðandi vinnslu umsókna frá áhættumati til útgáfu tryggingar. Það er ljóst að sjálfvirknivæðing í þjónustu fyrirtækja er sífellt að aukast og það er mikilvægt fyrir Creditinfo að geta smíðað svona sérlausnir,“ segir Leifur Grétarsson viðskiptastjóri hjá Creditinfo.

„Það er virkilega ánægjulegt að geta stytt afgreiðslutíma trygginga hjá okkur á þennan hátt. Við erum að mæta þörfum viðskiptavina og markaðarins með þessari sjálfvirknivæðingu í samstarfi við Creditinfo. Það skiptir sköpum, meðal annars fyrir tilvonandi leigjendur að fá Leiguvernd staðfesta frá okkur hratt og örugglega. Ennfremur gefst þeim einstaklingum sem eru á vanskilaskrá kostur á því að skrá ábyrgðaraðila á umsóknina um Leiguvernd. Umsóknin er þannig metin út frá ábyrgðaraðilanum. Oft eru þetta tímabundnar ráðstafanir og leigjandinn getur síðar breytt skráningunni á ábyrgðinn,“ segir Baldvin Samúelsson, stjórnarformaður og einn eigenda Tryggja.

Tryggja ehf. hefur boðið Íslendingum vátryggingar frá helstu vátryggingafélögum heims frá árinu 1995. Félagið er með sérleyfissamning um sölu á öllum tryggingum Lloyd‘s sem er eitt stærsta tryggingafélag heims. Tryggja veitir jafnframt ráðgjöf til fyrirtækja, sveitafélaga og einstaklinga með almennar vátryggingar, sérlausnir-vátrygginga, útboða og tjónauppgjör. Tryggja á og rekur meðal annars Leiguvernd, Starfsvernd, Vernda barna- og heilsutryggingar. 

Leifur Grétarsson, Smári Ríkarðsson og Baldvin Samúelsson