Nýlega var birtur listi yfir þau 842 fyrirtæki sem Creditinfo telur til Framúrskarandi fyrirtækja árið 2020. Þetta er í ellefta sinn sem Creditinfo veitir þessa viðurkenningu og á þeim tíma hefur ýmislegt breyst í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Viðurkenningin er veitt fyrir rekstrarniðurstöðu eins og hún birtist í ársreikningi fyrirtækja fyrir rekstrarárið 2019 en þrátt fyrir það er litið til ýmissa þátta á borð við lánshæfi fyrirtækja sem sýna fram á stöðu fyrirtækja eins og hún er í dag. Hér verður farið yfir nokkrar áhugaverðar staðreyndir um Framúrskarandi fyrirtæki fyrir árið 2020.

Rekstur framúrskarandi fyrirtækja

Samanlagðar rekstrartekjur allra Framúrskarandi fyrirtækja fyrir rekstrarárið 2019 voru 3.071 milljarður króna. Ef við skoðum þessa stærð aftur í tímann fyrir þessi sömu fyrirtæki sést að þær hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009. Eitt af skilyrðum fyrir því að fyrirtæki teljist Framúrskarandi er að rekstrartekjur séu yfir 50 milljónum króna síðastliðin þrjú ár.

Annað skilyrði fyrir því að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja er að eiginfjárhlutfall sé a.m.k. 20% yfir þriggja ára tímabil. Samanlagt eiginfjárhlutfall allra Framúrskarandi fyrirtækja árið 2020 var 46,8% en það stóð í 25,5% fyrir þessi sömu fyrirtæki árið 2009. Frá árinu 2015 hefur eiginfjárhlutfall þeirra fyrirtækja sem teljast til Framúrskarandi fyrirtækja árið 2020 verið nokkuð stöðugt í kringum 47%.

Afkoma atvinnugreina

Ef við skoðum hlutfall valinna atvinnugreina á meðal Framúrskarandi fyrirtækja sést að miklar breytingar hafa átt sér stað á meðal annars vegar byggingarfyrirtækja og hins vegar ferðaþjónustufyrirtækja. Ferðaþjónustufyrirtækjum hefur fækkað jafnt og þétt frá árinu 2016 til ársins 2020 en á saman tíma hefur byggingarfyrirtækjum fjölgað verulega.

Líklegar ástæður fyrir fækkun ferðaþjónustufyrirtækja geta verið að áhrifin af falli Wow Air koma fyrst í ljós í ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2019 auk þess sem einhverra áhrifa frá COVID-19-faraldrinum er þegar farið að gæta í rekstri þeirra.

Kynjahlutföll Framúrskarandi fyrirtækja

Í viðtali við Morgunblaði í tilefni útgáfu listans yfir Framúrskarandi fyrirtæki segir Brynja Baldursdóttir að jákvæð teikn séu á lofti í kynja­sam­setn­ingu í stjórn­um og framkvæmda­stjórn­um Framúrsk­ar­andi fyr­ir­tækja. „Hlut­fall kvenna í stjórn­um Framúrsk­ar­andi fyr­ir­tækja jókst um eitt pró­sentu­stig frá fyrra ári í 25%, sem er ör­lítið hærra en meðaltal allra fyr­ir­tækja, og hlut­fall kven­fram­kvæmda­stjóra jókst úr 12% í 13%. Þetta hlut­fall er auðvitað enn allt of lágt og við von­umst til að sjá að það haldi áfram að vaxa,“ segir Brynja.

Ef við skoðum þessa þróun yfir tíma sjáum við að vöxturinn á hlutfalli kvenna í framkvæmdastjórn Framúrskarandi fyrirtækja hefur verið minni en hjá fyrirtækjum í heild. Þegar litið er til hlutfalls kvenna í stjórn Framúrskarandi fyrirtækja þá fylgir það nokkuð jafnt hlutfallinu hjá öllum fyrirtækjum á Íslandi.

Nánar er vikið að kynjahlutföllum Framúrskarandi fyirtækja í viðtali við Brynju Baldursdóttur í Atvinnulífinu hjá Vísi.is.

COVID-19 og Framúrskarandi fyrirtæki

Framúrskarandi fyrirtæki eru metin út frá neðangreindum skilyrðum:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skilað á réttum tíma
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár 
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

Flest þessara skilyrða taka mið af ársreikningi síðustu þriggja ára, þ.e. frá 2017-2019 en lánshæfismatið, skiladagur ársreiknings og mæling á því hvort fyrirtæki sé virkt eru þættir sem greina alla jafna stöðu fyrirtækja á yfirstandandi rekstrarári (2020).

Vegna COVID-19-far­ald­urs­ins varð aukin þörf á að rýna öll fyr­ir­tæk­in á list­an­um gaum­gæfilega til ganga úr skugga um að á hon­um væru aðeins fyr­ir­tæki sem stæðu sterk­um fótum út þetta ár.

­Mörg fyr­ir­tæki hafa fengið fryst­ingu lána og njóta ým­issa úrræða frá stjórn­völd­um sem ger­ir það að verk­um að áhrifa far­ald­urs­ins er enn ekki farið að gæta að fullu í láns­hæf­is­mat­inu. Þess vegna rýndum við listann út frá COVID-váhrifamati, sér­stökum mæli­kv­arða á óvissu í rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir­tækja sem þróaður var í samstarfi við Creditinfo í Eistlandi, Lettlandi og Tékklandi vegna COVID-far­ald­ursins­..  Með hon­um var unnt að flokka fyr­ir­tæki eft­ir því hversu mik­il áhrif COVID-19-farald­ur­inn gæti haft á rekst­ur Framúrskarandi fyrirtækja. Þannig gátu sérfræðingar Creditinfo greint ítarlega hvaða fyrirtæki væru í sérstökum áhættuhópi vegna COVID-19-faraldursins til að ganga úr skugga um að listinn gæfi sem réttasta mynd af stöðu rekstrarins.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig Framúrskarandi fyrirtæki 2020 skiptast eftir COVID-váhrifamati Creditinfo:

Listi yfir þau fyrirtæki sem nýttu sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar var gefinn út af Vinnumálastofnun í lok maí síðastliðinn. Sérfræðingar CI skoðuðu sérstaklega þau fyrirtæki sem nýtt höfðu sér þetta úrræði og stóðust jafnframt skilyrði um framúrskarandi rekstur. Tekin var ákvörðun um að refsa ekki fyrirtækjum fyrir að nýta sér úrræðið.

Viðbúið að einhver fækkun verði á listanum á næsta ári þegar áhrifa COVID gætir að fullu í tölunum. En við væntum þess til að fyrirtækin á listanum séu betur í stakk búin til að takast á við erfiðar aðstæður og vonandi koma betur út úr yfirstandandi krísu en ella. Reynslan af efnahagshruninu 2008 sýnir að þau fyrirtæki sem uppfylltu Framúrskarandi skilyrðin komu mun betur út úr henni en meðaltalið. Það þýðir ekki að öll fyrirtækin á listanum komi vel út á næsta ári en þessi fyrirtæki standa mun sterkari fótum þegar á reynir.