Síðastliðin fimm ár höfum við hjá Creditinfo ekki gefið viðskiptavinum jólagjafir og ekki sent út jólakort, heldur efnt þess í stað til góðgerðar­viku sem í ár var haldin aðra vikuna í desember. Hún fer þannig fram að starfsfólk skiptist í hópa sem reyna svo að afla eins mikils fjár og mögulegt er í eina viku. Creditinfo leggur svo sömu upphæð á móti í söfnunina og gefur tíma starfsfólks.

Meðal verkefna þetta árið var jólabingó, hádegisverður fyrir alla starfsmenn (eldaður frá grunni og borinn fram af starfsfólki), stærðfræðikennsla fyrir menntaskólanema, bílaþvottastöð, lukkuhjól og framleiðsla á kryddsalti og sultu svo eitthvað sé nefnt.

Þegar við hófum verkefnið fyrir fimm árum síðan vonuðum við að söfnunin myndi skila um 100 þúsund krón­um. Niðurstaðan fyrsta árið varð hins veg­ar rúm­lega 600 þúsund krón­ur sem fyr­ir­tækið jafnaði að sjálf­sögðu. Í fyrra styrktu starfs­menn fé­lags­ins og Creditinfo Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra, um rúmlega 1,7 milljónir.

Í gær afhentum við Einstökum börnum tæplega 1,4 milljónir. Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum og eru í dag rúmlega 420 fjölskyldur í félaginu. Þeir sjúkdómar og skerðingar sem börn og ungmenni félagsins lifa með eru allir langvinnir og hafa varanleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldur.  Þar sem um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða hafa margir þeirra lítið verið rannsakaðir og í fæstum tilfellum er til eignleg meðferð við þeim.  Allir sjúkdómarnir eru alvarlegir og hafa sumir áhrif á lífslíkur og lífsgæði.  Sumir sjúkdómarnir eru það sjaldgæfir að aðeins örfá tilfelli eru til í heiminum. Nokkur börn í félaginu eru með enn sjaldgæfari sjúkdóma og hafa ekki fengið neina staðfesta sjúkdómsgreiningu þrátt fyrir ítarlega leit.

„Börnunum fjölgar hratt innan félagsins og undanfarið höfum við verið að taka á móti 6-8 nýgreindum alvarlega veikum börnum á mánuði. Þörfin á aðstoð er því mjög mikil og framlag Creditinfo og starfsmanna kemur sér einstaklega vel,“ segir Ágúst Kristmanns, stjórnarmaður og foreldri.

„Góðgerðarvikan er einn af hápunktum ársins og það veitir okkur mikla gleði og ánægju að geta styrkt jafn metnaðarfullt starf og Einstök börn vinna. Við óskum þeim velfarnaðar í störfum sínum og vonum að gjöfin komi að góðum notum,“ seg­ir Brynja Bald­urs­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo.

Við þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegrar hátíðar, friðar og farsældar á komandi ári.

2 athugasemdir á “Starfsfólk Creditinfo styrkir Einstök börn um jólin

Lokað er fyrir athugasemdir.