Síðastliðin fjögur ár höfum við hjá Creditinfo ekki gefið viðskiptavinum jólagjafir og ekki sent út jólakort, heldur efnt þess í stað til góðgerðar­viku sem í ár var haldin fyrstu vikuna í desember. Hún fer þannig fram að starfsfólk skiptist í hópa sem reyna svo að afla eins mikils fjár og mögulegt er í eina viku. Creditinfo leggur svo sömu upphæð á móti í söfnunina.

Meðal verkefna þetta árið var jólabingó, hádegisverður fyrir alla starfsmenn (eldaður frá grunni og borinn fram af starfsfólki), morgunverður, bílaþvottastöð, kakósala og framleiðsla á kryddsalti svo eitthvað sé nefnt.

Þegar við hófum verkefnið fyrir fjórum árum síðan vonuðum við að söfnunin myndi skila um 100 þúsund krón­um. Niðurstaðan fyrsta árið varð hins veg­ar rúm­lega 600 þúsund krón­ur sem fyr­ir­tækið jafnaði að sjálf­sögðu. Í fyrra styrktu starfs­menn fé­lags­ins og Creditinfo Holl­vini Grens­áss með tæplega 1,5 milljónum.

Í dag afhentum við svo Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstendendur þeirra afraksturinn; rúmlega 1,7 milljónir.

„Gleðin og ánægjan sem fylgir þessu verkefni er svo mikil að þetta er orðin árleg hefð hjá okkur. Við óskum Krafti velfarnaðar í störfum sínum og vonum að gjöfin komi að góðum notum,“ seg­ir Brynja Bald­urs­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo.

„Við erum alveg ótrúlega þakklát þegar fyrirtæki og einstaklingar taka höndum saman og styrkja félagið,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts. „Það er einmitt vegna fólks eins og ykkar að félagið getur verið til staðar fyrir félagsmenn okkar. En þess má geta að félagið er alfarið rekið á velvilja fólks og fyrirtækja og því skipta svona framlög félagið gífurlega miklu máli.“

Starfsfólk Creditinfo þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar ykkur gleðilegrar hátíðar – friðar og farsældar á komandi ári.