Tæknifyrirtækið Trackwell hlaut hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir nýsköpun meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2020. Verðlaunin fyrir nýsköpun eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum. Við valið er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti.

Áhersla á nýsköpun hluti af menningu fyrirtækisins

Mat dómnefndar er að Trackwell sé einstakt dæmi um fyrirtæki sem komið sé vel á legg með nýsköpun og hafi með seiglu vaxið jafnt og þétt ásamt því að sinna öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sem stuðli að hugvitsdrifnum hagvexti og skapi verðmæt störf.

Í umsögn dómnefndar segir að Trackwell sé fyrirmyndardæmi um hvernig nota megi tækni fjórðu iðnbyltingarinnar til að auka framleiðni fyrirtækja og veita mun betri yfirsýn yfir rekstur þeirra. Með notkun vélbúnaðar á borð við skynjara, skýjalausna og gervigreindar hafi fyrirtækið þróað fjórar vörur: Tímon fyrir mannauð fyrirtækja, Flota fyrir tækja- og bílaflota, Hafsýn sem sé aflaskráning fyrir útgerðir og Trackwell fiskveiðieftirlit fyrir fiskveiðiþjóðir og eftirlitsstofnanir. Um sé að ræða kerfi sem þróuð séu hér á landi og í góðu samstarfi við viðskiptavini, jafn heima sem utan landsteinanna.

Bent er á að Trackwell hafi sýnt stöðugan vöxt í gegn um árin, en meirihluti tekna fyrirtækisins byggi á kerfisleigusamningum. Þá komi vaxandi hluti tekna fyrirtækisins erlendis frá og ráð fyrir því gert að á þessu ári nemi þær helmingi heildartekna fyrirtækisins. Trackwell er sagt gott dæmi um hvernig áhersla á nýsköpun sé gerð hluti af menningu fyrirtækis og virkur hluti af starfseminni.

„Nýsköpun er grunnur að árangri Trackwell. Nýsköpun er í dag orðin innbyggð í menningu fyrirtækisins og vinnur starfsfólk Trackwell með viðskiptavinum og samstarfsaðilum að því að finna og leysa nýjar áskoranir sem skila sér í lausnum sem stuðla að sjálfbærni, betri nýtingu og hagræðingu. Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir starfsfólk Trackwell og viðskiptavini. Við erum mjög þakklát Creditinfo og Icelandic Startups að taka eftir þessum árangri sem hvetur okkur til enn frekari nýsköpunar,“ segir Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri Trackwell. 

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2021. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og sýndu fram á skýra stefnu í nýsköpun í sinni starfsemi. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Icelandic Startups. Í dómnefnd sátu Ólafur Andri Ragnarsson formaður dómnefndar, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital og Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Ein athugasemd á “Trackwell hlaut verðlaun Creditinfo fyrir Framúrskarandi nýsköpun

Lokað er fyrir athugasemdir.