Upplýst er í grein Ingu Sæland, þingkonu og formanns Flokks fólksins, í Morgunblaðinu 11. febrúar sl., undir yfirskriftinni „Bönnum þessa starfsemi Creditinfo”, að flokkurinn hyggist leggja fram á Alþingi frumvarp um að banna miðlæga vinnslu á fjárhagsupplýsingum. Að baki liggur vilji til þess að hver og einn lánveitandi noti bara eigin gögn við ákvarðanir um lánveitingar. Dregin er ályktun um að með þessu verði aðgangur fólks að lánsfjármagni greiðari, sérstaklega þeirra sem hafa verið á vanskilaskrá. Greinin ber þess merki að ekki var leitað til Creditinfo um upplýsingar eða tilraun gerð til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins. Því er tilefni til að árétta nokkrar staðreyndir um starfsemina. Um leið viljum við bjóða þeim þingmönnum sem hafa áhuga í heimsókn til Creditinfo til að kynna sér starfsemina nánar áður en lengra er haldið á þessari vegferð. 

Starfsemi Creditinfo 

Miðlun fjárhagsupplýsinga eins og Creditinfo stundar er vel þekkt um allan heim. Slík miðlun er forsenda þess að hægt sé að stunda ábyrgar lánveitingar, þ.e. að auka aðgengi að lánsfé og koma í veg fyrir ofskuldsetningu. Þessum upplýsingum er miðlað miðlægt í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við og er ein af þeim grunnstoðum sem Alþjóðabankinn hefur skilgreint að þurfi að vera til staðar á markaði til þess að hægt sé að stunda ábyrgar lánveitingar. Creditinfo hefur komið inn á nokkra markaði, t.d. í Afríku, eftir að hafa unnið útboð á vegum Alþjóðabankans. 

Fjárhagsupplýsingar eru persónuupplýsingar og gilda alls staðar mjög strangar reglur um heimildir til vinnslu, miðlunar og um persónuvernd. Samkvæmt íslenskum lögum starfar Creditinfo með starfsleyfi frá Persónuvernd og er fyrirtækið einnig með ISO upplýsingaöryggisvottun (27001). Það er alveg á hreinu hvaða gögnum Creditinfo miðlar og hvaða ferlar gilda um vinnslu þeirra. 

Til að skoða hvað myndi gerast ef miðlæg fjárhagsupplýsingamiðlun yrði afnumin er einfaldast að skoða hvernig lánaumhverfið var hér áður en slíkri miðlun var komið á fót. Hafi lánveitandi engar upplýsingar til að byggja lánaákvörðun á, hefur hann um þrennt að velja; að lána með mjög háum vöxtum til að vega á móti óvissunni um áhættuna við lánveitinguna, að óska eftir tryggingu/veði, að segja nei. 

Ábyrgar lánaákvarðanir 

Í grein Ingu er gagnrýnt að lánveitendur byggi lánaákvarðanir á gögnum eða líkönum frá þriðja aðila og lagt til að þeir einir framkvæmi lánshæfismat og að fyrri vanskil megi ekki hafa áhrif á matið. 

Það er mjög skýrt í öllum lánalögum á Íslandi að það er lánveitandi sem ber ábyrgð á lánaákvörðun og þannig er það í raun. Allir stórir lánveitendur framkvæma eigið innra mat og byggja á því fyrir sína viðskiptavini. Í þeim tilfellum er lánshæfismat Creditinfo aðeins viðbót við innra matið. Þeir hafa hins vegar ekki upplýsingar um aðra en sína eigin viðskiptavini og hafa þ.a.l. engar forsendur til að meta lánshæfi annarra. Skortur á miðlægum upplýsingum myndi því torvelda fólki mjög að taka lán hjá nýjum lánveitanda eða færa sín lánaviðskipti því nýr lánveitandi þarf annað hvort að biðja um háa vexti eða veð ef hann getur ekki metið lánshæfi viðkomandi. 

Um 85% einstaklinga eru í lánshæfisflokkum A og B sem gerir þeim kleift að sækja um og fá lán hjá öðrum banka en sínum eigin án þess að leggja fram veð eða aðrar tryggingar. Það er ljóst að aðgengi þessa hóps myndi skerðast verulega við það að afnema miðlæga miðlun fjárhagsupplýsinga. 

Stígum fram á veg 

Langbesti mælikvarðinn á hvort fólk geti staðið við skuldbindingar sínar í framtíð eru upplýsingar um hvort það hafi gert það í fortíð. Lánshæfismat er reiknilíkan og fyrri vanskilaskráning er langsterkasta breytan sé hún til staðar, bæði hér og erlendis. Sá sem hefur verið á vanskilaskrá einhvern tímann á síðustu fjórum árum er u.þ.b. 10-15 sinnum líklegri til að fara í vanskil á næstu 12 mánuðum en einhver sem hefur aldrei verið á vanskilaskrá. Fyrri vanskil hafa áhrif á lánshæfismat í allt að fjögur ár frá skráningu og minnka eftir því sem líður frá skráningu. Einstaklingar hafa líka möguleika á að miðla með okkur viðbótarupplýsingum um skuldir sem viðkomandi stendur í skilum með og flettingum í kerfum Creditinfo, til að núverandi fjárhagsstaða endurspeglist sem best. Þetta gagnast sérstaklega þeim sem hafa t.d. einu sinni fengið skráningu á vanskilaskrá en staðið í skilum síðan. 

Það að fólk geti flutt með sér sína fjárhagssögu til að fá fyrirgreiðslu hjá nýjum lánveitendum hefur gjörbylt íslenskum lánamarkaði. Samkeppni hefur aukist og skilvirknin er orðin mun meiri þar sem nú er hægt að taka lánaákvörðun á sekúndum sem áður tók mínútur. Þetta hefur orðið til þess að íslenskum neytendum standa til boða mun fleiri lánamöguleikar en áður og á betri kjörum. 

Leitt er að sjá farið fram með jafn illa ígrundaðar tillögur sem myndu, næðu þær fram að ganga, skerða stórlega aðgang landsmanna að lánsfé, auka hættu á gjaldþrotum vegna ofskuldsetningar og leiða til hækkunar vaxta vegna aukinna afskrifta. Ábyrg miðlun upplýsinga hefur stórbætt lánaumhverfi Íslendinga á síðustu árum og enn er hægt að gera miklu betur. Betur fer á því að stigin séu skref áfram, en ekki aftur á bak.