Ríkari kröfur eru nú gerðar til fyrirtækja um að hafa aðgengilegar upplýsingar um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnunarhætti. Krafan kemur ekki einungis frá samfélaginu sjálfu heldur hafa alþjóðlegar stofnanir á borð við Evrópusambandið boðað aukið regluverk á sviði sjálfbærni.

Þótt upplýsingagjöf um sjálfbærni sé mikilvæg þá hefur ekki verið auðsótt fyrir lánastofnanir og fleiri fyrirtæki að nálgast slíkar upplýsingar og jafnvel erfiðara fyrir almenn fyrirtæki að afla þeirra og birta um eigin rekstur.

Til að komast til móts við auknar kröfur um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni hefur Creditinfo kynnt til sögunnar Veru – nýtt sjálfbærniviðmót fyrirtækisins. Fyrsta útgáfa vörunnar er komin í loftið og geta aðilar með fyrirtækjatengsl nú uppfært sjálfbærniupplýsingar um sín fyrirtæki með einföldum og aðgengilegum hætti. Innan skamms munu viðskiptavinir Creditinfo geta nálgast sjálfbærniupplýsingar um öll íslensk fyrirtæki á þjónustuvef Creditinfo.

Hvaða upplýsingar eru í Veru?

Fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur um árabil safnað upplýsingum um umhverfsiþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti. Árið 2020 gaf Viðskiptaráð í samstarfi við Nasdaq, Festu, IcelandSIF og Staðlaráð Íslands út sérstakar leiðbeiningar um UFS upplýsingagjöf fyrirtækja. Þar kemur m.a. fram að fyrirtæki þurfi að hafa upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda, orkunotkun, kynjafjölbreytni, siðareglur birgja og margt fleira til að geta uppfyllt helstu kröfur um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni.

Creditinfo býður upp á stærsta gagnagrunn viðskiptaupplýsinga á Íslandi ásamt ítarlegu gagnasafni fjölmiðlaupplýsinga. Það er á þeim grunni, ásamt upplýsingum úr öðrum gagnalindum, sem Vera fær sínar upplýsingar. Vera sýnir m.a. upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda, kolefniskræfni, kynjafjölbreytni, mælikvarða fyrir sjálfbærniáhættu, fjölmiðlaumfjöllun tengda sjálfbærni fyrir hvert og eitt félag, stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna í aðfgangakeðju fyrirtækisins ásamt fleiri gagnlegum upplýsingum tengt sjálfbærni.

Af þeim upplýsingum sem standa til boða eru upplýsingar sem Creditinfo aflar úr eigin gagnagrunni auk upplýsinga sem fyrirtæki geta sjálf komið á framfæri. Fyrirtæki geta m.a. bætt við upplýsingum um sjálfbærnistefnu, sjálfbærniskýrslur og UFS áhættumati í gegnum Mitt Creditinfo.

Hvernig uppfæri ég upplýsingar um eigið fyrirtæki?

Framkvæmdastjórar, stjórnarmenn og prókúruhafar fyrirtækja geta með einföldum hætti uppfært sjálfbærniupplýsingar um sitt fyrirtæki á Mitt Creditinfo. Athygli er vakin á því að þessi þjónusta er gjaldfrjáls fyrir almenn fyrirtæki.

  • Þegar farið er inn á Mitt Creditinfo má sjá flipa merktan „Mín fyrirtæki“. Þegar flipinn hefur verið valinn og viðeigandi fyrirtæki opnað, má sjá tengil merktan „Sjálfbærni“ á vinstri hlið síðunnar.
  • Þar inni er hægt að opna Veru og uppfæra ýmsar upplýsingar um sjálfbærni líkt og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá þínum rekstri, sjálfbærnistefnu eða helstu viðskiptalönd.
  • Í þeim reitum sem hægt er að breyta er mynd af penna í efra hægra horni reits.

Þegar viðmót Veru verður aðgengilegt á þjónustuvef Creditinfo geta aðilar nálgast og miðlað á einum stað nauðsynlegum upplýsingum um sjálfbærni m.a. til að framkvæma og standast birgjamat og til að uppfylla auknar kröfur um upplýsingagjöf varðandi sjálfbærni.


Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna um Veru, sjálfbærniviðmót Creditinfo.